11.12.1984
Sameinað þing: 32. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1802 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

52. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um lækkun húshitunarkostnaðar og átak í orkusparnaði. En hún er flutt af mér og sjö öðrum þm. Alþb. Till. þessi, sem er á þskj. 52, er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til að lækka og jafna upphitunarkostnað húsnæðis í landinu. Þær ráðstafanir feli m.a. í sér eftirfarandi:

1. Við lækkun húshitunarkostnaðar verði höfð sú viðmiðun að ekki þurfi meira en sex vikna laun á ári samkvæmt dagvinnutekjutryggingu Verkamannafélagsins Dagsbrúnar til hitunar meðalíbúðar (400 m3) frá ársbyrjun 1985 að telja.

2. Samhliða þessu verði gert stórátak til orkusparnaðar með endurbótum á einangrun og öðrum frágangi íbúðar- og atvinnuhúsnæðis í landinu. Útvegað verði fjármagn í þessu skyni svo unnt sé að veita styrki og hagstæð lán til úrbóta. Við úthlutun lána og styrkja verði m.a. tekið mið af raunnotkun orku hjá viðkomandi notanda. Valdir verði úr nokkrir þéttbýlisstaðir á landinu í samráði við sveitarstjórnir og þar gert sérstakt átak hið fyrsta til að leiða í ljós hvaða árangri megi ná í orkusparnaði í heilum byggðarlögum.

3. Áhersla verði lögð á að ljúka á árinu 1985 skiptum frá olíu yfir á innlenda orkugjafa í húshitun hvarvetna þar sem slíkt er hagkvæmt og tæknilega kleift.

Endurmetnar verði kröfur um frágang nýbygginga til að draga úr orkunotkun.

Við fjáröflun til lækkunar á húshitunarkostnaði verði höfð hliðsjón af áliti nefndar á vegum iðnrn. frá 28. janúar 1983 sem í áttu sæti fulltrúar þingflokka.“

Þetta er efni þáltill. Till., að mörgu leyti í flestum greinum svipuð þessari, var flutt á síðasta þingi og komst þá til n. en fékk ekki afgreiðslu. Hér hefur þó verið breytt ákveðnum áherslum til einföldunar í sambandi við þetta efni. Í fyrra var gert ráð fyrir því að ná fram því markmiði, sem hér er fram sett, sex vikna viðmiðunartímanum sem hámarki varðandi húshitunarkostnað í landinu, í tveimur áföngum, á síðasta ári og því ári sem nú er senn liðið. En hér er aðeins gert ráð fyrir einum áfanga í þessu máli vegna þess tíma sem síðan er liðinn. Einnig er ekki tekið inn í þessa till. nú sérstakt ákvæði, sem gerð var till. um í fyrra, varðandi ráðgjafarþjónustu í orkusparnaði. Er það gert með tilliti til þess að hæstv. iðnrh. hefur á þeim tíma, sem síðan er liðinn, breytt nokkuð tilhögun í sambandi við þau mál og sett á laggirnar sérstaka nefnd til að hafa eftirlit með orkusparnaðarmálum. Töldum við flm. ekki rétt að vera að leggja sérstaklega til í þessari till. breytingu á því kerfi sem enn hefur ekki fengist nema takmörkuð reynsla af.

Í grg. með þessari till., sem er allítarleg, er vakin athygli á því m.a. að enginn þáttur veldur jafnmikilli mismunun í kjörum fólks hérlendis og ójafn húshitunarkostnaður. Á sama tíma og tæp 60% landsmanna, eða 140 þús. manns, búa við ódýrar hitaveitur þurfa 30% þjóðarinnar, 72 þús. manns, að greiða margfaldan kostnað fyrir hitun frá dýrum rafveitum og hitaveitum. Auk þess eru um 5%, eða tæplega 11 þús. manns, sem enn búa við olíuhitun, en flestir þeirra eiga nú þegar völ á að tengjast innlendum en yfirleitt dýrum veitum. Í grófum dráttum lítur dæmið þannig út að um þriðjungur landsmanna býr við mjög háan hitunarkostnað þrátt fyrir niðurgreiðslu á raforku og olíu til húshitunar. Miðað við gjaldskrá og vel einangrað húsnæði þarf þessi hluti þjóðarinnar að greiða tvöfalt til þrefalt meira fyrir hitun híbýla sinna en þau 60% sem njóta ódýrra hitaveitna. Fyrrnefndi hópurinn þarf að verja í húshitun að meðaltali sem svarar 8–12 vikna launum lágtekjufólks, miðað við tekjutryggingu í dagvinnu, en síðartaldi hópurinn ver í þessu skyni sem svarar fjögurra vikna launum.

