05.12.1984
Neðri deild: 20. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1618 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

153. mál, heilbrigðisþjónusta

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég er ekkert hissa á því að fulltrúar Framsfl. hafa samþykkt þetta frv. óbreytt, af þeirri einu ástæðu að hér er um að ræða ósk forsvarsmanna bæjarfélaganna á öllu höfuðborgarsvæðinu. Það er ósk bæjarfulltrúa, utan Reykjavíkur, á Seltjarnarnesi, í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Það er útilokað að láta þetta nýja ákvæði taka gildi nema um áramót. Það er útilokað annað en að bíða eftir nál. og niðurstöðu þeirrar nefndar sem fjallar um málið. Og þar eru fulltrúar þrír sveitarstjórnarmenn sem jafnvel koma til með að leggja til lagabreytingu. Hvernig í ósköpunum á svo 1. maí eða einhvern tíma á árinu að láta breytinguna eiga sér stað? Það má þá heldur betur taka til hendi, ef breytingin á að taka gildi um áramót, í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Það er ýmislegt sem kemur þar upp á og viðamiklar breytingar sem eiga sér stað.

Það er ekkert óeðlilegt að uppbygging heilsugæslustarfsemi á Reykjavíkursvæðinu sé ekki búin því að lögin um heilbrigðisþjónustu gera ráð fyrir að uppbygging heilsugæslunnar úti um land sitji fyrir. Það hefur verið gert á þessu árabili öllu í samræmi við gildandi lög. Ég held að það sé miklu mikilsverðara fyrir höfuðborgarsvæðið að flana ekki að neinu, heldur láta þessar tillögur liggja fyrir og fjalla um þær þannig að þessi breyting geti átt sér stað um næstu áramót. Akureyri hefur lengi haft málið til umhugsunar og þar hefur heilsugæslufyrirkomulagið verið vandlega undirbúið og tekur gildi núna 1. janúar.

Ég vænti þess að hv. n. hraði afgreiðslu þessa máls því að það liggur ákaflega ljóst fyrir og óskir eru fram komnar í þeim efnum.