21.05.1984
Neðri deild: 101. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6437 í B-deild Alþingistíðinda. (5967)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um þingsköp til að spyrjast fyrir um það hverju það sæti að mál, sem hæstv. félmrh. mælti hér fyrir 28. mars s. l. og fjallar um ríkisábyrgð á launum, mál sem var vísað til félmn. 2. apríl og hefur nú verið þar í umfjöllun að ég vænti í kringum 7 vikur, er ekki komið hér til deildarinnar aftur. Ég tel að full ástæða sé til að vekja athygli á þessu. Hér er um að ræða að mínu viti réttindamál sem leiðréttir að nokkru atriði sem örðugt hefur verið við að fást að því er varðar launakröfur á hendur ríkinu. Hér er um að ræða stjfrv. Kannske skýtur það skökku við að stjórnarandstæðingur veki athygli á slíku og reki á eftir stjfrv. til afgreiðslu en þetta sýnir hversu við þm. Alþfl. erum glöggir og réttsýnir, viljum að mál nái fram að ganga séu þau til bóta þó að hæstv. ríkisstj. hafi þau flutt.

Ég tel ástæðu til að spyrjast fyrir um það hverju slíkar tafir sæti í ljósi þess að nú er rutt hér inn á borð þm. stórum lagabálkum á síðustu dögum þingsins og þin nefndum ætlað að afgreiða þau svo til á færibandi. Ég nefni sem dæmi að þrjú slík mál komu til hv. samgn. þessarar deildar s. l. laugardag um hádegi og eftir því óskað að hún ljúki þeim málum af áður en þingi verður slitið nú að líkindum á morgun. En mál, sem eru tiltölulega miklu einfaldari eins og það sem hér um ræðir og rætt var 28. mars, vísað til nefndar 2. apríl, sér ekki dagsins ljós enn frá hv. nefnd. Ég vildi því gjarnan spyrja hv. formann félmn., sem ég hygg að sé hv. þm. Þorsteinn Pálsson, hverju það sæti að hv. n. hefur ekki skilað áliti um þetta stjfrv. sem er að vissu leyti til hins betra miðað við gildandi lög.