Í mörgum tilvikum, og á það legg ég áherslu, er munurinn þó langtum meiri en hér er rakinn miðað við meðaltalsaðstæður og kostnaðurinn við húshitun hrikalegri.

Í grg. með frv. eru rakin dæmi m.a. frá Vestfjörðum til að renna stoðum undir þessar staðhæfingar, en þar og víða annars staðar á landinu hefur verið, m.a. af hálfu sveitarstjórnarmanna, farið allnáið ofan í saumana á þessum kostnaðarlið í heimilisrekstri. Vissulega er það ekki aðeins vegna mismunandi gjaldskráa veitufyrirtækja sem orkunotkun er mismunandi. Þar koma til m.a. veðurfarslegar aðstæður sem ekki er hægt að horfa fram hjá, en þó sérstaklega mismunandi gerð húsa, hegðun notenda og fjöldi íbúa. Allir þessir þættir blandast að sjálfsögðu inn í þetta mál.

Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins hefur á liðnum árum gert sérstakar athuganir á völdum þéttbýlisstöðum í sambandi við orkunotkun. Í þeirri könnun hefur það verið dregið fram, eins og lesa má í fskj., að munurinn milli notenda, sem þó búa við tiltölulega sambærilegar aðstæður, getur verið býsna mikill vegna þess að menn leggja mismunandi áherslu m.a. á það að spara orku.

Það er þannig ljóst af þessu að tvennt er það sem veldur mestum ójöfnuði í húshitunarkostnaði, mismunur á gjaldskrám veitufyrirtækja og ófullnægjandi frágangur húsnæðis. Aðgerðir til að lækka og jafna orkureikninga heimila í landinu vegna húshitunar þurfa því að beinast að hvoru tveggja, lækkun á hæstu gjaldskránum og skipulegum orkusparnaði, m.a. með endurbótum á húsnæði. Þáltill. þessi tekur á báðum þessum þáttum.

Í töflu eitt, sem fylgir á bls. 3 með þessari þáltill., er brugðið upp mynd af því hver hámarkskostnaður væri við húshitun í landinu ef farið væri eftir till. þeim sem hér liggja fyrir. Þá er raunar miðað við dagvinnutekjutryggingu Dagsbrúnar eins og hún var áður en síðustu kjarasamningar voru gerðir því svo langt er um liðið síðan till. þessi var lögð fram hér í þinginu.

Skv. því yfirliti, sem lesa má um í töflu I, þá eru það rétt tæp 60% landsmanna sem búa við ódýrar hitaveitur þar sem mánaðargjaldið er undir 12 500 krónum á ári, svo sem er t.d. hjá Hitaveitu Reykjavíkur. Meðaldýrar eru þær hitaveitur kallaðar þar sem gjaldendur greiða 20–30 þús. kr. sem er yfir því marki sem hér um ræðir. Þar þyrfti því að koma til niðurgreiðslna, eða lækkun á gjaldskrám skv. þessari þáltill. Þá eru það dýrar hitaveitur, sem 30 þús. íbúar búa við, eða um 12.6% landsmanna, sem eru með gjaldskrár sem svarar til 30 þús. kr. á mánuði eða þaðan af meira og þar yrði að sjálfsögðu um verulega lækkun að ræða.

Ég get getið þess hér í þessu samhengi að miðað við það hámark sem gert er ráð fyrir í þessu frv. þá væri um að ræða nær 50% lækkun á gjaldskrá hjá Hitaveitu Akureyrar og svipað trúi ég hjá Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, en þær gjaldskrár eru mjög háar sem kunnugt er.

Varðandi rafhitunina eru það um 14.5% íbúa landsins sem búa við rafhitun, beina rafhitun og fjarvarmaveitur sem nota rafmagn sem orkugjafa, en með niðurgreiðslum hefur gjaldskrám miðað við meðaltalsaðstæður verið haldið um skeið í á bilinu 17–28 þús. kr. á ári.

