22.11.1983
Sameinað þing: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

372. mál, bráðabirgðasamningur milli Íslands og SwissAluminium

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Hér fer fram framhald umr. sem hófst í síðustu viku um skýrslu hæstv. iðnrh. til Alþingis um bráðabirgðasamning milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium. Hæstv. iðnrh. rakti í framsöguræðu sinn gang deilunnar við Alusuisse, en gangur þessarar deilu kom oft til umr. á s.l. Alþingi. Það kom mjög glöggt fram í ræðu hæstv. iðnrh., sem reyndar var oft rifjað upp í umr. á síðasta þingi, að fyrrv. iðnrh., hv. 5. þm. Austurl., náði engum árangri í því mikla hagsmunamáli Íslendinga að fá rafmagnsverð frá ÍSAL hækkað.

Ég ætla ekki að rifja upp þær miklu umr. sem fram fóru oft um þetta mál á síðasta þingi né endurtaka það sem þá var sagt, þingtíðindi bera vitni um það, en þó minni ég á að fyrrv. iðnrh., hv. 5. þm. Austurl., var oft mjög harðlega gagnrýndur fyrir alla málsmeðferð í þessu máli. Það lá ljóst fyrir á þingi s.l. vor, þegar því lauk, að hv. 5. þm. Austurl. mundi aldrei geta náð neinu samkomulagi við Alusuisse, enda vinnubrögð öll með þeim hætti. Það var t.d. á það bent, að í raun fóru aldrei fram neinar alvörusamningaviðræður milli íslensku ríkisstjórnarinnar eða fyrrv. iðnrh. og Alusuisse. Hér var meira um að ræða sviðsetningar í ljósi fjölmiðla, en öll sú þrotlausa vinna sem hlýtur að liggja að baki slíkum samningum var látin liggja á milli hluta. Það var líka bent á að í þessu máli öllu voru mjög rangar áherslur, þar sem deilan um skattana var látin sitja í algeru fyrirrúmi, en það sem mestu máli skiptir, hækkun rafmagnsverðs, hvarf í skuggann.

Það er mjög fróðlegt að lesa þær athyglisverðu yfirlýsingar sem fyrrv. hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson gaf hér á Alþingi fyrir tæpu ári, er hann sagði sig úr álviðræðunefndinni, og reyndar oft í umr. síðar, þegar hann lýsti vinnubrögðum þáv. ráðh. í þessu máli. Þetta vakti ekki síst athygli þegar haft er í huga að þessi fyrrv. þm. var stuðningsmaður þáv. ríkisstj. og bar því að vissu leyti ábyrgð á setu þáv. hæstv. iðnrh. í ráðherraembætti.

Þessu máli lauk hér á Alþingi rétt áður en því var slitið á þann veg að flutt var till., sem af hálfu þm. var túlkuð sem vantrauststill. á þáv. hæstv. iðnrh., og að henni stóðu allir flokkar nema Alþb. Ég hygg að slíkt sé einsdæmi í þingsögunni. Það segir auðvitað sína sögu um meðferð þessa máls og álit þingsins á málsmeðferðinni. Við þetta mál var skilið í fullkominni óreiðu. Það er alveg rangt, sem fram kom í máli hv. 5. þm. Austurl. í þingræðu í síðustu viku, að það hafi fyrst og fremst verið pólitískir þverbrestir hér innanlands sem hafi veríð meginorsök þess að árangur náðist ekki. Ég held að ótvírætt sé að það voru vinnubrögð hæstv. fyrrv. iðnrh. sem voru þar aðalorsakavaldur. Sannleikurinn er sá, að aldrei var neinn grundvöllur fyrir þjóðarsamstöðu um þau axarsköft sem hv. fyrrv. iðnrh. gerði í þessu máli.

Þegar Alþingi lauk lágu tvær tillögur fyrir, annars vegar tillagan um að taka málið úr höndum þáv. hæstv. iðnrh. og hins vegar frv. til laga, sem þáv. hæstv. iðnrh. var 1. flm. að en flokksbræður hans í Alþb. voru meðflm. að, en það var um einhliða aðgerðir í málinu, — „frv. til laga um leiðréttingu orkuverðs til Íslenska álfélagsins hf.“, eins og það hét. Þetta frv. kom aldrei til umr. hér, enda þingi slitið stuttu eftir að það kom fram.

