19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6378 í B-deild Alþingistíðinda. (5898)

111. mál, áfengt öl

Frsm. 1. minni hl. (Guðmundur H. Garðarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um till. til þál. um almenna atkvgr. um áfengt öl. Þetta nál. er frá 1. minni hl. allshn. Með tilliti til þess að hér er um mjög viðkvæmt og viðamikið mál að ræða tel ég rétt, herra forseti, að lesa upp nál. í heild:

N. hefur fjallað um till. til þál. um almenna atkvæðagreiðslu um áfengt öl. Undirritaðir nm. eru andvígir þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Á 40 ára tímabili, eða frá stofnun lýðveldisins, hefur aldrei farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Það er hæpin afmælisgjöf að efna til þess að þjóðin skiptist í tvær stríðandi fylkingar. Vitað er að hver sem niðurstaðan yrði af slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu teldi sá aðili sem tapaði að ekki bæri að fara eftir niðurstöðunni. Vísast í því sambandi til ræðu Jóns Magnússónar, varaþm. og formanns Neytendasamtakanna, þar sem hann segir í þingræðu er hann mælti fyrir frv. til l. um breytingu á áfengislögum þess efnis að Alþingi heimili framleiðslu og sölu á áfengu öli á innlendum markaði:

„Jafnvel þó meiri hluti fólks væri ekki fylgjandi sölu á bjór tel ég samt að leyfa ætti sölu hans. Ég byggi það á því að þegar um er að ræða leyfðan vímugjafa þá eigi meiri hl. ekki að geta ráðið því hvort aðrir vilji hafa eitthvert annað form en hið viðtekna á þessari neyslu. Þetta er spurning um neyslumunstur almennings og ég álít að varðandi það atriði eigi meiri hl. ekki endilega að geta sagt minni hl. fyrir verkum. Ég lít á þetta sem spurningu um réttindi einstaklingsins og virðingu meiri hl. fyrir skoðunum og vilja minni hl. sem er grundvallarundirstaða lýðræðisviðhorfa. Af því sem hér er rakið tel ég skynsamlegt að Alþingi móti nú þegar stefnu í bjórmálinu.“

Á öðrum stað í sömu ræðu víkur Jón að skyldum þm. og vandkvæðunum á því að bera undir þjóðaratkvæði allar breytingar á áfengislöggjöfinni. Hann segir, með leyfi forseta:

„Nú liggur fyrir Sþ. till. til þál., 111. mál þskj. 138, um almenna atkvæðagreiðslu um áfengt öl. Án þess að ég vilji leggja flm. þeirrar till. orð í munn hygg ég að viðhorf þeirra sé að þoka málinu áfram þannig að út af fyrir sig ætti ekki að vera ágreiningur á milli okkar sem flytjum þetta frv. og flm. þáltill. Hér er ekki verið að neita þjóðaratkvæðagreiðslu, en á það bent að Alþingi á ekki að skjóta sér undan því að ráða fram úr málum með því að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um þau mál sem eru einhver feimnismál eða ef þm, óttast að einhver hluti kjósenda þeirra felli sig illa við afstöðu þeirra. Ef öll ákvæði um framkvæmd áfengismála ættu að vera samkvæmt þjóðaratkvæðagreiðslu gæti orðið tafsamt um úrbætur sem reynslan sýndi að þyrfti að gera.

Í þessu sambandi bendi ég á ummæli og kafla úr áramótabréfi áfengisvarnaráðs til áfengisvarnanefnda. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Hitt er svo annað mál að við kjósum alþm. til að setja okkur lög, m. a. áfengislög, og þeim ber að axla þá ábyrgð sem þjóðin ætlast til að þeir beri en skjóta sér ekki á bak við almenning í máli sem varðar heill og hamingju yngstu kynslóðarinnar og raunar allrar þjóðarinnar.““

Hér kemur það fram að bæði þeir sem vilja áfengt öl og þeir sem eru andvígir tilslökunum ætlast til þess hugrekkis af þm. að þeir taki beina efnislega afstöðu til mála á Alþingi. Með samþykkt þessarar þáltill. eru alþm. að víkja sér undan þeirri ábyrgð og þeim skyldum að taka beina afstöðu til hvort heimila eigi almenna frjálsa neyslu á áfengu öli.