Olíuhitunin er svo sér á parti. Það eru um 11 þús. manns, eða tæp 5% landsmanna, sem enn búa við olíuhitun skv. þeim tölum sem fyrir liggja. Þar er mánaðargreiðslan, að teknu tilliti til niðurgreiðslu á olíunni, nálægt 33 þús. kr. á ári. Gert er ráð fyrir því skv. þessari þáltill. að haldið verði u.þ.b. 10% mun á rafhitunartaxta hjá þeim sem búa við olíuhitun og njóta niðurgreiðslu.

Þess ber einnig að geta að sérstök áhersla er á það lögð, eins og kemur fram í efni þáltill., að tekið verði fyrir upphitun með olíu, a.m.k. verði ekki haldið áfram að greiða ótímabundið olíustyrki til þeirra sem hafa möguleika á því að tengjast innlendum orkugjöfum. Slíkt sýnist vera nokkuð sjálfsagt og við leggjum á það áherslu, flm., að þeir sem í hlut eiga fái nægjanlega örvun, t.d. beina styrki en ekki aðeins lán, til að gera þarna á skjóta bragarbót og tengjast innlendum orkugjöfum. Það segir sig sjálft að það er þjóðhagslega skynsamlegt að reyna að nýta hina innlendu orku, ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að nú er yfirfljótandi orka í íslenska raforkukerfinu, mikil offramleiðsla, offramboð í rauninni á orku hjá Landsvirkjun sem kunnugt er.

Það viðmiðunarmark, sem dregið er hér skv. þessari þáltill., er miðað við dagvinnutekjutryggingu eins og hún var þegar till. var lögð fram, 17 800 kr. á ári sem hámark þess sem hver greiði til húshitunar miðað við meðaltalsaðstæður, þ.e. þeir sem búa við innlenda orkugjafa og þeir sem búa við olíuhitun og ekki eiga völ á að tengjast innlendum orkugjöfum greiddu 19 600 kr. Skylt er að geta þess að með breyttum kjarasamningum nú nýverið hefur dagvinnutekjutryggingin hækkað úr 2 980 kr., sem hún var í að mig minnir í 3 248 á viku. Þessi mörk, sem miðað er við skv. frv., eru því komin varðandi innlendu orkugjafana í 19 488 kr. og varðandi olíuhitunina og 10% umfram viðmiðun við innienda orkugjafa þá er þar um að ræða 21 436 kr.

Rökstuðning er að finna í þessari þáltill. og grg. með henni og jafnframt er þar brugðið upp yfirliti um aðgerðir á liðnum árum: Greiðslu olíustyrkja og hvernig þær hafa þróast, jöfnun heildsöluverðs á raforku, sem upp var tekin með stofnun Landsvirkjunar sem Íslandsvirkjunar 1983, aðgerðir til niðurgreiðslu á raforku sem rekja má aftur til ársins 1982, fjáröflun og tillögur þar að lútandi til að jafna húshitunarkostnað og þá raktar sérstaklega þær till. sem nefnd með fulltrúum allra þingflokka skilaði í lok janúar 1983 og sem vísað er til í tillögugreininni. Einnig er fjallað um fjárhagsvanda hitaveitna og aðgerðir sem þar hefur verið gripið til á liðnum árum til að létta þeim róðurinn sem þó engan veginn hafa skilað viðunandi orkuverði til notenda hjá þeim sem búa við dýrar veitur.

Einnig er á bls. 9 í grg. vikið að lánum til orkusparandi breytinga á íbúðarhúsnæði, en slík lán voru heimiluð með breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem samþykkt voru á árinu 1980 og hafnar lánveitingar í samræmi við það á árinu 1981. Þar hafa verið gerðar breytingar ekki alls fyrir löngu til vissra úrbóta með endurskoðun á lánum frá húsnæðismálastjórn til orkusparandi aðgerða. En það kerfi, sem þar er upp tekið, og það athugunarkerfi, sem hæstv. iðnrh. beitti sér fyrir að upp yrði tekið í sambandi við orkusparnað, hefur engan veginn enn skilað þeim niðurstöðum sem ég veit að stjórnvöld væntu að fengjust. Ég vil geta þess í þessu sambandi að nýjustu tölur, sem ég hef varðandi úthlutun á lánum til orkusparandi aðgerða á íbúðarhúsnæði, eru frá 5. des. 1984. Skv. þeim bárust umsóknir frá 285 aðilum um orkusparnaðarlán. Þar af höfðu verið afgreidd 5. des. s.l. 109 lánsumsóknir en óafgreiddar voru 63 lánsumsóknir sem taldar voru standast þær kröfur sem gerðar eru til slíkra lánveitinga.

