19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6385 í B-deild Alþingistíðinda. (5902)

111. mál, áfengt öl

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í nál. 1. minni hl. allshn., sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson mælti fyrir, kemur fram eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Með samþykkt þessarar þáltill. eru alþm. að víkja sér undan þeirri ábyrgð og þeim skyldum að taka beina afstöðu til hvort heimila eigi almenna frjálsa neyslu á áfengu öli.“ Eitt þeirra atriða, sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson lagði áherslu á í sínu máli, var að þm. þyrftu að reka af sér það slyðruorð sem af þeim fer að þora ekki að taka afstöðu í þessu máli. Í ljósi þessara ummæla er nauðsynlegt að þeir þm., sem mæla með samþykkt þessarar þáltill. með þeirri breytingu sem fram hefur verið lögð, geri grein fyrir því af hverju þeir styðji þessa leið, að fram fari almenn atkvæðagreiðsla um áfengt öl.

Ljóst er að mikill ágreiningur er í þinginu ekki síður en hjá þjóðinni allri um þetta mál. Þm. skiptast ekki í afstöðu til þessa máls eftir stefnu pólitískra flokka eða samtaka sem mörkuð hefur verið um hvort leyfa eigi sölu áfengs öls heldur er ljóst að í þessu máli ræður fyrst og fremst einstaklingsbundin afstaða þm. Þegar svo er vaknar sú spurning hvort ekki eigi að viðhafa þau lýðræðislegu vinnubrögð að þjóðin fái í almennum kosningum að segja álit sitt á þessu máli og dómgreind þjóðarinnar sé ekki síður skynsamlegur og marktækur mælikvarði á réttmæti sölu áfengs öls en einstaklingsbundin afstaða 60 þingmanna. Valfrelsi þjóðarinnar hlýtur því að vera eins gild röksemd og einstaklingsbundin afstaða þm. í þessu máli.

Því hefur verið haldið fram að þeir þm., sem þessa leið vilja fara, séu að skjóta sér undan því að taka efnislega afstöðu í þessu máli. Með sömu rökum er hægt að halda því fram að þeir þm., sem vilja að án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu verði borið undir atkvæði þm. hvort leyfa eigi sölu áfengs öls, séu að skjóta sér undan því og koma í veg fyrir að þjóðin fái að taka efnislega afstöðu til þessa máls. Slík málsmeðferð gæti verið afdrifarík því þeir hinir sömu gætu þar með haft áhrif á aðra niðurstöðu sem fengist í þessu máli á Alþingi eftir að þjóðaratkvæðagreiðsla hefur farið fram. Með þeirri málsmeðferð er ekki síður troðið á rétti þeirra, sem eru á móti sölu áfengs öls, til að segja álit sitt á þessu máli í almennri atkvæðagreiðslu en þeirra sem vilja heimila valfrelsi hjá þjóðinni í þessu máli.

Það er einfaldlega rangt, sem haldið hefur verið fram, að með till. um þjóðaratkvæðagreiðslu séu þm. að skjóta sér undan ákvarðanatöku í þessu máli. Ég er hvenær sem er tilbúin til að taka slíka efnislega afstöðu til þessa máls sem ýjað er að í nál. meiri hl. að við séum að skjóta okkur undan að gera, sem viljum að viðhöfð verði önnur málsmeðferð í þessu máli, þ. e. að þjóðin fái fyrst að segja álit sitt á þessu máli í almennum kosningum áður en endanleg ákvörðun er tekin á Alþingi. Sú leið er hvort tveggja í senn lýðræðislegri og eðlilegri leið.