13.12.1984
Sameinað þing: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í B-deild Alþingistíðinda. (1405)

1. mál, fjárlög 1985

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þremur brtt. við fyrirliggjandi fjárlagafrv. og ætla fyrst og fremst að víkja að efni þeirra. Hv. 5. þm. Reykn. hefur mælt hér skörulega fyrir sjónarmiðum minni hl. fjvn. og gagnrýnt ýmsa almenna þætti sem fram koma í þessu frv. Ég hef raunar á þessu stigi engu þar við að bæta, en mun víkja hér að vissum þáttum sem brtt., sem ég er aðili að, fjalla um. Þar sem ein till. varðar sérstaklega orkumál hefði ég kosið að hæstv. iðnrh. væri hér viðstaddur til að hlýða á mál mitt. Ég hygg að hann sé í þinghúsinu og vildi biðja forseta um að gera honum viðvart ef hann gæti verið hér viðstaddur umr. um viðkomandi till. (Forseti: Iðnrh. mun vera í húsinu og ég mun gera ráðstafanir til þess að í hann verði náð.) Já, ég þakka það.

Ég mun þá fyrst víkja að brtt. á þskj. 292 sem ég er flm. að, en hún er við 4. gr. fjárlaga, liðinn Landgræðslu- og landverndaráætlun, og er um það að þar bætist við nýr liður með heitinu Fyrirhleðslur vegna hamfarahættu á Skeiðarársandi, til viðbótar framlagi allt að 50% frá Viðlagatryggingu Íslands, fjárveiting að upphæð 10 millj. kr. Hliðstæð till. var flutt á síðasta þingi við meðferð fjárlaga fyrir yfirstandandi ár. Í framhaldi af því, þar sem ekki var fallist á þá till., fluttum við þrír þm. till. til þál. um varnir vegna hættu af Skeiðarárhlaupum. Flm. með mér að þeirri till. voru alþm. Egill Jónsson og Tómas Árnason og þeirri till. var vísað til ríkisstj. af fjvn. s.l. vor fyrir þinglok, en fjvn. fékk till. til meðferðar. Afgreiðsla fjvn. var svofelld:

N. hefur fjallað um till. og samþykkt að leggja til að henni verði vísað til ríkisstj. til nánari umfjöllunar og afgreiðslu.“

Mér er kunnugt um að mál þetta mun hafa eitthvað verið rætt í ríkisstj. að frumkvæði hæstv. landbrh., en landbrn. fékk till. þessa til meðferðar. Hins vegar var enga fjárveitingu að finna í fjárlagafrv. þegar það var lagt fram og hefur landbrh. hæstv. tjáð mér að sú grg. sem hann óskaði eftir frá Vegagerðinni hefði ekki náð í tæka tíð áður en undirbúningi að fjárlagafrv. var lokið.

Ég vil í örstuttu máli gera grein fyrir þessu nauðsynjamáli sem till. fjallar um. Hún varðar brýnar endurbætur á varnarvirkjum á Skeiðarársandi, varnarvirkjum sem varða mannvirki í þjóðgarðinum í skaftafelli, sem varða verndun lands sem gróið hefur upp í skjóli þessara fyrirhleðslugarða á Skeiðarársandi, en það er verulegt svæði á sandinum fram undan jörðum í Hofshreppi þar sem ótrúlega skjótar framfarir hafa orðið í uppgræðslu með náttúrulegum hætti ef svo má segja. Væri það mikið tjón ef það land færi undir flóð Skeiðarár ef varnargarðar brystu. Þarna er sem sagt um að ræða aðgerðir til að verja þau mannvirki sem risin eru í þjóðgarðinum og land í Hofshreppi.

Í öðru lagi er um að ræða viðgerð á varnargörðum sem hafa skaddast við síðustu hlaup skeiðarár, eins og þau eru kölluð, bæði við Skeiðará sjálfa og einnig við Súlu. Og í þriðja lagi er það endurnýjun á grjóti utan á fyrirhleðslugörðum þar á Skeiðarársandi. Vegagerðin telur heildarkostnað við þessar aðgerðir vera á bilinu 20–21 millj. kr., en þess er að geta að Viðlagatrygging hefur fallist á að greiða allt að 50% á móti framlagi ríkisins vegna þessara aðgerða. Bókun af hálfu stjórnar Viðlagatryggingar liggur fyrir um þetta efni.

