05.12.1984
Efri deild: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (1131)

190. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. á þskj. 209 um breyt. á lögum nr. 73 frá 26. nóv. 1980, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum.

Skv. 8. málsgr. 26. gr. laga nr. 73 26. nóv. 1980, um tekjustofna sveitarfélaga, skulu fjárhæðir í 26. gr. laganna breytast í samræmi við skattvísitölu eins og hún er á hverjum tíma, sbr. 121. gr laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Þar sem ekki er gert ráð fyrir því að í fjárlögum ársins 1985 verði gefin upp skattvísitala er nauðsynlegt að breyta fjárhæðum í 26. gr. laga nr. 73/1980 með sérstökum lögum. Að mati Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir að laun hækki um 25% á milli áranna 1984 og 1985. Er því skv. frv. þessu gerð sú tillaga að fjárhæðir í 26. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, hækki um 25%.

Í 1. gr. er sú breyting gerð að í stað 1800 kr. í 1. málsgr. 26. gr. komi 2250 kr. og í stað 360 kr. í 1. og 2. málsl. 2. málsgr. komi 450 kr., en í stað 520 kr. í 7. málsgr. komi 650 kr.

Það er gert ráð fyrir að lög þessi öðlist þegar gildi og komi til framkvæmda við álagningu útsvara á árinu 1985 vegna tekna á árinu 1984.

Virðulegi forseti. Þetta er sams konar lagabreyting og mælt var fyrir á síðasta þingi og út af sömu forsendum og ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta lengra mál. Hv. alþm. kannast vel við þessa breytingu. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og félmn.