Hv. 5, þm. Austurl. gerði þetta frv. nokkuð að umtalsefni í sinni ræðu í síðustu viku. Hann ræddi um mjög traustan grundvöll þess að unnt hefði verið að leiðrétta orkuverðið einhliða og taldi það fullkomlega raunhæfan kost, og raunar betri kost en að ganga til samninga við Alusuisse. Ég er mjög ósammála þessu áliti hv. þm. og tel þvert á móti að frv. og þær aðgerðir sem frv. fól í sér hafi hvílt á mjög veikum grunni, enda var ljóst að það naut ekki fylgis hér á Alþingi nema hjá þm. Alþb.

Hinn lagalegi grundvöllur þessara einhliða aðgerða var mjög ótraustur að mínu mati þó að legið hafi fyrir og fylgt með frv. tvær lögfræðilegar álitsgerðir. Það er ekki rétt, sem fram kom í grg. með þessu frv. og var síðan ítrekað af hv. þm., að þessar lögfræðilegu álitsgerðir bendi til þess að fullkominn lagagrundvöllur hafi verið fyrir hendi til að framkvæma einhliða aðgerðir, þ.e. að Alþingi gæti leiðrétt orkuverðið í samningi ÍSALS og Landsvirkjunar ef það væri mat löggjafans að forsendur verðákvæðisins væru brostnar. Ég ætla að gera þetta atriði nokkuð að umtalsefni, því að það skiptir verulegu máli þegar verið er að stilla upp annars vegar því að við höfum átt völ á slíkum einhliða aðgerðum og hins vegar því að ganga til þeirra samninga sem gengið var til og lauk með bráðabirgðasamningi sem að sjálfsögðu verður fylgt eftir með frekari samningaviðræðum.

Það lágu fyrir tvær lögfræðilegar álitsgerðir í þessu máli. Annars vegar álitsgerð frá Þorgeiri Örlygssyni, greinargerð um endurskoðun álbræðslusamninganna með lagasetningu, hins vegar grg. frá Charles Lipton um grundvöll þess að krefjast endurskoðunar á samningum um efnahagsþróun til langs tíma eða grípa til einhliða aðgerða. Ef þessar greinargerðir eru skoðaðar í þaula sést að í þeim eru miklir fyrirvarar. Báðar þessar greinargerðir hvetja reyndar til mikillar varfærni í þessu efni. Við skulum fyrst líta á greinargerð Þorgeirs Örlygssonar, en hún var prentuð sem fskj. með þessu lagafrv.

Ég vil fyrst segja það, að grg. Þorgeirs Örlygssonar er mjög góð lögfræðileg grg. um þær almennu lagareglur sem til greina koma þegar annar aðili að samningi vill breyta honum einhliða. Þetta er fræðileg úttekt á þessu álitaefni eins og það horfir við samkv. íslenskum rétti og ennfremur er litið til réttar Norðurlandaþjóða í þessu efni, einkum Noregs. Hins vegar koma strax fram í inngangskafla þessarar grg. miklir fyrirvarar, sem nauðsynlegt er að hafa í huga þegar þessi grg. er lesin. Ég vil, með leyfi forseta, lesa stuttan kafla úr inngangi greinargerðarinnar. Þar segir:

„Rétt er að taka fram, að þegar álitsgerð þessi er skrifuð er ekki vitað, hvort breytingar verði gerðar á samningunum um álbræðsluna í Straumsvík né heldur hvernig að slíkum breytingum verður staðið, ef í þær verður ráðist með lagasetningu. Umfjöllun og niðurstöðu álitsgerðarinnar verði því að skoða í ljósi þessa. Af þessu leiðir, að í álitsgerðinni er fremur lýst almennum viðhorfum íslensks réttar til þeirra álitaefna, sem til umfjöllunar eru tekin, en hliðsjón höfð af áðurgreindum samningum um álbræðsluna í Straumsvík og hugsanlegum breytingum á samningsákvæðunum með lagasetningu.