Ég vísa til umsagnar, sem nýlega er komin fram og liggur að ég best veit fyrir hv. fjvn., frá 7. des. s.l. varðandi þessi efni og kostnaðaráætlanir og ég treysti því að menn fallist á þá till. sem ég flyt hér um fjárveitingu í þessu skyni, svo brýnt sem málið er. Það getur verið tiltölulega skammt í næsta hlaup Skeiðarár þó að erfitt sé um það að fullyrða. Síðasta hlaup, í desember fyrir ári, kom óvænt, en oft hafa liðið 3-4 ár milli hlaupa. En nú hegða Grímsvötn sér með öðrum hætti en áður og því valt að treysta því að nokkur regla sé á þessum hamförum.

Ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum hvílíkt tjón það væri, lítt bætanlegt í rauninni, ef vatnsflaumur kæmi yfir aðstöðu Náttúruverndarráðs í þjóðgarðinum í Skaftafelli, svo og yfir það land sem hefur verið að gróa upp fram undan jörðum í Hofshreppi niðri á sandinum. Ég hvet eindregið til þess að með velvilja verði litið á þessa till. og ég vænti sem sagt að við hana fáist stuðningur. Varðandi frekari rökstuðning vísa ég til grg. og fskj. með þáltill. sem ég nefndi áðan.

Þá vil ég víkja hér að annarri brtt. sem er á þskj. 291, en þar er ég flm. ásamt Karvel Pálmasyni, hv. 3. þm. Vestf., en till. er svofelld:

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að tekjuliður fjárlaga hækki um 356 millj. kr. með því að lögð verði til þessi upphæð af hækkun raforkuverðs til stóriðju til álversins í Straumsvík skv. þeim samningi sem samþykktur var hér á Alþingi fyrir skömmu. Hæstv. iðnrh. gerði grein fyrir þeirri áætlun Landsvirkjunar að auknar tekjur vegna raforkusölu næmu milli 400 og 500 millj. kr. á árinu 1985.

Ég mun standa að flutningi till. um hugsanlega nauðsynlegar lagabreytingar til að slík tekjutilfærsla megi ná fram að ganga til þeirra nota sem gert er ráð fyrir samkvæmt till. Það er að verja til viðbótar því sem nú felst í fyrirliggjandi frv. varðandi niðurgreiðslu á rafhitun sömu upphæð, 356 millj. kr., þannig að sá liður sem bæri heitið „lækkun húshitunarkostnaðar“ næmi 556 millj. kr. samtals. Þá er til viðbótar skv. fyrirliggjandi frv. 50 millj. kr. vegna niðurgreiðslu á olíuhitun, þannig að í heild væru til ráðstöfunar í þessu skyni 606 millj. kr. Til rökstuðnings þeirri upphæð vísa ég til þáltill. sem rædd var fyrir tveimur dögum í hv. Sþ. Þar er ég flm. ásamt fleiri þm. Alþb. og þar er að finna útreikninga og rökstuðning fyrir því að þessi upphæð er hér valin og sérstaklega til hennar vísað. Þar er gert ráð fyrir því að notendur þeir, sem skipta við hitaveitur og hita hús sín með raforku, þurfi. ekki að borga að meðaltali meira en sem nemur sex vikna tekjum samkvæmt dagvinnutekjutryggingu Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, en það svarar nú til röskra 19 000 kr., en gera þarf ráð fyrir því að einher hækkun verði á raforkutöxtum, eftir því sem hæstv. iðnrh. upplýsti við þessa umr., þannig að ég hef ekki séð ástæðu til að breyta þessari viðmiðun þrátt fyrir það að hún var reiknuð út fyrir síðustu kjarasamninga.

