23.11.1983
Efri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

45. mál, Norræni fjárfestingarbankinn

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Á þskj. 48 er frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að auka hlutafé Íslands í Norræna fjárfestingabankanum. Eins og fram kemur í grg. með frv. er hér um að ræða samþykkt sem gerð var á fundi stjórnar Norræna fjárfestingabankans 23. mars 1982 um að leggja til við norrænu ráðherranefndina að hlutafé bankans yrði tvöfaldað úr 400 millj. SDR í 800 millj. SDR. Málið hlaut umfjöllun í Norðurlandaráði og var samþykkt af ráðherranefnd Norðurlandaráðs, síðan í Norðurlandaráði og þá gert með samþykki fyrrv. ríkisstj. og þeirra fulltrúa sem Ísland á í Norðurlandaráðinu. Þar er gert ráð fyrir því að Íslands haldi sínum hlut, 1.1%, og aukning á framlaginu verði 330 þús. SDR sem þarf að greiða og 110 þús. úr varasjóði bankans sjálfs. Innborgun vegna Íslands verði því samtals 440 þús. SDR. Um þetta mál hefur verið samstaða allra fulltrúa Alþingis, síðasta þings og ríkisstj. og ég vænti þess að það geti orðið hér í þessari hv. d., eins og í hv. Nd., samstaða um afgreiðslu þessa máls.

Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.