21.05.1984
Neðri deild: 101. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6446 í B-deild Alþingistíðinda. (5991)

115. mál, lífeyrissjóður bænda

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er þrennt í sambandi við þetta frv. sem ég vil gera að umtalsefni og sem fyrirvari minn byggist á. Í fyrsta lagi kemur það fram í grg. að fjárhagsgrundvöllur sjóðsins hafi ekki verið metinn. Hér eru veigamiklar breytingar á ferðinni varðandi starfsemi sjóðsins, en það er tekið fram í grg. að ekki hafi verið lagt heildarmat á fjárhagsstöðu né fjárhagshorfur sjóðsins fyrir og eftir breytinguna. Það er hins vegar gefið í skyn að breytingin, sem hér er verið að lögfesta, muni ekki hafa veruleg áhrif á fjárhagsstöðuna sem slíka, þ. e. þá væntanlega hvorki til hins betra né hins verra. Ástæða hefði verið til á þessu stigi að fá mat á fjárhagsstöðu sjóðsins.

Í annan stað er þess getið í aths. að í þessum lögum, þ. e. í II. kafla þeirra, sé ekki að finna neina framtíðarlausn á fjármögnun lífeyrisgreiðslna til þeirra bænda sem skiluðu miklum hluta starfsævi sinnar fyrir stofnun lífeyrissjóðsins. Hér er sem sagt þrátt fyrir þessa endurskoðun á sjóðnum skilinn eftir mjög verulegur og sár þáttur í lífeyrisréttindum, sem vitaskuld verður að taka á, eins og ég tel að hafi komið fram hér í máli hv. síðasta ræðumanns.

Í þriðja lagi vil ég benda á að í þessu frv. eru allmerkileg ákvæði um lífeyrisréttindi heimavinnandi maka. En þessi réttindi taka einungis til heimavinnandi maka í þessari einu stétt. Nú er það vitaskuld gott og gilt að slíku ákvæði sé komið í lög fyrir eina stétt. En ég hefði talið að það ætti að athuga þetta mál að því er aðrar stéttir varðar líka, það ætti að vinna að því að koma á sömu eða svipuðum réttindum fyrir heimavinnandi maka í öðrum stéttum.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur einmitt flutt till. til þál. um þetta efni sem hefur legið hér fyrir þinginu. Ég mæltist til þess í fjh.- og viðskn. að n. lýsti því yfir af þessu tilefni að hún teldi að það ætti að vinna að því að heimavinnandi makar í öðrum stéttum fengju hliðstæð réttindi eins og hér er hugmyndin að lögfesta að því er varðar þessa einu stétt. Nm. voru ekki til þess reiðubúnir og hefur það hvergi komið fram í framsögu né heldur í nál. Ég vek athygli einmitt á þessu máli. Mér finnst náttúrlega nokkuð skondið að menn séu annars vegar reiðubúnir að lögfesta réttindi fyrir eina stétt, eins og hugmyndin er að gera í þessu frv., en fáist ekki einu sinni til að afgreiða út úr n. þáltill. sem varðar athugun á þessu máli fyrir allar stéttir í landinu.

Eins og ég gat um áður hafa þm. Alþfl. flutt till. til þál. um þetta efni. Hún er 5. mál þingsins og 1. flm., Jóhanna Sigurðardóttir, mælti hér fyrir henni á sínum tíma. Þar segir með leyfi forseta m. a.:

„Alþingi ályktar að fela fjmrh. að beita sér fyrir því í samráði við lífeyrissjóðina að nú þegar verði komið á samræmdum ákvæðum allra lífeyrissjóða um eftirfarandi þætti í starfsemi þeirra:

1. Makalífeyrir verði gagnkvæmur hjá lífeyrissjóðum, þannig að bæði kynin njóti sambærilegra réttinda til makalífeyris eftir því sem reglur lífeyrissjóðanna kveða á um.

2. Áunnin stig hjóna eða sambúðarfólks verði lögð saman og skipt til helminga á sérreikninga þeirra fyrir þann tíma sem sambúð varir. Sérhver aðili fái þannig greiddan lífeyri í samræmi við áunnin stig. Þeir sem eru heimavinnandi og fráskildir fari ekki varhluta af áunnum lífeyri.“

Þriðji liðurinn fjallar síðan um annað efni en ég skal rekja hann líka með leyfi forseta:

„3. Upplýsingaskyldu lífeyrissjóða gagnvart sjóðfélögum á þann hátt að sérhver sjóðfélagi fái árlega sent yfirlit yfir áunnin réttindi hjá lífeyrissjóðunum.“

Þetta þriðja atriði er náttúrlega utan við efnissvið þess máls sem ég geri hér að umtalsefni en engu að síður mikilvægt. Meginatriðið er að setja í gang, skv. því sem hér er lagt til, þá vinnu sem nauðsynleg er til að kanna þetta mál.

