22.05.1984
Sameinað þing: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6577 í B-deild Alþingistíðinda. (6181)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til þess að lýsa í örfáum orðum undrun minni yfir því skilningsleysi sem fram kemur hjá þeim flokksbræðrum hv. þm. Bandalags jafnaðarmanna. Hv. þm. Stefán Benediktsson tók hér dæmi í upphafi síns máls um þrjú eða fjögur lán til eins ákveðins fyrirtækis. sannleikurinn er sá að lán úr sjóðum eru veitt í áföngum eftir því sem miðar. Málið er ósköp einfalt ef hann kynnti sér hlutina. Það er lán til véla og bygginga og þetta er ekki borgað út fyrir fram. Þetta er einfaldlega borgað út eftir því sem framkvæmdum miðar og er síður en svo við að athuga. Hitt væri miklu meira athugavert ef peningunum væri hent til viðkomandi fyrirtækis áður en farið væri í framkvæmdina. Hv. þm. tók dæmi um Kaupfélag Eyfirðinga, að því væri lánað. Þetta er að sjálfsögðu fyrirtæki sem heldur uppi gífurlegri atvinnu í byggðarlagi. Er athugavert þó að slíkt fyrirtæki fái eitthvert smálán í uppbyggingu? Þetta er í raun og veru alveg furðulegt skilningsleysi.

Hv. þm. Guðmundur Einarsson gagnrýndi að þm. sætu í stjórn Framkvæmdastofnunar. Það hefur aldrei verið fundið að því að þm. eru í bankaráðum og eru búnir að vera um áratugi. Það þykir ekki athugavert. Framkvæmdastofnun ríkisins birtir skrá að loknu hverju ári yfir öll sín útlán og þarf ekkert að skammast sín fyrir þau, hún birtir þau. Það getur vel verið að einhver smámistök fljóti þá með, en það sér þá almenningur. En hvernig væri að aðrar bankastofnanir í landinu birtu skrá um öll sín útlán? Væri ekki þörf á að fá það? Þetta er eina stofnunin í landinu sem dettur í hug að birta sín útlán. Hér er tímaleysi og ég sé ekki ástæðu til að tefja tímann. Ég vildi aðeins lýsa undrun minni á málflutningi hv. þm.