Þá er ennfremur rétt að taka fram, að álitsgerðin sem slík felur ekki í sér sjálfstætt mat á því, hvort forsendur samningsgerðar af hálfu Íslendinga séu brostnar eða hvort hin tilteknu samningsákvæði leiði til ósanngjarnrar niðurstöðu í garð Íslands sem samningsaðila. Hins vegar er í álitsgerðinni leitast við að lýsa þeim réttarúrræðum, sem tiltæk eru íslenska ríkisvaldinu, ef niðurstöður kannana leiða í ljós, að forsendur samningsgerðar eru brostnar eða að samningsákvæðin leiði til ósanngjarnrar niðurstöðu.“

Þessi fyrirvari strax í upphafi er mjög mikilvægur, því að þarna kemur fram að höfundur tekur ekki afstöðu til þess álitaefnis sem hér um ræðir og við fjöllum um.

Í grg. koma og fram frekari fyrirvarar. Það koma fram t.d. á bls. 12 mjög sterk aðvörunarorð um að nauðsynlegt sé að fara að með gát, en þar segir, með leyfi forseta:

„Hitt er jafnljóst, að heimild löggjafans til þess að grípa inn í gerða samninga með lagasetningu verður að setja þröngar skorður af réttaröryggissjónarmiðum. Rúm heimild í þessa átt er opinn vegur til misbeitingar löggjafarvaldsins og á það sérstaklega við, þegar ríkið sjálft er aðili að þeim samningum, sem lagasetningu er ætlað að taka til.“

Þarna kemur glögglega fram, að greinarhöfundur bendir á hversu varhugavert sé að ríkið sjálft breyti samningum sem það er aðili að. Í þessum orðum er að sjálfsögðu fólgin hvatning til mikillar varfærni í þessu sérstaka máli eða þegar líkt stendur á og í þessu máli. Niðurstaða Þorgeirs Örlygssonar í greinargerð hans er á þá leið, með leyfi forseta. Hann er búinn að rekja nokkuð áður sjónarmið fræðimanna, sem ég skal ekki lesa upp hér, en segir síðan:

„Í ljósi þessa verður að ætla, að Alþingi geti leiðrétt orkuverðið samkv. rafmagnssamningi ÍSALs og Landsvirkjunar til samræmis við upphaflegt samningsmarkmið, ef það er mat löggjafans, að forsendur verðákvæðisins séu brostnar. Rétt er að hafa í huga í þessu sambandi, að dómstólar hafa vald til þess að meta það, hvort hinum efnislegu skilyrðum þess að bera fyrir sig brostnar forsendur hafa í raun verið fullnægt og þá jafnframt, hvort einhliða leiðrétting hafi verið lögmæt.“

Það kemur sem sagt mjög glögglega fram að það er ekki Alþingi sem á síðasta orðið í þessum efnum. Jafnvel þótt Alþingi hefði komist að þeirri niðurstöðu að brostnar forsendur væru fyrir hendi kemur það glöggt fram í greinargerð Þorgeirs Örlygssonar að það eru dómstólar sem endanlega kveða á um þetta. Af því leiðir að sjálfsögðu að með einhliða ákvörðun í þessu efni af hálfu Alþingis hefði þessu máli verið stefnt í mikil, flókin og löng málaferli, sem ómögulegt er að segja fyrir um hver endir hefði orðið á. Þess vegna er það ekki rétt sem fram kemur í grg. með sjálfu frv., og það endurtók reyndar hv. 5. þm. Austurl. í sinni ræðu hér á dögunum, að niðurstaðan sé fortakslaust sú, að við höfum fullkominn rétt til þess að leiðrétta orkuverðið einhliða.