Ég vænti þess að þd. allri, eða a. m. k. flestum þm., séu ljósir ýmsir þeir ágallar sem eru á lífeyrisréttindakerfinu. Það hefur komið mjög glögglega í ljós í opinberri umræðu. Einkum og sér í lagi hefur komið til umr. staða fráskilins maka þar sem hinn fráskildi hefur unnið að heimilisstörfum alla sína tíð meðan makinn vann utan heimilis og safnaði lífeyrisréttindum. Oft hefur það þá bitnað á eiginkonunni í þessu tilviki. Það hefur verið karlmaðurinn, eiginmaðurinn sem hefur safnað lífeyrisréttindum, konan verið heima við og unnið á heimilinu, en kæmi síðan til skilnaðar var hennar framlag í þeirra sameiginlega ævistarfi að engu metið. Þannig er þetta núna. Það er þetta atriði sem þáltill. okkar Alþfl.-manna m. a. snýst um. Það er þetta atriði sem það mál sem ég geri hér að umtalsefni snýst um, nefnilega það að viðurkennd sé í þjóðfélaginu sú vinna sem er unnin á heimilinu, vinna þess aðila sem er heimavinnandi sé viðurkennd, eins og hér er verið að gera að því er varðar eina stétt landsins.

Ég skal ekki gera þetta öllu meira að umtalsefni. En ég tel að nú hefði þinginu verið sæmst einmitt við afgreiðslu þessa máls að marka þá stefnu að jafnframt skuli unnið að því að jafna réttinn að því er varðar aðrar stéttir í þjóðfélaginu. Það skyldi unnið að því að aðrar stéttir í þjóðfélaginu gætu fengið að njóta sömu réttinda og hér er hugmyndin að lögfesta að því er varðar eina stétt, að því er varðar þá stétt sem við landbúnað vinnur.

Herra forseti. Vissulega hefði verið ástæða til að gera það sérstaklega að umtalsefni við þetta tækifæri að hér koma til afgreiðslu þingsins hvert á fætur öðru ýmis mál sem varða lífeyrisréttindi og lífeyrissjóði. Svo hefur verið nokkur undanfarin ár. Þm. sitja við það löngum stundum að rýna í frv. sem varða hina margvíslegu lífeyrissjóði í landinu. Þetta er flókin löggjöf og hún er ósamræmd. Það eru ein lög fyrir hvern lífeyrissjóð og síðan er starfað eftir margvíslegum reglugerðum. Ég held að þetta mál allt saman ætti að minna okkur á það að við komumst ekki út úr þessum farvegi og getum ekki tryggt öllum sambærileg réttindi hér á landi, og tryggt það að allir njóti réttinda, öðruvísi en við tökum upp einn sameiginlegan lífeyrissjóð, sameiginlegt lífeyrissjóðskerfi fyrir alla landsmenn. Við þessu hafa menn löngum veigrað sér en það er orðið meira en tímabært að tekið verði á því verkefni — ekki bara vegna þess að ýmsir verði út undan heldur líka vegna þess að reglurnar eru ekki í samræmi hver við aðra hjá hinum ýmsu lífeyrissjóðum. Og í þriðja lagi, og síðast en ekki síst, vegna þess að eins og kerfið er núna veit eiginlega enginn hvar hann stendur. Menn eiga að tína lífeyrisrétt sinn upp úr þúsund bókum. Menn eru í rauninni meðlimir í mörgum mismunandi lífeyrissjóðum á ýmsum æviskeiðum.

Að endingu, herra forseti, vil ég ítreka þann fyrirvara sem ég hef varðandi afgreiðslu þessa máls. Ég hef fyrirvara að því er varðar í fyrsta lagi fjárhagsstöðu sjóðsins, sem er ekki upplýst, og mér þykir mjög miður að svo skuli vera og málið skuli koma hér til afgreiðslu án þess að fjárhagsstaðan sé upplýst og könnuð. Í annan stað hef ég fyrirvara varðandi það að fundin verði úrlausn fyrir þá öldruðu bændur sem ekki hafa áunnið sér rétt skv. því kerfi sem verið hefur eða hér er verið að lögfesta, vegna þess að þeir skiluðu miklum hluta starfsævi sinnar fyrir stofnun lífeyrissjóðsins, en þetta er einmitt sá hluti stéttarinnar sem nú er að láta af störfum eða hefur látið af störfum.

Í þriðja lagi hef ég fyrirvara um það að þingið megi nú marka sömu stefnu að því er varðar heimavinnandi maka í öðrum stéttum. Það er í trausti þess að þingið taki á því máli sem ég felst á að þetta frv. verði nú samþykkt eins og það liggur fyrir.