04.12.1984
Sameinað þing: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

160. mál, átak í byggingu leiguhúsnæðis

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð hér um. Ég flutti allítarlegt mál um frv. um Húsnæðisstofnun þar sem sami flm., hv. varaþm. Kristín Ástgeirsdóttir, rakti rækilega þörfina á leiguhúsnæði og opinberri aðstoð í þeim efnum. Hv. flm. er nú horfinn af þingi, en vert er engu að síður að taka undir. það meginmál sem hún flutti á fimmtudaginn var. Ég vil hins vegar aðeins segja um þetta að hér er aðalspurningin um áherslur, hvaða áherslur stjórnvöld hafa uppi varðandi hinn félagslega þátt íbúðabygginga, því að þessi mál verða aldrei leyst, og það viðurkenna allir, með öðrum hætti en að hinn félagslegi þáttur verði þar ríkulega tekinn inn í. Hver er áhersla stjórnvalda á uppbyggingu leiguhúsnæðis í heild? Ég held að fáum muni sýnast þar bjart yfir í dag.

Ég vil taka það fram að fyrir nokkrum árum fluttum við Vilborg Harðardóttir ítarlega till. um húsnæðismál hér í Sþ. þar sem m.a. var sérstaklega vikið að leiguforminu, þ.e. að vali fólks um að leigja eða eiga íbúð. Ég man að undirtektir voru ekki aðrar en þær að benda á leigu- og söluíbúðir sveitarfélaga sem þá voru í gangi. Vissulega var rétt að þar var margt vel gert á tímabili, en ég held að reynslan af leigu- og íbúðasölukerfi sveitarfélaganna hafi verið sú, a.m.k. þar sem ég þekki til, að íbúðirnar voru næstum undantekningarlaust seldar. Þær munu vera fáar, íbúðirnar sem reistar voru eftir þessu kerfi, sem í dag eru til leigu, nema þá ef einni og einni íbúð er haldið eftir fyrir kennara.

Átaks er þörf í þessu efni og Búsetamálið er gleggst dæma þar um. Hv. flm. taldi upp þá hópa sem helst þyrftu á að halda aðstoð og frekari fyrirgreiðslu af þessu tagi. Tek ég undir þá upptalningu. Hún nefndi einstæða foreldra, hún nefndi aldraða, hún nefndi öryrkja. Ég vildi enn frekar vekja athygli á öryrkjunum og, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nýsamþykkta ályktun frá Öryrkjabandalagi Íslands um þessi mál þar sem segir svo:

„Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 31. 10. 1984, beinir þeirri eindregnu áskorun til Alþingis að gera nú þegar stórátak í því skyni að ráða bót á húsnæðisvandræðum öryrkja. Þar er hvort tveggja haft í huga leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði og hagstæðar lánveitingar og styrkir til húsnæðiskaupa. Aðalfundurinn minnir á þá staðreynd að öryrkjar eru að miklum hluta eignalítið lágtekjufólk sem ekki hefur efni á að greiða háa húsaleigu. Þá eiga fæstir lífeyrissjóð að bakhjarli. Þessi hópur stendur því mjög höllum fæti varðandi möguleika á viðunandi húsnæði.

Stjórn Öryrkjabandalags Íslands treystir því að hv. alþm. tryggi framgang þessara mála.“

Undir þetta bréf skrifa Vilhjálmur Vilhjálmsson, formaður Öryrkjabandalagsins, og Ásgerður Ingimarsdóttir, deildarstjóri þar.

Ég vil með þessum fáu orðum taka undir það mál sem hér var flutt af hv. flm. Kristínu Ástgeirsdóttur, en um leið vekja athygli á þessum vanda alveg sérstaklega. Ég hef þegar á þessu þingi leitað til fulltrúa frá öllum þingflokkum um tillögugerð fyrir öryrkja, alveg sérstaklega vegna sérstöðu þeirra. Ég vænti þess að fá jákvæð viðbrögð frá þeim aðilum innan skamms svo að hægt verði að taka það mál upp sérstaklega því það er sérstakt og getur ekki átt samleið með átaki í öðrum efnum. Þar koma þær aðstæður til sem greindar eru í þessari samþykkt Öryrkjabandalagsins. Sérstaða öryrkjanna í þessu máli er alger, að mínu viti.