Í niðurstöðunni, sem ég las áðan, er rétt að vekja athygli á orðunum að breytingin þurfi að verða „til samræmis við upphaflegt samningsmarkmið ef það er mat löggjafans að forsendur verðákvæðisins séu brostnar“. Það er sem sagt lögð áhersla á upphaflegt samningsmarkmið í þessu efni og brostnar forsendur. — En hvernig samræmist þessi niðurstaða lögfræðingsins málflutningi hv. 5. þm. Austurl. og Alþb. yfirleitt í þessu máli? Allur sá málflutningur gengur út á að reyna að sanna og halda því fram að samningurinn hafi upphaflega verið vittaus og hin mestu mistök. Hvert tækifæri er notað til að kasta rýrð á samningana og þá menn sem að þeim stóðu. Með því er auðvitað verið að leggja spilin upp í hendur Alusuisse. Ég tel að fátt hafi spillt eins mikið samningsstöðu okkar í þessu máli og þessi síbyljumálflutningur Alþb. Sannleikurinn er sá, að grundvöllur þess að hægt sé að halda fram brostnum forsendum í þessu máli og að reynt sé að ná upphaflegum samningsmarkmiðum er að hinn upphaflegi orkusölusamningur með síðari endurskoðun hafi falið í sér eðlilega og sanngjarna skiptingu þess arðs sem vænta mátti að þessi framkvæmd í heild gæfi af sér eða m.ö.o. að upphaflega hafi verið hér um að ræða eðlilegan viðskiptasamning.

Í þessu sambandi er athyglisvert það sem segir í grg. á bls. 19. — Það er eins og það hafi skroppið út úr penna þess sem grg. ritaði, en þar segir:

„Raforkuverðið var ekki óeðlilegt árið 1966, þegar upphaflega var um það samið, hvort sem miðað var við raforkuverð, sem þá var algengt að álver greiddu, eða annan mælikvarða.“

Þessi orð eru í andstöðu við málflutning hv. 5. þm. Austurl. og málflutning Alþb. í þessu máli, því að eins og ég sagði áðan hygg ég að okkar sterkasta vopn í þessari baráttu sé að forsendurnar hafi breyst það mikið að rétt og eðlilegt sé að Laka þessa samninga upp.

Ég ítreka að grg. Þorgeirs Örlygssonar er mjög vönduð lögfræðileg grg. og mikill fengur að henni, en hana verður hins vegar að lesa með þeim fyrirvörum sem fram koma í henni sjálfri og þeim aths. sem höfundur gerir.

Varðandi lagarök hefur ennfremur verið vitnað í grg. Charles Lipton, sem ennfremur fylgdi með þessu frv. í heild, var fskj. 11 með frv., en hann hefur skrifað grg. um grundvöll þess að krefjast endurskoðunar á samningum um efnahagsþróun til langs tíma eða grípa til einhliða aðgerða. Eftirmáli grg. hans er athyglisverður. Það er eins konar niðurstaða af hans hálfu. Þar segir með leyfi forseta:

„Í minnisgrein minni frá 8. júní 1982 benti ég á að ákveðnar hagfræðilegar athuganir þyrftu fram að fara til þess að fyrir lægju upplýsingar sem hægt væri að reisa á lögfræðilegar grg.

Umfangsmikil skýrsla færustu sérfræðinga um sölu raforku til ÍSALs hefur nú verið gefin út af iðnrn. og mér borist niðurstöður hennar.

Til þess að unnt sé að rannsaka vandlega úrskurði, rit og venjur, sem hér skipta máli, þyrfti að skoða frekar efnahagslega þætti, sem skipta máli, kringumstæður við upphaflega samningsgerð við Alusuisse og samband aðila og aðgerðir eftir þá samningsgerð, til þess að frekari lögfræðileg grg. verði gerð.“

Þetta er niðurstaðan sem Lipton komst að og fylgdi þessu frv. Hann kveður ekkert upp úr um það, hvort efni séu til þess að einhliða aðgerðir eigi sér stað. Ég vil að vísu gera þá aths. við hans grg. í heild, að mér finnst mjög vafasamt að flokka samninga milli Íslands og Alusuisse undir samninga um náttúruauðlindir. Mér finnst ekki sjálfgefið að telja slíkan rafmagnssamning til þessa flokks. Hér er fyrst og fremst um að ræða samninga um námuréttindi og ýmislegt fleira þess háttar og vafamál að hægt sé að skipa samningum eins og okkar á bekk með þeim. En um það skal ég ekki fjalla frekar hér.

