16.11.1983
Neðri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

39. mál, Landsvirkjun

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í deilu þeirra heiðursmanna sem hæst láta í þessari umr., en ætla að gera örstutta grein fyrir því hvers vegna ég er meðflm. þessa frv.

Hið háa orkuverð sem almenningur hérlendis þarf að greiða á sér vitanlega fleiri en eina orsök. Veigamesta orsökin er að mínu viti hraðari uppbygging virkjana en við réðum við með góðu móti. Flest orkuver okkar eru tiltölulega nýreist og hafa að öllu leyti verið reist fyrir lánsfé. Fjármagnskostnaður er því gífurlega mikill. En auk þess hafa orkuverin reynst dýrari í byggingu en reiknað var með í upphafi. Við þessum ástæðum og afleiðingum þeirra er lítið að gera annað en að skoða þær sem víti til varnaðar. Dreifingarkostnaður er svo af eðlilegum ástæðum mjög mikill.

En ein ástæðan fyrir of háu raforkuverði eru hinir misheppnuðu samningar um orkuverð til stóriðju. Stóriðjan er að vísu stór viðskiptavinur og á rétt á hagstæðum kjörum, en það eru almenningsrafveiturnar einnig, og fyrr má nú gagn gera. Sá aðstöðumunur, sem nú er í gildi, er fáránlegur. Gildandi lagaákvæði hafa ekki tryggt eðlilega kostnaðarskiptingu af raforkuframleiðslu milli stórnotenda og almenningsrafveitna.

Nú eru uppi áform um orkufrekan iðnað af ýmsu tagi. Stefna stjórnvalda er sú, að erlendir aðilar skuli koma þar til skjalanna. Kvennalistinn hefur marglýst yfir andstöðu sinni við áform af þessu tagi og mun berjast gegn þeim. En fari svo að Íslendingar velji sér það hlutskipti að þurfa að semja um frekari orkusölu til erlendra aðila ættu dæmin úr fortíðinni að hafa kennt okkur að þar er betra að hafa varan á. Því er nauðsynlegt að mörkuð sé stefna í því hver megi vera hámarksmunur á verði milli þessara viðskiptavina Landsvirkjunar. Þetta er því að mínu mati þjóðþrifamál.