21.11.1983
Neðri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

45. mál, Norræni fjárfestingarbankinn

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vona að hvatinn að þessari umr.sé ekki sá hjá hv. 3. þm. Reykv. að reyna að etja okkur saman, hæstv. viðskrh. og hæstv. fjmrh. Það læðist sú hugsun að mér.

En ég er búinn að athuga einmitt þann punkt sem virðulegur 3. þm. Reykv. gat um. Fyrirkomulagið var það, sem hann gat um, að ríkissjóður var ábyrgur og greiðsluaðili í þessa alþjóðasjóði, þ. á m. Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. En í lögum um Seðlabankann segir að Seðlabankinn sé nú lögum samkvæmt hinn fjárhagslegi aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þar í fólust mín mistök þegar ég gerði aths. við þetta framlag, því ég hélt í fyrstu að það yrði beint framlag úr ríkissjóði og hér væri Alþingi að binda ríkissjóði bagga umfram það sem fjmrh. gat sætt sig við. En svo er ekki og hér er ekki um nýtt framlag að ræða, heldur er þetta tilfærsla af hinum hefðbundna gjaldeyrisvarasjóði Seðlabankans yfir í geymslu annars staðar, þ.e. hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hér er því ekki um neina nýja peninga að ræða, heldur tilfærslu á sjóðum Seðlabankans, sem veitir svo aftur aukin yfirdráttarréttindi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.