23.11.1983
Efri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Frv. það sem hér liggur fyrir um fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörunum er að ýmsu leyti undarlega úr garði gert. Í fyrsta lagi kveður það á um aukinn persónuafslátt frá skatti á þann veg að þeim sem lægstar tekjurnar hafa í þessu þjóðfélagi og því mesta þörfin á verndun lífskjara sinna kemur þessi persónuafsláttur ekki til góða. Í öðru lagi kveður þetta frv. á um sérstakar barnabætur fyrir börn yngri en 7 ára. Þetta undarlega aldursákvæði virðist grundvallast á þeirri hugsun að aldur barna og efnahagur foreldra þeirra fari saman sem engan speking þarf til að sjá að er hreinasta firra. Annars vegar segir aldur barna ekkert til um efnahag foreldra þeirra. Ég á barn undir 7 ára aldri og þarf ekkert á þessum barnabótum að halda miðað við konuna sem hefur 12 þús. kr. í laun á mánuði, á 12 ára barn og fær ekki þessar bætur svo að dæmi sé tekið. Hins vegar virðist sem börn verði dýrari á framfæri eftir því sem þau eldast, sbr. könnun sem Félag einstæðra foreldra lét gera, en þar kemur fram að áætlaður framfærslukostnaður 6 ára barns er nú rúmar 79 þús. kr. á ári en framfærslukostnaður 12 ára barns t.d. rúmlega 109 þús. kr. á ári. Þetta 7 ára aldursákvæði er því hreinasta endileysa og eins og fram hefur komið hefur minni hl. fjh.- og viðskn. flutt brtt. hér um og um nýtingu persónuafsláttar, og fjölyrði ég ekki meira um það. Hins vegar langar mig til að minnast á það atriði í 2. gr. þessa frv. sem kveður á um hækkun mæðralauna. Í fyrsta lagi má það furðulegt teljast að þessi laun lækka eftir því sem börnin verða fleiri sem er heldur betur öfugsnúið, því að eftir því sem börnin eru fleiri því þyngra er framfærið og því meiri þörfin á aðstoð. Í öðru lagi kemur greinilegast í ljós hér sú sýndarmennska sem einkennir þetta frv. yfirleitt, því að hér er verið að tala um upphæð sem 27. maí s.l. var innan við 300 kr. Það er mjög glæsilegt að geta sagt: „Og svo hækka mæðralaun um 100%“ en það er afskaplega lítið glæsilegt að fá umslag með viðbótarávísun upp á tæpar 300 kr. og síðan innan við 100 kr. í viðbót fyrir hvert barn sem viðtakandi umslagsins á umfram fyrsta barn. Kjarni málsins er sá að hækkun mæðralauna skiptir sama og engu máli fyrir þá sem í hlut eiga. Og það er einmitt það sem er að þessu frv. yfirleitt. Það missir marks. Það nær ekki til þeirra sem raunverulega þarf að aðstoða og þar sem það nær að hjálpa til þar munar lítið um hjálpina.

Brtt. þær, sem hér hafa verið lagðar fram, miða að því að ráða hér nokkra bót á. En jafnvel þótt þær nái fram að ganga sem óskandi væri er enn langur vegur í það að gerðar hafi verið fullnægjandi ráðstafanir til verndar lífskjörum þeirra sem við lökust kjör búa.