05.12.1984
Efri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

KarLSteinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég hef það á tilfinningunni að hv. 4. þm. Vesturl. hafi komið hér í ræðustól sem fulltrúi afturhaldsins í landinu, gegn breytingum, gegn úrbótum, gegn framförum. Ég lít svo á að það eigi ekki að vera trúaratriði hvort fyrirtæki eru ríkisrekin eða ekki, heldur séu það hagkvæmnissjónarmið, sjónarmið sem beinast að því að tryggja atvinnu, sem ráði því hvort þau eigi að vera ríkisfyrirtæki eða ekki.

Í samtölum við þá aðila sem nefndin fékk til viðræðu kom fram að ríkið hefur búið mjög illa að þessu fyrirtæki og stjórnun þess hefur verið mjög þung í vöfum vegna þess að kerfið, ríkið hefur ekki talið sig hafa aðstöðu til að sinna því. Við getum rifjað upp að eins og kemur fram hér í áliti hv. 4. þm. Vesturl. var það mikið auglýst á sínum tíma að reisa ætti skipaverkstöð í Kleppsvík og það ætti að byggja upp Landssmiðjuna af miklum krafti í tengslum við það. Við sjáum hverjar hafa orðið efndirnar á því. Það reyndist bara loft, það reyndist bara áróður og skrum. Ekkert liggur eftir nema ónýttur eða illseljanlegur grunnur sem er Landssmiðjunni til mikillar byrði.

Ég sé líka að í áliti Félags járniðnaðarmanna er þess getið að mjög þurfi að hressa upp á fyrirtækið til að það standi undir nafni. Það þurfi að breyta því afskaplega mikið, leggja í það mikið fé. Þetta segir okkur það að ef fyrirtækið er svo illa búið sem þar kemur fram, þá eru litlar líkur á því að það verði samkeppnisfært á næstu árum, einkum með tilliti til þess að yfirstjórn fyrirtækisins, sem er ríkið, hefur dregið lappirnar gagnvart því og ekki veitt til þess það fjármagn sem nauðsynlegt er. Það er nú mergurinn málsins að það er ekki nóg að fyrirtæki heiti ríkisfyrirtæki, heldur þarf yfirstjórnin, þ.e. stjórnvöld, að vera því hlynnt að fyrirtækin séu rekin sem slík og sinna þeim af fyllstu alúð á þann veg að það sé hægt að reka þau af fyllstu reisn. En ég sé ekki að núverandi valdhafar frekar en fyrri valdhafar hafi burði til þess.

Ég sé líka í áliti Félags járniðnaðarmanna að það er stefnuatriði hjá þeim að þetta fyrirtæki verði ríkisrekið. Ég sé ekki hvers virði það er ef það hefur enga hagkvæmni í för með sér. Vert er að geta þess að ef fólk getur fengið atvinnu annars staðar en þar og ef það er ekki atvinnuskortur, þá er ekkert að því að þeir menn sem störfuðu hjá Landssmiðjunni vinni annars staðar ef því er að skipta.

Það kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að aðeins 22 af 76 starfsmönnum hefðu gerst hluthafar. Mér er kunnugt um það að allir, sem þar störfuðu, áttu kost á því að verða hluthafar. En það voru ekki fleiri sem óskuðu eftir að gerast hluthafar og ég sé ekki að það sé neitt um að sakast.

Í viðræðum við þá aðila sem hyggjast kaupa fyrirtækið kom fram að á síðustu árum hefur það tíðkast að hin ýmsu ríkisfyrirtæki settu upp vélsmiðjur. Þessi fyrirtæki hafa sjálf sett upp vélsmiðjur innan síns rekstrarsviðs. Þetta hefur síðan dregið verkefni frá Landssmiðjunni. Þetta hefur gerst í skjóli Alþb. sem annarra ríkisstjórnarflokka og smám saman hefur þetta fyrirtæki verið að koðna niður.

Þess er getið hér í áliti minni hl. að tilraunaverksmiðja svokölluð sem byggir á nýrri aðferð við þurrkun á fiskimjöll komi til með að geta bætt úr rekstri Landssmiðjunnar. Það kom einmitt fram á nefndarfundi að þessi tilraunaverksmiðja virðist ekki geta sinnt slíku hlutverki. Í ljós hefur komið að í Bandaríkjunum er til einkaleyfi fyrir slíkri verksmiðju, sams konar verksmiðju eða næstum því eins og verið er að tala um þarna, svo að ég sé ekki að það verði nokkur hagur af því að halda áfram því verkefni, enda fæst ekki einkaleyfi í Bandaríkjunum á þessari „uppfinningu“.

Því var haldið fram hér áðan að þetta væri fyrst og fremst gert til þess að koma fram vilja og stefnu ríkisstj. Ef ríkisstj. hittir svo á að gera eitthvað gott, þá finnst mér ástæða til að styðja það hiklaust. Ég bendi á það að í fyrra var tekin ákvörðun um að selja Siglósíld á Siglufirði. Og þá fyrst, eftir að það hafði orðið að veruleika, reis það fyrirtæki úr rústum og veitir nú miklu fleira fólki atvinnu en áður og er rekið af miklu meiri þrótti. Það finnast mér nokkuð gild rök fyrir því að skoða megi málin án nokkurra trúarbragðakredda. Ég hef sem sagt komist að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa skoðað þetta mál, að það sé ástæða til að selja þetta fyrirtæki. Þess vegna styð ég það frv. sem hér liggur fyrir.

Ástæðulaust er að hafa fleiri orð um þetta. En ég endurtek: Þeir sem komu til viðræðna héldu því fram að reksturinn hefði verið afar þungur í vöfum vegna afstöðu ríkisvaldsins á hverjum tíma og það hefði staðið í vegi fyrir uppbyggingu þess.

Það var ekki rannsakað í nefndinni, a.m.k. ekki á þeim fundi sem ég gat sótt, hvort verð á þjónustu Landssmiðjunnar við ríkisfyrirtæki hafi verið sambærilegt við aðrar vélsmiðjur. Fróðlegt væri að vita hvort svo hefur verið. En ég tel nokkra hættu á því, ef eitt ríkisfyrirtæki hefur forgang eða einokun á því að þjóna öðrum ríkisfyrirtækjum, að það geti orðið mun dýrara en ef sú þjónusta væri keypt á frjálsum markaði.

Að lokum þetta: Ég styð þetta frv. og tel að öll rök hnigi að því að þetta fyrirtæki verði selt nú. Þetta fyrirtæki hefur þjónað mikilvægu hlutverki á gengnum árum og ber að þakka það. Það var reist við þær aðstæður að nauðsyn bar til að skapa fólki atvinnu, hafa frumkvæði að svona rekstri. En ég tel að nú sé því hlutverki lokið.