Undirritaðir nm. eru reiðubúnir til að taka efnislega afstöðu í þessu máli, enda liggur fyrir þinginu frv. til l. um þetta málefni.

Með vísan til framanritaðs leggja eftirtaldir nm. til að till. verði felld. Þorsteinn Pálsson var fjarverandi afgreiðslu málsins.“

Undir nál. rita hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson frsm., Ólafur Þ. Þórðarson formaður og Eggert Haukdal.

Ég skal ekki vera langorður herra forseti, umfram það sem þegar hefur komið fram við lestur þessa nál., en vil aðeins segja þetta: Fyrir þinginu liggur frv. til laga um breytingu á áfengislögum þess efnis að Alþingi heimili framleiðslu og sölu á áfengu öli á innlendum markaði. Eftir 2. umr. í Nd. var frv. vísað til allshn. deildarinnar. Skoðun 1. minni hl. allshn. Sþ. kemur fram í nál. sem ég las áðan og vil undirstrika enn á ný, þar sem segir:

„Hér kemur það fram að bæði þeir sem vilja áfengt öl og þeir sem eru andvígir tilslökunum ætlast til þess hugrekkis af þm. að þeir taki beina efnislega afstöðu til mála á Alþingi. Með samþykkt þessarar þáltill. eru alþm. að víkja sér undan þeirri ábyrgð og þeim skyldum að taka beina afstöðu til hvort heimila eigi almenna frjálsa neyslu á áfengu öli. Undirritaðir nm. eru reiðubúnir til að taka efnislega afstöðu í þessu máli, enda liggur fyrir þinginu frv. til laga um þetta málefni.“

Í samræmi við þessa skoðun 1. minni hl. hefur verið óskað eftir því við allshn. Nd.n. afgreiddi málið til deildarinnar og það yrði afgreitt á þessu þingi. Ég er þeirrar skoðunar að hv. alþm. verði að reka af sér það slyðruorð sem af þeim fer, því miður, í þessu máli, að þeir þori ekki að taka afstöðu í hv. Alþingi um að vera annaðhvort með eða á móti því að heimila sterkt öl á Íslandi. Það gera þeir því aðeins að þeir taki umrætt frv. til meðferðar og greiði atkvæði með því eða á móti.

Ég tel það mikið atriði og þýðingarmikið fyrir hv. Alþingi að þetta mál verði afgreitt á þingi. Því miður hefur Alþingi sett niður í augum þjóðarinnar oft og tíðum. Ég held að það mundi vera mjög alvarlegt mál fyrir hv. Alþingi ef það þorir ekki og skýtur sér undan þeirri skyldu að taka af skarið í þessum efnum. (Gripið fram í.) Þetta var óþörf athugasemd, ég var ekki búinn að ljúka máli mínu, hv. þm. gat því sparað sér þetta. Ég hef aldrei, hv. þm., haft það fyrir sið að hlaupa fyrir horn og mun hvorki gera það hér á Alþingi né annars staðar úr því sem komið er, enda aldrei ætlað mér að gera það.

Ég ætlaði einmitt að víkja að þessu atriði og segja: Ég get fyrir mitt leyti lýst því strax yfir að komi þetta frv. til atkvæða í hv. deild mun ég greiða því mitt atkvæði, ég mun segja já við því að heimila framleiðslu og sölu á áfengu öli á Íslandi. Með vísan til þessa og þeirrar grundvallarafstöðu minnar að hv. þm. eigi ekki að víkja sér undan þeim skyldum að setja landsmönnum lög í þessum efnum sem öðrum undirstrika ég þá afstöðu sem fram kemur í nál. l. minni hl. um að fella beri þessa þáltill.