Af þessum lánum voru 87 svokölluð „túbulán“ vegna breytinga frá olíuhitun yfir á rafhitun. Satt að segja er sú tala ótrúlega lág miðað við það að hægt væri nú þegar að útrýma olíuhitun langleiðina með því að viðkomandi notendur tengdust innlendum veitum eða veitum sem byggja á innlendum orkugjöfum.

Um hin nýju 80% lán til orkusparnaðaraðgerða liggur það fyrir að 5. des. s.l. höfðu aðeins verið afgreidd frá Húsnæðisstofnun — Hvað halda hv. þm.? — 8 lán skv. hinu nýja kerfi sem upp var tekið og kynnt snemma á þessu ári. Það hefur ekki reynst hraðvirkara en svo að aðeins 8 lán höfðu verið afgreidd þar að lútandi. Full ástæða er því til að hvetja til þess að hertur verði róðurinn í sambandi við þau mál og tryggt að nægilegar fjárveitingar fáist. Ég tel líka að hér þurfi að taka upp styrki til viðbótar við hagstæð lán í þessu sambandi. Svo mikið er í húfi þjóðhagslega í sambandi við þessi efni og hag þeirra sem í hlut eiga að ég tel það fyllilega réttlætanlegt að örva til aðgerða með styrkjum. Ég held líka að hámark þeirra upphæða, sem ég held að séu 60 þús. kr., sem framkvæmdirnar þurfa að nema til að orkusparnaðarlán sé veitt, liggi of hátt og það beri að endurskoða það efni sérstaklega.

Í grg. er rakið hvernig orkukostnaðurinn hefur hækkað m.a. í tíð núverandi ríkisstj. og ætla ég ekki að tíunda það. Hins vegar tók ég eftir því áðan í máli hæstv. iðnrh. þegar hann svaraði fsp. að hann nefndi væntanlega hækkun frá Landsvirkjun og talan 14% kom þar fram. Það þykja mér slæm tíðindi ef fram undan er slík hækkun á raforkuverði sem trúlega kemur fram í hækkun á gjaldskrám hjá notendum. Ég vil inna hæstv. ráðh. eftir því hvort þetta hafi verið rétt skilið, að slík hækkun sé í undirbúningi á raforkunni og hvað megi gera ráð fyrir að sú hækkun hjá t.d. notendum Rafmagnsveitna ríkisins muni þá nema miklu.

Í grg. er vikið að störfum svonefndrar orkuverðsnefndar sem hæstv. núverandi iðnrh. skipaði í júlí 1983 og skilaði áliti til ráðh. 1. des. 1983 í formi frv. til l. um jöfnun hitunarkostnaðar. Hæstv. ráðh. gerði ráð fyrir því að það frv. kæmi fram skömmu eftir jólahlé á liðnu ári eða í janúarmánuði s.l. En það var ekki fyrr en 26. apríl 1984 að stjórnarfrv. með sama nafni, frv. til l. um jöfnun hitunarkostnaðar, var lagt fram í efri deild. Í athugasemdum við það frv. sagði m.a., með leyfi forseta:

„Byggir frv. þetta í ýmsum veigamiklum atriðum á starfi nefndarinnar, en önnur atriði hafa tekið breytingum í meðförum rn. Ódýrar hitaveitur hafa hækkað tiltölulega mest að undanförnu og niðurgreiðslur raforku hafa þegar verið auknar að því marki sem frv. þetta gerir ráð fyrir.“

Frv. þetta er birt sem sérstakt fskj. nr. 7 með þessari þáltill. þannig að menn hafi það fyrir sér við athugun þessa máls. Um þetta frv. var fjallað á sameiginlegum fundum iðnn. beggja deilda eftir að því hafði verið vísað til iðnn. Ed. og síðan sérstaklega í iðnn. Ed. fyrir lok síðasta þings, en sú nefnd hafði málið til meðferðar. Á síðasta fundi nefndarinnar var bókuð svofelld niðurstaða nm. sem ég tel rétt að komi hér fram, með leyfi forseta:

„330. mál. Frv. til l. um jöfnun hitunarkostnaðar. Málið rætt. Niðurstaða nefndarinnar varð eftirfarandi: Þar sem í ljós hefur komið að mörg atriði frv. þurfa ítarlegri meðferð nefndarinnar en komið verður við á þeim dögum sem nú eru eftir til þinglausna verður að horfast í augu við þá staðreynd að málið fái ekki afgreiðslu á þessu þingi. Hins vegar telur nefndin mál þetta svo mikilvægt að frv. um málið verði að leggja fram í byrjun næsta þings. Leggur nefndin áherslu á að hæstv. iðnrh. sjái um að í sumar verði unnið í málinu svo að þessi málsmeðferð nái fram að ganga. Jafnframt leyfir nefndin sér að nefna eftirtalin atriði sem einstakir nm. hafa bent á til athugunar við framhaldsmeðferð málsins:

1. Ganga tryggilega frá að allt orkujöfnunargjald fari til jöfnunar hitunarkostnaðar.

2. Kveða skýrt á um að viðmiðunarreglan 1.8-falt vegið meðalverð sé hámark þess mismunar sem má vera á hitunarkostnaði, en markmiðið sé að minnka þennan mismun.

3. Aðstoð við hitaveitur með sérvanda sé betur tryggð.

4. Framkvæmdaáætlun verði gerð um orkusparandi aðgerðir á íbúðarhúsnæði og fjármagn til hennar tryggt.

5. Sveitarstjórnir eigi aðild að gerð og stjórnun framkvæmdaáætlana.

Enn fremur kom fram í n. ábending um þau formsatriði að sérlög yrðu um orkusparandi aðgerðir og lög um jöfnun húshitunarkostnaðar yrðu bundin við ákveðinn tíma.“

Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, virðulegur forseti Sþ., er formaður iðnn. Ed. og var það einnig við meðferð þessa máls. Ég vil inna hæstv. iðnrh. eftir því hvað því valdi að frv. þetta, sem hann lagði svo mikla áherslu á að kæmi hér fram í þinginu í fyrra en var mjög síðbúið og ófullnægjandi að mati manna í iðnn. beggja deilda — það held ég að mér sé óhætt að fullyrða — að það skuli ekki hafa verið endurunnið og flutt á yfirstandandi þingi eins og eindregin tilmæli komu fram um í bókun hv. iðnn. Ed.

Ég vil vísa til þess, hvað snertir kostnað af þeim aðgerðum sem lagðar eru til með þáltill., að yfirlit um hann er að finna í fskj. 12 með þessari þáltill. unnið af verkfræðistofunni Fjarhitun að beiðni flm. Þar kemur fram að væri farið að þessari þáltill. þyrfti að verja til niðurgreiðslu á orku vegna íbúðarhúsnæðis 606 millj. kr. og er þá innifalin í þeirri tölu niðurgreiðsla á rafhitun, dýrum hitaveitum og olíuhitun. Og að auki ef tekið yrði inn í atvinnuhúsnæði og félagslegt húsnæði, þá eru það 214 millj. kr. eða samtals 820 millj. kr. ef allt þetta væri tekið með. Ég bendi einnig á að þessar tölur hafa lækkað eitthvað ef menn vilja taka tillit til þeirra breytinga á dagvinnutekjutryggingu sem náðist fram með kjarasamningum nú ekki fyrir löngu síðan. Hins vegar virðist blasa við og liggur raunar fyrir hækkun á olíuverði til kostnaðarauka varðandi niðurgreiðslu á olíuhitun. Og nú hefur hæstv. iðnrh. látið að því liggja að búast megi við hækkun á raforkuverði. Það er því ekki víst að óhætt sé að reikna með því að miða við lægri upphæðir en þarna er um að ræða. Ég vil einnig rifja það upp, vegna forsögu þessa máls og ítrekaðra umr. sem farið hafa fram um það hér í þinginu og þá sérstaklega af hálfu núv. hæstv. stjórnarsinna, að margumrætt orkujöfnunargjald í formi 1.5% söluskatts gefur upphæðir sem eru nálægt því sem hér er gert ráð fyrir. Ég hygg að áætlað sé að 1 söluskattsstig gefi nálægt 500 millj. kr. tekjur á komandi ári án þess að ég vilji fullyrða að það sé nákvæm áætlun. Það svarar þá til þess að 11/2 söluskattsstig gæfi 750 millj. kr.

