03.12.1984
Neðri deild: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1536 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

176. mál, lyfjadreifing

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að lýsa því yfir að ég er dálítið óánægður með að þetta frv. skuli koma fram svona og að heilbrmrn. skuli gefast upp á því að reka Lyfjaverslun ríkisins. Ég hélt það hlyti að vera kappsmál fyrir heilbrmrn. að reka Lyfjaverslun ríkisins og það tryggði betur en ella tengsl Lyfjaverslunar ríkisins við heilbrigðiskerfið í landinu. Þess vegna lagði ég á það mjög mikla áherslu á sínum tíma við litla hrifningu ýmissa manna, m.a. í fjmrn., að þetta yrði flutt frá fjmrn. yfir í heilbrmrn. Nú er búið að láta reyna á þetta um tveggja ára skeið og niðurstaðan er sú að heilbrmrn. gefst upp á því að stýra þessari mikilvægu stofnun sem er eitt stærsta lyfjafyrirtæki í landinu. Gegnir stofnunin ákaflega þýðingarmiklu hlutverki bæði fyrir heilbrigðismálin almennt, sérstaklega fyrir sjúkrahúsakerfið og einkum og sér í lagi kannske ríkisspítalana, en hefur einnig verulegt gildi fyrir daggjaldaspítalana. Ég verð að segja eins og er, mér finnst þetta spor aftur á bak.

Ég þekki það dálítið af eigin raun hvað ráðh. á við að glíma í þessu efni. En ég hef þó ekki heyrt í máli hans eða annarra rök sem eru fullnægjandi til að gefast upp við að halda Lyfjaverslun ríkisins undir heilbrmrn. sem er langeðlilegast.

Ég vona að þetta mál verði rætt mjög ítarlega og rækilega í nefnd og kallaðir verði til fulltrúar frá rn. og Lyfjaverslun ríkisins. Mér fyndist eðlilegt að kveðja til fulltrúa t.d. frá Lyfjafræðingafélaginu og frá ríkisspítölunum þannig að sjónarmið allra aðila nái að koma fram. Staðreyndin var sú að forstöðumenn Lyfjaverslunar ríkisins voru orðnir svo vanir því að vera í bókhaldslegum tengslum við kassann hjá Áfengisversluninni að þeir áttu erfitt með að hugsa sér að lifa sjálfstæðu fjárhagslegu lífi, svo að ég segi þetta hreint út. Ég geri ráð fyrir að það sé m.a. þeirra uppgjöf sem veldur því að þetta mál er komið hingað. Ég geri mér grein fyrir að hæstv. heilbrmrh. flytur þetta mál vafalaust af illri nauðsyn en ég fer fram á að málið verði rætt mjög ítarlega. Ég tel þetta vera spor aftur á bak. Ég tel að Lyfjaverslunin eigi að vera inni í heilbrigðiskerfinu.