11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1771 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

169. mál, yfirtaka Landsvirkunar á Kröfluvirkjun

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að spyrja hæstv. iðnrh. allmargra spurninga á þskj. 178 varðandi yfirtöku Landsvirkjunar á Kröfluvirkjun. Tilefni þessarar fyrirspurnar er ekki síst endurtekin skrif í dagblöðum og umfjöllun í fleiri fjölmiðlum um það að til standi að Landsvirkjun yfirtaki mannvirki Kröfluvirkjunar og taki við rekstri hennar. Í þeirri umfjöllun hefur gjarnan verið fullyrt að mikið af áhvílandi skuldum Kröfluvirkjunar yrði skilið eftir á vegum ríkisins, en Landsvirkjun yfirtaki sem sagt mannvirkin einungis með hluta af áhvílandi skuldum. Nefndar hafa verið upphæðir eins og 1–2 milljarðar kr. í þessu sambandi. Þessar upplýsingar stinga hins vegar nokkuð í stúf við niðurstöður sérfræðinga sem gerðu úttekt á Kröfluvirkjun og möguleikum hennar til að bera sínar skuldir. Í þeirri skýrslu, sem út kom í maí 1983, var talið að Kröfluvirkjun gæti, ef afköst hennar yrðu aukin í fullt, greitt niður skuldir sínar og lokið því skömmu eftir næstu aldamót.

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því að þetta eru allviðamiklar spurningar í ellefu liðum fyrir stuttan fyrirspurnatíma en ég bið hæstv. iðnrh. að virða mér það til betri vegar. Mér þótti nauðsynlegt að fá greint frá þeim valkostum sem fyrir hendi eru í rekstri virkjunarinnar, svo sem eins og þeim sem fyrir hendi eru miðað við óbreytta framleiðslu, eða óbreytt afköst, þ.e. um hálf afköst, eða þeim möguleikum sem sköpuðust við að auka afköst virkjunarinnar í fulla getu og hvaða áhrif þetta hefði á rekstrarmöguleika virkjunarinnar. Það er alþjóð kunnugt að hæstv. iðnrh. er þekktur að því að vera bæði gagnorður og snarorður. Ég vona að þeir eiginleikar nýtist honum vel við að svara þessum viðamiklu spurningum hér í stuttum fyrirspurnatíma. Spurningarnar eru þessar, með leyfi forseta:

1. Er fyrirhugað að Landsvirkjun taki við rekstri Kröfluvirkjunar, og þá hvenær?

2. Hvaða verð hyggst iðnrh. fyrir hönd ríkissjóðs setja upp fyrir virkjunina?

3. Telur ráðh. að enn séu í fullu gildi þær niðurstöður í skýrslu Verkfræðistofunnar Strengs, sem skilað var í maí 1983, að ef afl virkjunarinnar yrði aukið í 60 mw. gæti virkjunin sjálf lokið við að greiða niður skuldir sínar skömmu eftir aldamót?

4. Hverjar eru áhvílandi skuldir Kröfluvirkjunar, til hve langs tíma eru þær og með hvaða kjörum eru þau lán sem virkjunin hefur tekið?

5. Hverjar eru áætlaðar hreinar tekjur Kröfluvirkjunar, fyrir afskriftir, árið 1984 og 1985 miðað við núgildandi orkusölusamning við Landsvirkjun og miðað við framlengingu á honum út árið 1985?

6. Hve langan tíma tæki það Kröfluvirkjun að greiða niður fjárfestingu fyrirtækisins ef virkjunin yrði áfram rekin sem sjálfstætt fyrirtæki og miðað við núverandi söluverð á raforku:

a) miðað við 5700 nýtingarstundir á ári og 30 mw. framleiðslu;

b) miðað við 8000 nýtingarstundir á ári og 30 mw. framleiðslu?

7. Hve langan tíma tæki það Kröfluvirkjun að greiða niður fjárfestingu þá, sem á fyrirtækinu hvílir nú, til viðbótar þeirri fjárfestingu sem talin er þurfa til að virkjunin nái fullum afköstum:

a) miðað við 5700 nýtingarstundir á ári og 60 mw. framleiðslu;

b) miðað við 8000 nýtingarstundir á ári og 60 mw. framleiðslu;

c) miðað við 8250 nýtingarstundir á ári og 65 mw. framleiðslu?

8. Hver er áætlaður framleiðslukostnaður á þeirri raforku, sem fengist við stækkun Kröfluvirkjunar, samanborið við áætlanakostnað frá öðrum rannsökuðum virkjunarkostum?

9. Hvert er gildi Kröfluvirkjunar fyrir rekstur byggðalínukerfisins:

a) með tilliti til rekstraröryggis;

b) með tilliti til minna orkutaps?

10. Hyggst ráðh., ef af afhendingu Kröfluvirkjunar til Landsvirkjunar verður, setja einhver skilyrði um áframhaldandi rekstur og uppbyggingu virkjunarinnar?

11. Þarf yfirtaka Landsvirkjunar á Kröfluvirkjun, með þeim kjörum sem ríkið hyggst bjóða, að leiða til breytinga á raforkuverði til almennra notenda í landinu?