Aðalatriði í þessu er þó það, að það virðist hafa skort allmikið á að nægilega traustur lögfræðilegur grundvöllur væri fyrir hendi þegar hv. 5. þm. Austurl. lagði sitt frv. fram, þá sem hæstv. iðnrh. Þessar grg. eru ágætar svo langt sem þær ná. Þær fjalla hins vegar fyrst og fremst um almenn lagarök, en ekki er nægilega fjallað um þau ákveðnu tilvik sem frv. fjallar um.

Veikasti hlekkurinn í okkar málflutningi og í stöðu málsins eins og það var á s.l. vori, þegar þetta frv. var lagt fram, er þó vafalaust sú staðreynd, að samningaleiðin hafði ekki verið reynd til þrautar. Það var mjög auðvelt að sýna fram á það af hálfu okkar gagnaðila, að samningaleiðin hafði ekki verið reynd til þrautar. Það var auðvitað veikasti hlekkurinn í þessu máli. Ég skal ekkert segja fyrir um hver hefðu orðið viðbrögð Alusuisse ef þetta frv. Alþb. hefði orðið að lögum hér, en það má að sjálfsögðu getum að því leiða að þeir hefðu gert annað hvort af tvennu, að leggja málið í gerðardóm, og slík málsmeðferð hefði tekið langan tíma og staða okkar þá mjög óljós á meðan, eða að þeir hefðu á sama hátt og við töldum okkur þá geta framkvæmt einhliða breytingar á samningnum talið sig ennfremur geta gert breytingar á samningnum einhliða og þá á ákvæðum sem þeim voru óhagstæð, eins og t.d. ákvæðunum um kaupskyldu rafmagns, en það er vitað að þeir þurfa að kaupa allt upp undir 90% af því rafmagni sem álverið er gert fyrir, hvort sem þeir nota það rafmagn eða ekki.

Ég taldi rétt að gera þetta nokkuð að umtalsefni hér, þó að segja megi að þetta frv. heyri e.t.v. sögunni til. En ég held að þarna séu þó víti til varnaðar og nauðsynlegt sé framtíðarinnar vegna í svipuðum málum að átta sig á því að hafa þarf allt önnur vinnubrögð en fyrrv. hæstv. iðnrh. notaði í þessu máli.

Það eru önnur atriði einnig, sem hafa komið fram í þessari umr., sem ég vildi örlítið ræða. Það er sú stöðuga áróðursplata Alþb., sem hv. 5. þm. Austurl. rifjaði upp hér eða gerði enn að umtalsefni í sinni ræðu, að samningurinn um álverið, rafmagnssala til ÍSALs og rekstur þess íþyngi stórkostlega almenningi í landinu, að hið háa raforkuverð á Íslandi eigi rætur að rekja til þessara samninga og að íslensk heimili borgi stöðugt skatt til Alusuisse þegar heimilin fái sinn rafmagnsreikning.

Þessi áróður hefur oft verið gerður að umtalsefni. Hann er rangur og hann er ósannur. Til að styðja þessa fráleitu fullyrðingu fræðilegum rökum bað fyrrv. iðnrh., hv. 5. þm. Austurl., Orkustofnun um álit á því hver væru áhrif orkuverðsins til ÍSALs á verð til almenningsveitna í landinu. Öll vinnubrögð hv. 5. þm. Austurl. í sambandi við það mál eru raunar dæmigerð um vinnubrögð hans meðan hann var í ráðherrastól í ýmsum öðrum málum. Þess vegna er vel þess virði að rifja þau hér upp á Alþingi.

