12.12.1984
Efri deild: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1862 í B-deild Alþingistíðinda. (1333)

226. mál, vélstjórnarnám

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða frv. til l. sem ríkisstj. óskar eftir að fái að fylgja frumvörpum sem nú eru til meðferðar í hv. Nd. og varða atvinuréttindi vélstjórnarmanna. Að þessu frv. hefur verið unnið á vegum menntmrn. Það verk var unnið í nefnd sem í áttu sæti þeir Stefán Ólafur Jónsson deildarstjóri í menntmrn., formaður, Andrés Guðjónsson skólastjóri Vélskóla Íslands og Helgi Laxdal vélfræðingur, formaður Vélstjórafélags Íslands.

Aðalbreytingarnar í þessu frv. eru fólgnar í því að 1. stig vélstjórnarnáms styttist um eina önn, nám til 3. stigs lengist um eina önn og nám til 4. stigs lengist um tvær annir. Námið verður áfram í fjórum stigum, eins og áður hefur verið, og hvert stig gefur tiltekin réttindi. Ástæðan til þess að námið til 4. stigs lengist um tvær annir er sú að mönnum þykir það vera öryggisatriði vegna tækniþróunar síðustu ára og þegar vaxandi kröfur eru gerðar til þeirra manna sem taka að sér stjórn stærri og fullkomnari véla en áður var og vélbúnaður skipa verður sífellt fjölbreyttari og flóknari.

Það er gert ráð fyrir í frv. að ýmsir framhaldsskólar og fjölbrautaskólar geti annast kennslu til lægri stiga vélstjóranáms, þar sem tækjabúnaður til kennslunnar þarf ekki að vera mjög dýr og kennslan ekki eins sérhæfð og verður á efri stigum námsins. Hins vegar er lagt til að Vélskóli Íslands verði eftir sem áður aðalskóli landsins á þessu sviði, hann sjái um kennslu á efri stigunum og annist endurmenntun starfandi vélstjóra.

Í frv. er mikilvægt bráðabirgðaákvæði sem gerir ráð fyrir námskeiðum fyrir menn sem hafa vélstjórnarréttindi á undanþágu, en eins og kunnugt er er þar um stóran hóp að ræða. Er gert ráð fyrir að það verði hægt að ljúka þeim námskeiðum, sem halda þarf fyrir þessa menn, á tveimur árum. Þetta atriði og eins skilyrðin sem eru í atvinnuréttindafrv. sem hæstv. samgrh. flytur í Nd., gera ráð fyrir að námið sé með þeim hætti sem í þessu frv. greinir, en sömu mennirnir og sömdu þetta frv. tóku einnig þátt í samningu þeirra frv. sem þar eru til meðferðar.

Ástæðan til þess að þetta frv. var flutt í þessari hv. deild, en ekki sömu deild og hin frv. var sú að það var ekki lagt fram alveg samtímis. Ég taldi að þannig stæði á verkum í hv. deildum að það kynni að greiða fyrir málinu að flytja það í þessari virðulegu deild. Ég vona þá að hv. Nd. eigi hægt um vik að ljúka afgreiðslu málsins þegar Ed. hefur farið höndum um það.

Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn. deildarinnar.