22.05.1984
Sameinað þing: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6578 í B-deild Alþingistíðinda. (6183)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Vegna orða hv. 3. þm. Vestf. vildi ég hógværlega mega beina því til hans vegna orða um opin augu að hann mætti upp ljúka sínum eigin augum og kynna sér tillöguflutning BJ hér í vetur og málflutning. Ég vil minna hann á þáltill. um mótun byggðastefnu, sem flutt var hér strax í upphafi vetrar. Ég vil minna hann á tillöguflutning um atvinnuuppbyggingu, sem flutt var hér, en því miður allt of síðla vetrar til þess að hún geti komið hér til umr.

Sú þróun, sem lýst er í skýrslu Framkvæmdastofnunar, hefur vakað hér lengi við sjóndeildarhringinn og mikið verið talað um hana af mörgum. Menn hafa talað um rangar fjárfestingar í þessu þjóðfélagi og óhugnanlegar afleiðingar þeirra og menn hafa bent á ýmis ráð til úrlausnar og menn hafa lýst áhyggjum sínum yfir þessu ástandi. Það er það sem hér er til umr. í raun og veru.

Sú bjartsýnislega uppbygging, sem átti sér stað á þeim áratug sem lýst er í skýrslu Framkvæmdastofnunar, var að stórum hluta að því er virðist blekking. Fjárfestingin var um ráð fram. Hún skilaði ekki þeim árangri sem skyldi og núna situr landsbyggðin eftir í sárum, stendur ekki undir þeim röngu fjárfestingum sem átti að byggja framtíðina á. Á þessum vanda verður að taka. Fyrir því hafa mín augu verið opin alla tíð og þess vegna hefur minn tillöguflutningur og málflutningur verið með þeim hætti sem hann var hér á þingi í vetur.