Skýrsla Orkustofnunar um þetta mál lá fyrir í marsmánuði s.l. og því fylgdi bréf til iðnrn. dagsett 10. mars 1983, þar sem komist er að ákveðinni niðurstöðu. Þar segir:

„Segja má að meginniðurstaða þessarar athugunar, miðað við þær forsendur sem hér eru notaðar, sé að á árunum 1969–1978 hefði orkuverð Landsvirkjunar til almenningsveitna þurft að vera hærra ef álverið í Straumsvík hefði ekki komið til. Aftur á móti hefði verið orðið lægra en raun varð árin 1979–1981. Eftir 1981 er erfitt að segja til um hver þróun orkuverðsins hefði orðið þar sem í tilvikinu „án ÍSALs“ hefði fljótlega upp úr því þurft að koma til ný virkjun sem hefði að líkindum orðið hlutfallslega miklu dýrari en Búrfellsvirkjun.“

Þetta er sem sagt meginniðurstaðan, að svo til allt þetta tímabil hafi orkuverð Landsvirkjunar til almenningsveitna þurft að vera hærra ef samningarnir við ÍSAL hefðu ekki verið gerðir. Hvað gerði nú hæstv. fyrrv. iðnrh. við þessa skýrslu? Þetta féll ekki í kramið. Þessi skýrsla var greinilega ekki í samræmi við þær niðurstöður sem ráðh. þáv. vildi fá. Hann stakk þessari skýrslu undir stól. Hann lét hvergi birta hana, heldur settist hann niður með sínum mönnum og bjó til nýjar forsendur — forsendur sem pössuðu betur við þær niðurstöður sem hann var fyrir fram búinn að halda fram á opinberum vettvangi — og bað Orkustofnun um að semja nýja skýrslu. Það gerði Orkustofnun og sú skýrsla var lögð fram og dagsett í júní 1983.

Þar eru raktar þær aðferðir sem notaðar hafa verið. Ég skal láta vera að rekja þær hér. En hins vegar kemur það glögglega fram af orðalagi Orkustofnunar í þeim bréfum og niðurstöðum hennar, að hún telur að forsendur þær sem notaðar voru í skýrslunni frá því í mars séu haldbetri en hinar nýju forsendur og birti því þær niðurstöður sínar jafnframt sem eitt tilvik af þremur sem stillt var upp. Það kemur fram á bls. 19 í skýrslu Orkustofnunar. Ef sú aðferð, sem Orkustofnun sjálf telur réttasta, er notuð og þetta framreiknað til núgildis kemur í ljós að samkvæmt þessari aðferð — það er mismunandi eftir því hvaða vexti menn reikna sér — hefði orkuverðið allt tímabilið, frá 1969 til 1982, án ÍSAL verið frá 7%–12% hærra til almennings en það þó var í raun.

Þessar niðurstöður Orkustofnunar eru að sjálfsögðu mjög athyglisverðar, þegar hafður er í huga sá áróður sem stöðugt er látinn dynja á landsmönnum frá Alþb. Þessi vinnubrögð eru líka mjög athyglisverð því að hv. fyrrv. iðnrh. iðkaði það í fleiri málum að búa til forsendur, fá síðan virtar stofnanir, eins og verkfræðideild Háskólans eða Orkustofnun, til þess að sefja inn í tölvuna eða reikna niðurstöður samkvæmt forsendum sem þeim voru gefnar og halda því síðan fram að um væri að ræða óvilhalla virta aðila sem kæmust að þeirri niðurstöðu.

