04.12.1984
Sameinað þing: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

33. mál, lífeyrisréttindi húsmæðra

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég segi eins og hv. síðasti ræðumaður, ég hefði kosið að vera betur undirbúin þessa umr. Það er stundum ákaflega erfitt að átta sig á í hvaða röð mál ber að hér á fundum Sþ. og máli sem er — ég man ekki númerið, herra forseti, hvar í röðinni er það? — nr. 16 gerir maður ekki endilega ráð fyrir á dagskrá í dag. En því stóð ég hér upp að ég hef sitthvað að athuga, sérstaklega við grg. þessarar till.

Það er almennt ákaflega eftirtektarvert við tillögugerð hér á hinu háa Alþingi að hún markast oft af algerum skorti á stefnumótun og þá fyrst og fremst stefnumótun á því hvers konar þjóðfélagi Alþingi Íslendinga miðar að. Hér er verið að leggja til lífeyrisréttindi þeim til handa sem ekki greiða í lífeyrissjóð. Það hefur að vísu verið gert áður með lögum um eftirlaun aldraðra, og hér er enn verið að lappa upp á þau í staðinn fyrir að gera einhverja heildaráætlun. Á meðan þessi eilífðarnefnd, sem setið hefur að störfum síðan 1976, undir — að mig minnir — mikilvirkri forustu — enn einu sinni-seðlabankastjóra Íslands, ef það hefur ekki breyst á allra síðustu árum, á meðan sú nefnd situr, er að fjalla um framtíðarfyrirkomulag á lífeyrisréttindum Íslendinga, er verið að setja hér lög fyrir ákveðna þjóðfélagshópa sí og æ. Ég tel að þetta séu ekki hin æskilegu vinnubrögð. T.d. má benda á að hér liggur einnig fyrir þinginu frv. til l. sem er beint brot á allri hugmyndafræði skattalaganna, þ.e. að skattgreiðslur eiga nú að hluta til ekki að fara eftir gjaldþoli manna. Ég hef áður talað gegn því máli og ég mun gera það enn vegna þess að ég tel að þetta sé ákaflega vanhugsuð löggjöf.

Hér segir í grg. hv. 2. þm. Norðurl. v., ákafs stuðningsmanns núv. ríkisstj., með leyfi forseta:

„Og nýtur ekki annars lífeyris“, þ.e. aldraða fólkið, „en ellilauna sem engan veginn nægja til framfærslu.“ Mér þykir þetta þó nokkur yfirlýsing. Hvernig í ósköpunum stendur á að aldraða fólkinu í landinu er boðið upp á það að njóta ellilauna sem engan veginn nægja til framfærslu?

Hér segir einnig í sömu grg., með leyfi forseta, og ég ætla að fá að lesa hér eina setningu:

„Það er að vissu leyti eðlilegt þar sem þessar húsfreyjur hafa í mörgum tilfellum sparað ríki og sveitarfélögum mjög verulegar fjárhæðir með því að gæta barna sinna sjálfar.“

Vissulega hafa þær gert það. Vissulega hafa húsmæður landsins unnið ómetanlegt starf um aldur og ár. En þýðir þetta að þær konur sem hafa verið kallaðar á vinnumarkaðinn og aflað tekna hafi í raun og veru verið einhver baggi á þjóðfélaginu vegna þess að þjóðfélagið varð auðvitað að koma til móts við þær konur með því að sjá til þess að börnin væri ekki á guði og gaddinum? Svona orðalag kann ég ekki við. Ég er gróflega hrædd um að ef tekið væri saman hvers þessar konur hafa aflað og hvað þær hafa fengið á móti yrði það harla ójafn dálkur, og ég vil biðja menn að gæta sín þegar svona yfirlýsingar eru settar í þskj.

Sannleikurinn er sá, að öll umr. um málefni fjölskyldunnar er út og suður, eðlilega, vegna þess að henni hefur ekki verið sinnt. Hér fyrir nokkrum mínútum var verið að ræða um leiguhúsnæði og ágæta till. hv. varaþm. Kristínar Ástgeirsdóttur. Sannleikurinn er sá, að þar er alveg sama sagan á ferðinni. Það er engin stefna í húsnæðismálum Íslendinga. Ég hygg að ég hafi látið þau orð falla í borgarstjórn fyrir allmörgum árum að menn ættu að fara að setjast niður og huga að því hver sé húsnæðisþörf Reykvíkinga á næstu áratugum. Svo að höfuðborgin sé tekin sem dæmi eru byggð einbýlishús í tuga og hundraða og þúsunda tali meðan ungt fólk hefur ekki nokkur tök á að fá litlar hentugar íbúðir. Ég hef áður spáð því, og ég spái því enn, að innan nokkurra ára verði þessar eignir verðlausar. Menn geta komið þessu upp með þrotlausri vinnu, en þegar á síðan að fara að selja rándýrar eignir, sem allt of mikið er til af í borginni, gæti svo farið að fjárfestingin í steinsteypunni hafi ekki verið svo góð fjárfesting reyndar. Og þess vegna er ég að tala um húsnæðismál að auðvitað er þetta allt saman nátengt hvað öðru, þessi mál sem varða fjölskylduna. Af hverju verða íslenskar konur, og þar er engin spurning um val, að mestu leyti að vinna utan heimilis hvað sem því líður að auðvitað er full þörf fyrir þessa vinnu? Af hverju skyldu þær verða að vinna úti? Það skyldi nú aldrei vera vegna þess að húsnæðisöflunin, húsbyggingarnar, er slíkur baggi á fjölskyldunni að fyrir því vinnur engin ein manneskja.

