22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

80. mál, kostnaður af kynningu á efnahagsaðgerðum Sjálfsæðisflokks og Framsóknarflokks

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. bar það fram sér til varnar að stjórnvöld gætu notað þennan flugvélakost. Alþingi er hluti af þessum stjórnvöldum. Ber að skilja hæstv. ráðh. þannig að þingheimur allur geti, ef hann á leið um landið líkt og þm. eiga yfirleitt, hringt eins og forsrh. til flugmálastjórnar og Landhelgisgæslu og spurt að því hvort flugvélarnar séu á leiðinni á Selfoss eða einhverja aðra staði og geti óskað eftir því að flugvélin lendi í leiðinni? Það væri nauðsynlegt til þess að reyna í eitt skipti yrir öll að koma í veg fyrir misnotkun stjórnmálamanna á almannafé að fá alveg hreint fram hvaða reglur gilda í þessum efnum. Þess vegna óska ég eftir því að ráðh. komi hér upp aftur og svari því skýrt og skorinort: Gildir þetta einnig um Alþingi eða eru þetta einhver forréttindi framkvæmdavaldsins í landinu?

Þessi flugvélakostur er ekki einkaeign framkvæmdavaldsins. Framkvæmdavaldið í landinu hefur engan sérstakan rétt á því að nota þessar flugvélar umfram aðra aðila að stjórn landsins. Fyrst forsrh. ver sig með þessum efnum þá væri rétt að fá alveg skýrt fram hvort e.t.v. þm. geta farið að spara Alþingi ferðakostnað. Hann er ærinn, menn vita það. Það er mikið talað um sparnað í þjóðfélaginu. Getum við kannske farið að grípa til þeirra sparnaðarráðstafana að nota þessar flugvélar?

Þögn Sjálfstfl. í þessari umr. hefur vakið athygli. Ber að skilja það sem svo að þingheimur Sjálfstfl. og ráðh. hafi lagt blessun sína yfir þetta ferðalag forsrh.? Þessi sóun á almannafé hafi verið gerð með bæði vitund og samþykki Sjálfstfl.? Það væri æskilegt að einhver ráðh. Sjálfstfl. eða hinn nýkjörni formaður flokksins svöruðu því hér svo að menn viti ljóst og greinilega hverjir bera ábyrgð á þessu máli öllu.