11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1778 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

169. mál, yfirtaka Landsvirkunar á Kröfluvirkjun

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt. Ég vil þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að hreyfa þessu máli hér. Ég tel að það hafi verið þarft að minna aðeins á þetta ágæta fyrirtæki. Ég leyfi mér að segja ágæta, fyrir það að ég held að oft hafi verið ómaklega vegið að Kröfluvirkjun á undanförnum árum og þeim framkvæmdum, sem þar var unnið að. Auðvitað urðu aðstæður þær, þegar jarðeldar komu upp á þessu svæði, að hugmyndir manna sem höfðu undirbúið þessa virkjun og þessar framkvæmdir hlutu að raskast verulega og forsendur að breytast og við búum enn við það óvissuástand sem jarðeldarnir hafa leitt af sér varðandi Kröfluvirkjun.

Hins vegar vil ég lýsa ánægju minni með margt af því sem kom fram í svörum hæstv. iðnrh. við þessum fsp. þar sem hann telur, og það virðist mega leiða að því líkur, að virkjun í fullri stærð eins og hún var fyrirhuguð í upphafi kunni að geta borgað sig upp á ákveðnu árabili fljótlega upp úr aldamótum og finnst mér það vera nokkuð annað en við höfum stundum heyrt þegar verið er að ræða málefni Kröfluvirkjunar.

Það kann að vera rétt eins og hæstv. iðnrh. nefndi að það eigi að semja við Landsvirkjun um yfirtöku þessarar virkjunar og samrekstur eða samkeyrslu, nota þetta ekki eins og nokkurs konar hjáleigu í orkubúskapnum. Mér sýnist a.m.k. svona frá leikmannssjónarmiði, ég hef ekki mikið vit á uppbyggingu raforkuvera, að það hljóti að vera einkennileg ráðstöfun að loka gufuaflsvirkjun mánuðum saman á sumrin en keyra í staðinn þær vatnsaflsvirkjanir sem við höfum. Ég hefði álitið að þetta ætti að vera algerlega öfugt, það ætti að hægja á vatnsaflsvirkjununum og nota þá sumartímann til þess að safna þar vatni í miðlunarlón og eiga til þess tíma sem vatnsbúskapur kynni að vera erfiðari. En gufuaflsvirkjun sé miklu skynsamlegri að keyra viðstöðulaust allt árið. Það hafa sagt mér verkfræðingar, sem vinna við Kröfluvirkjun, að það væri nægjanlegt fyrir þá að fá eins og einn mánuð annað hvert ár til þess að gera upp eða yfirfara vélar, túrbínur og vélasamstæður virkjunarinnar, en það sé fáránlegt að stoppa virkjunina mánuðum saman á hverju einasta ári og þeim mun óskynsamlegra þar sem um gufuaflsvirkjun sé að ræða, því að það hljóti að fara illa með allar lagnir og leiðslur þessarar virkjunar þegar skrúfað er fyrir gufuna og leiðslur og lagnir allar kólna og hitna til skiptis svo sem það hlýtur að hafa í för með sér.

Ég vil þá aðeins að lokum ítreka og taka undir með fyrirspyrjanda, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, þegar hann telur að meta megi inn í þetta dæmi allt saman þá miklu og mikilvægu reynslu og þekkingu, sem við hljótum að hafa fengið varðandi þessa virkjun, boranir og framkvæmdir sem átt hafa sér stað við Kröflu og óska eftir því jafnframt að framhaldið verði nú skoðað ítarlega. sjálfsagt verður áfram nokkur biðstaða meðan jarðeldar eru enn þá uppi, en við megum ekki afskrifa þessa virkjun við þær kringumstæður.