Ég held þess vegna að það sé ákaflega nauðsynlegt að fara að koma sér að því hér á hinu háa Alþingi að gera sér einhverja hugmynd um hvað við ætlum fjölskyldu framtíðarinnar. Það er nefnilega stórt hagfræðilegt vandamál, sem ég er hrædd um að vinir okkar á Norðurlöndum séu að horfast í augu við nú, hvort fjölskyldan sé ekki um það bil að lognast út af. Danir og Svíar eignast nú svo lítið af börnum að þjóðunum fækkar. Íslendingar halda enn í horfinu sem betur fer. En þegar svo er komið að þjóð er í raun og veru að eyða sjálfri sér fara menn loksins að hugsa: Af hverju skyldi þetta nú vera? Ég man ekki hvort ég hef sagt frá því áður hér í sölum Alþingis, en það sakar þá ekki að kveða góða vísu oftar en einu sinni, að í danska blaðinu Information birtist mjög merkileg grein eftir danskan sagnfræðing þar sem hann sýnir fram á að fækki Dönum eins og nú horfir verði þeir árið 2080 aftur 2 millj. eins og þeir voru árið 1880. Þar með er auðvitað danskt þjóðfélag hrunið eins og hver getur sagt sér sjálfur. Þetta eru mál sem við erum kjörin til að huga að. Að hverju stefnum við? Hvernig verður íslenskt þjóðfélag að einhverjum áratugum liðnum? Þess vegna er ég alltaf ofurlitið efins þegar menn eru að leggja hér fram tillögur um alla skapaða hluti, bætur á grágötótta flík, tillögur um einstaka þjóðfélagshópa, ekki síst ef einhver þeirra kemur saman í þjóðfélaginu og fer að vekja athygli á sínum högum. Þá þjóta þm. upp til handa og fóta til að reyna að krækja í hópinn sem hélt ráðstefnu um hitt eða þetta og sanna með því hvað þeir eru vel vakandi. Þeim datt að vísu ekkert í hug fyrr en fundurinn var haldinn. Ég segi alveg hreinskilnislega að ég nenni ekki svona vinnubrögðum. Mér finnst þetta satt best að segja nokkuð fyrir neðan virðingu þm.

Hér eigum við að móta stóru línurnar í rekstri þjóðfélagsins. Það er enginn vandi að afla sér margra kjósenda með því að koma með einhverjar tillögur sem geta svolítið bætt úr fyrir þessum þjóðfélagshópnum eða hinum, en það leysir auðvitað engan vanda. Og í sambandi við þessa till., sem er auðvitað annars góðra gjalda verð, er ég hjartanlega sammála hv. flm. um að húsmæður landsins eiga auðvitað ekki að vera réttindalausar, og ég vil vekja athygli á að okkur er málið skylt. Ég leit lauslega í gegnum handbók Alþingis nýlega og ég harma að hafa ekki gert talningu, en þar sá ég að alþm. eru þeir menn sem eiga fleiri konur en ég hef lengi séð sem eru húsmæður að atvinnu, og ég fylltist satt að segja heilagri öfund. Það hlýtur að vera þægilegt að vera alþm. og eiga húsmóður heima. Og víst vil ég ekki að þessar konur fremur en aðrar séu réttindalausar þegar þær verða fullorðnar. En ég held að vandinn í lífeyrismálum verði fyrst og fremst leystur með lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn. Við bíðum með óþreyju eftir að heyra hvað þessi magnaða nefnd er að gera, sem ef ég man rétt einu sinni var 17 manna og síðan var sett niður sjö manna undirnefnd. Þetta getur nú eflaust minn hv. félagi og 7. þm. Reykv. frætt okkur um. Einu sinni vissi ég þetta, en það er orðið svo langt síðan ég er búin að gleyma því. (GJG: Það er álitið að nefndin skili áliti um aldamót.) Hv. 7. þm. Reykv. upplýsir að nefndin skili áliti um aldamót. Við skulum vona að seðlabankastjóra endist ævin vel og sinni þessari formennsku sinni til aldamóta. En ég held samt sem áður að þetta mál þoli ekki slíka bið. Ég hef sterkan grun um að lífeyrissjóðir landsmanna verði þá löngu hrundir ef svo fer sem horfir. En um það þyrfti raunar aðra og lengri umr.

En svo að ég reyni að taka saman mál mitt að lokum vil ég leggja á það áherslu að menn reyni að hugsa málin í ofurlítið víðara samhengi og sinni t.d. fremur tillögum um almenna endurskoðun á lífeyrisrétti landsmanna en að vera að fá samþykktar tillögur og frv. fyrir litla afmarkaða hópa í þjóðfélaginu. Við þekkjum öll lögin um eftirlaun aldraðra sem hafa verið þeim sem þau áttu að framkvæma heldur erfið viðfangs.