Í öllu þessu máli hefur umr. um orkuverðið verið mest áberandi og það er eðlilegt. Það fer hins vegar minna fyrir umr. um þjóðhagslegt gildi þessarar atvinnustarfsemi hér á landi. Það hafa oft verið rifjaðar upp ýmsar tölur í því sambandi. Ég skal ekki þreyta menn mikið á því, en ég held að þó sé rétt að benda á að heildargreiðslur ÍSALs til Íslendinga, og þá á ég við nettógjaldeyristekjur frá upphafi til ársloka 1982 framreiknaðar til verðlags í apríl 1983, hafa verið 8 200 millj. kr. Fyrir raforku hefur verið greitt 1 680, í skatta 510, vinnulaun 3 100, keypt þjónusta ýmiss konar er 1 820 og fjárfestingar hér innanlands 1 080. Þarna er sem sagt um að ræða 6 500 millj. kr. fyrir annað en raforku, þ.e. bæði laun og ýmiss konar þjónusta, og gefur auga leið að það hefur skipt miklu máli fyrir þjóðarbúið á þessu tímabili að fá þessar tekjur inn í landið. Ef við tökum aðeins árið 1982, en ég er með þær tölur í dollurum, var greitt fyrir orku 8.3 millj. dollara, í skatta 1.5 millj. dollara, laun 15.8 millj. dollara, fyrir ýmiss konar þjónustu 9.3 millj. dollara og vegna fjárfestingar 2 millj. dollara. Við fengum því á árinu 1982 í nettógjaldeyristekjur 36.9 millj. dollara frá þessu fyrirtæki. Þar af 8.3 vegna orku, en hitt er fjármagn sem komið hefur eftir öðrum leiðum og streymt út í æðar þjóðfélagsins. Við getum líka nálgast þetta frá öðru sjónarmiði og reynt að átta okkur á því, hver útflutningsverðmæti hafa hér verið á ferðinni. Ef við tökum Hagtölur mánaðarins, eins og síðasta hefti birtir útflutningstekjur í jan.-ágúst 1983, þá eru útflutningstekjur vegna álversins 1 981 millj. kr. Það er ekkert ósvipað og t.d. saltfiskurinn og ísvarði fiskurinn til samans hafa gefið í útflutningstekjur, svo að dæmi sé nefnt. Að vísu er hér ekki um nettótölur að ræða, á móti kemur innflutningur, en það eru að sjálfsögðu miklar rekstrarvörur einnig fluttar inn í sambandi við sjávarútveginn, eins og við vitum, olía á fiskiskip og þar fram eftir götunum.

Það er einmitt þessi þjóðhagslegi ávinningur í heild sem verið er að sækjast eftir þegar við höfum leitast við að ná samningum við erlenda aðila um slíkan atvinnurekstur hér á landi. Við Íslendingar erum ekkert öðruvísi en aðrar þjóðir. Hjá okkur gilda ekki önnur lögmál í þessu efni en hjá öðrum þjóðum. Það er einmitt þetta sem aðrar þjóðir eru að sækjast eftir. Hvers vegna skyldu Kanadamenn núna t.d. vera að bjóða samninga upp á 6–7 mills fyrir rafmagnið til að hvetja til bygginga nýrra álvera hjá sér? Hvers vegna eru Írar að bjóða stórkostlegar skattaívilnanir og önnur vildarkjör þeim fyrirtækjum sem þangað vilja koma og setja upp atvinnurekstur? Hvers vegna eru Bretar, m.a. s. sjálf Margrét Thatcher, að bjóða erlendum fyrirtækjum miklar ívilnanir, t.d. í formi niðurgreiðslna í stofnkostnaði, ef fyrirtæki vilja koma til að hefja atvinnurekstur þar í landi, sérstaklega í norðurhéruðum Bretlands, Skotlandi og þar í kring? Svarið við þessum spurningum og mörgum fleiri er mjög einfalt. Menn gera sér grein fyrir því víða um lönd að slíkur atvinnurekstur hefur verulegt þjóðhagslegt gildi og sannar ótvírætt gildi sitt þegar til lengdar lætur.

Hv. 5. þm. Austurl. ræddi um innlenda orkunýtingu í þessu sambandi. Hann gagnrýndi mjög þann þátt í þessu bráðabirgðasamkomulagi þar sem látið er að því liggja að til greina komi að stækka álverið í Straumsvík. Nú liggur að vísu fyrir að um það verður ekki samið nema hagstætt raforkuverð náist og við teljum að þeir samningar verði okkur hagstæðir, en hann vildi stilla þessu upp gegn því sem hann kallaði „innlenda kosti við orkunýtingu“. Í hans ráðherratíð var einkum tvennt undirbúið í þessu efni. Það er í fyrsta lagi kísilmálmverksmiðjan á Reyðarfirði. Ég tel ákaflega óvarlegt fyrir okkur Íslendinga eina sér að ætla að reisa kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Ég er alveg sammála yfirlýsingum hæstv. iðnrh. um að það eigi að leitast við að fá erlenda aðila til samstarfs um rekstur þess fyrirtækis. Allar rekstraráætlanir sem fyrir liggja um þetta fyrirtæki benda til þess að stórkostlegt tap hefði orðið á rekstrinum undanfarin ár. Ég hélt að dæmið frá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga hefði kennt mönnum sína lexíu. Það er óvarlegt fyrir okkur Íslendinga að ætla að taka of mikla áhættu einir í þessu efni. Við eigum að leitast við að fá eins mikinn hagnað út úr þessu og mögulegt er, án þess þó að þurfa að taka jafnmikla áhættu og við höfum gert varðandi járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga.