Í fyrirliggjandi fjárlagafrv. er vegna niðurgreiðslu aðeins gert ráð fyrir 250 millj. kr., 200 millj. vegna niðurgreiðslu á rafhitun, bæði til beinnar rafhitunar og fjarvarmaveitna, og 50 millj. vegna olíuhitunar. Miðað við þessi mörk, sem hv. núverandi stjórnarsinnar og áður stjórnarandstæðingar klifuðu mjög á að væri sitt stefnumið fyrir síðustu kosningar, ættu því þarna að vera til ráðstöfunar 750 millj. kr. til lækkunar á húshitunarkostnaði.

Ég ætla ekki að fara að efna hér til deilna um það atriði eða fara yfir þá kynlegu umr. sem varð fyrir stjórnarskiptin síðustu um þessi efni. Þá sögu rakti ég við umr. um þessa þáltill. fyrir ári síðan og ég þarf ekki neinu þar við að bæta og ég get vísað til þingtíðinda þar sem ég rakti á marga lund mjög ómerkilegan málflutning sem uppi var hafður um þetta efni í hita kosningabaráttu fyrir síðustu alþingiskosningar.

En ég tók eftir því við þá umr.hæstv. núv. iðnrh. taldi sig hafa lagst fast á árar innan núv. hæstv. ríkisstj. í sambandi við þessi efni og hafði uppi orð og loforð í sambandi við þessi efni sem ekki hafa gengið eftir enn sem komið er. Ég gæti fundið þessum staðhæfingum mínum stað með tilvitnun í þingtíðindi frá 19. des. 1983 þar sem ráðh. fjallaði um þessi efni í tveimur ræðum og vakti um það mjög staðfastlegar vonir að væntanlegar væru miklar úrbætur í þessum efnum og taldi nauðsynlegt að fá viðspyrnu í sérstakri löggjöf sem enn hefur ekki verið sett að frumkvæði ríkisstj. þrátt fyrir veika tilburði í þá átt með framlagningu stjfrv. í apríl s.l.

Ég vísa einnig til þess álits varðandi fjáröflun í þessum efnum, sem fulltrúar fjögurra þingflokka skiluðu inn til iðnrn. í jan. 1983, þar sem það var sammæli þeirra sem í þeirri nefnd störfuðu að eðlilegt væri að verja leiðréttingu á orkuverði til stóriðju og þeim tekjum, sem inn næðust í sambandi við það gjafverð sem var á orkusölunni til stóriðju og sérstaklega til álversins í Straumsvík, sérstaklega til lækkunar húshitunarkostnaðar. Nú ætla ég ekki að hafa mörg orð um þá leiðréttingu sem fram hefur fengist með lögfestingu á hinum mjög svo gallaða samningi ríkisstj. og Alusuisse. En þar er gert ráð fyrir, skv. áætlun hæstv. ráðh., tekjuauka til Landsvirkjunar eins og málið nú liggur fyrir, sem er áætlaður, ef é man rétt, á milli 400 og 500 millj. kr. á árinu 1985. Ég minni á þetta hér sérstaklega því að ég tel nauðsynlegt og réttmætt að því sem þarna hefur náðst fram verði með beinum og ákveðnum hætti varið til þess að leiðrétta það dæmi sem 30% landsmanna búa nú við í óbærilegum húshitunarkostnaði.

Ég ætla ekki að hafa um þessi efni hér lengra mál af minni hálfu nú þannig að hér gefist kostur á umr. Þetta mál er margrætt hér á liðnum þingum og öllum hv. þm. ætti að vera það vel kunnugt. Ég hef nefnt heitstrengingar hæstv. ráðh., sem ég hef hér fyrir mér í þingtíðindum frá því fyrir ári síðan, og ég inni hæstv. ráðh., sem hefur verið svo velviljaður að vera hér viðstaddur þessa umr. um þessa till., sérstaklega eftir hver hans áform eru nú. Má vænta þess að við afgreiðslu fyrirliggjandi fjárlagafrv. nú innan skamms fáist fram að hans frumkvæði og ríkisstj. leiðrétting á frv., áður en lögfest verður, þannig að tryggð verði lækkun húshitunarkostnaðarins, helst að því marki og ekki minna en gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi þáltill.?

Ég legg þá til, virðulegi forseti, að eftir að umræðu verður frestað um þessa till. — og e.t.v. er ráðgert að hafa tvær umr. um hana vegna fjárhagslegra skuldbindinga — verði henni vísað til hv. atvmn.