Hv. 5. þm. Austurl. gerði líka vissar ráðstafanir til að undirbúa það sem hann kallaði oft „íslenskt álver“ og átti þá sérstaklega við álver í Eyjafirði. Ég tel það alveg fráleitt að við Íslendingar byggjum álver, hvort sem er í Eyjafirði eða annars staðar, og tökum þá áhættu sem því fylgir. Ráðherrann réði norskt fyrirtæki, Árdal Sundal, til að gera hagkvæmniáætlun um rekstur slíks álvers. Niðurstaðan varð sú, að með því að borga 17.5 mills fyrir rafmagnið væri þetta fýsilegur kostur sem gæti borið arð. Sú niðurstaða hvílir hins vegar á mjög veikum grunni. Ég ætla ekki að fara að útlista þá skýrslu eða þá hagkvæmniathugun nánar. Ég nefni þó sem dæmi, að hún gerir ráð fyrir að það sé 30% eigið fé í þessu fyrirtæki, en heildarfjárfesting er sennilega upp á einar 600 millj. dollara, og 70% sé fengið að láni með 2% raunvöxtum. Nú er það að sjálfsögðu vitað mál að 2% raunvextir fást ekki á markaðnum í dag. Hinir alþjóðlegu peningamarkaðir núna gefa og hafa gefið um tíma 6% raunvexti og jafnvel þaðan af hærra. Það er ekkert lát á því og ekkert útlit fyrir að það sé að breytast. Sem dæmi um hver áhrif það eitt mundi hafa á rekstur þessa álvers ef við reiknuðum með 70% lánum á 6% raunvöxtum í staðinn fyrir 2% raunvexti, þá mundi vera tap á hverju einasta ári á rekstri þessa fyrirtækis og eftir tíu ár yrði uppsafnað tap komið yfir 1 100 millj. dollara. Hvaða vit er nú í því að við Íslendingar tökum slíka áhættu á okkur? Ég tel ekkert vit í því. Þess vegna tel ég sjálfsagt að við leitumst við að ná samningum við erlenda aðila um samstarf á þessu sviði og að við reynum að ná hagnaði út úr slíkri starfsemi án þess að þurfa að taka of mikla áhættu sjálfir. Ég er þess vegna mjög sammála því ef hægt er að ná því fram, sem þessi samningur gerir ráð fyrir, að álverið í Straumsvík verði stækkað. Ég hef að sjálfsögðu þann fyrirvara á að samningar takist um raforkuverð sem hagstætt sé fyrir okkur og samið verði um önnur atriði, þannig að við getum fellt okkur við það, en ég tel að stækkun álversins í Straumsvík sé mikilvæg fyrir íslenskt efnahagslíf.

Við Íslendingar horfum nú fram á óvenjumikla erfiðleika í efnahagslífi okkar. Við horfum fram á að aflinn í sjónum fer stöðugt minnkandi. Það hefur að sjálfsögðu alvarlegar afleiðingar fyrir kjör hvers einasta manns sem í þessu landi býr. Þess vegna hljótum við að leita allra þeirra leiða sem við getum til að styrkja íslenskt atvinnulíf og íslenskt efnahagslíf. Ein þeirra leiða er sú að nýta þá orku sem í auðlindum okkar felst til að reisa stóriðjufyrirtæki. Ég tel hins vegar að við eigum ekki að einblína á þann kost. Ég tel að við eigum ýmsa aðra kosti. Þá er ég t.d. með almennan iðnað í huga. En ég held hins vegar að það mikla fjárstreymi út í þjóðfélagið sem fylgir stóriðjufyrirtækjunum hljóti að gera það að verkum að við höldum áfram á sömu braut.