Það ætti ekki að þurfa að rökstyðja það með mörgum orðum hvílík nauðsyn er á því að bæta úr því mikla misrétti sem þeir búa við sem þurfa að skipta við veitur sem eru með hæstar gjaldskrár. Þar er munurinn gífurlegur og varla hægt að benda á nokkurn einn þátt sem veldur jafnmiklum kjaramismun fólks hérlendis. Það mál hefur svo oft verið hér till umr., að þarflaust ætti að vera að rökstyðja það með mörgum orðum. Hæstv. ríkisstj. hafði um það góð orð í byrjun að bæta hér verulega um frá því sem áður var eða frá því sem horfði í þessum efnum. Ég gæti vitnað til margra orða núverandi hæstv. iðnrh. um það efni. Hann sagði m.a., með leyfi forseta, þann 19. des. s.l. í umr. um fjárlagafrv.:

„Þeim tölum, sem nú er að finna í fjárlagafrumvarpi til niðurgreiðslu raforku og olíu, verður ekki breytt úr því sem komið er. Á því ber ég höfuðábyrgð og síðan ríkisstj. í heild. Það er auðvitað ekki fyrir það að synja að óánægju hefur gætt í þingliði ríkisstj. með að ekki skuli hærri fjárupphæðir áformaðar til þess arna. Er slíkt eðlilegt, miðað við fyrri yfirlýsingar og kosningaloforð, þar sem menn hétu að beita sér fyrir að einu og hálfu söluskattstigi skyldi til þessa varið, en sú fjárhæð er nú talin nema 471 millj. kr.“

Þá hét hann einnig löggjöf um þessi efni og taldi hana raunar nauðsynlega til að hafa fast land undir fótum í þessu efni. Hann sagði m.a. um það, með leyfi forseta:

„Þetta frv. verður á þeim grundvelli sem orkuverðsnefnd hefur þegar lagt drög að og að langmestu leyti, að því sem mér sýnist við fyrstu kynni, fellur það að þeim skoðunum sem ég hef um hvernig að þessum málum skuli staðið. Öllu reiptogi við fjárveitingavald um framkvæmd þessara mála hverju sinni verður að linna. Menn verða að hafa hér fast undir fótum,“ sagði ráðherrann.

Og hann sagði einnig um þetta efni í umr. þá:

„Í tillögum orkuverðsnefndar eru gagngerðar tillögur sem ég, eins og ég segi, hygg að megi byggja á framtíðarstefnu okkar í þessu, sem muni koma þeim sem örðugast eiga, sérstaklega og fyrst og best þeim, til hjálpar í þessum sökum. Á því er enginn vafi. Þetta verður framkvæmt og á því munu menn taka og á því munu þeir taka á sjálfum sér, sem örðugast eiga, að þeim verður komið til hjálpar.“

Enn fleiri orð svipaðs eðlis og jafnvel sterkari er að finna í þessum yfirlýsingum hæstv. iðnrh. í sambandi við umræðu um fjárlagafrv. á síðasta þingi. Nú fór það hins vegar svo að það frv., sem hann boðaði þar að flutt yrði sem stjfrv., hefur ekki verið lögfest. Það dagaði uppi s.l. vor í iðnn. Ed. og var talið gagnslítið af n., ef ég hef skilið bókun hennar um málið rétt. Og hæstv. ráðh. hefur lýst vonbrigðum sínum um framgang þessara mála, en sagði þó í umr. hér um daginn, fyrr í vikunni, um þessi mál að hann vonaðist til þess að einhver leiðrétting fengist í þessum efnum, sagði þó að „um ýmis veigamestu atriði þessa máls hefur ekki náðst samkomulag“ og hann vitnaði til hæstv. fjmrh. í þeim efnum til að staðfesta það og hann sagðist ekki vilja staðfesta hver niðurstaða verður um fjárveitingu til þess arna. Orðrétt sagði hæstv. iðnrh.: „Það er tekist á um ýmis atriði í þessum málum, einmitt þessa dagana, og munu skýrast fljótlega og koma á daginn, t.a.m. í sambandi við þá skýru yfirlýsingu sem ég gaf af hálfu ríkisstj. um lækkun og síðan niðurfellingu verðjöfnunargjalds á raforku.“

Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég efa ekki að hæstv. iðnrh. hefði kosið að málin lægju öðruvísi fyrir en nú er. Það hefur komið fram af hans hálfu. Hann þekkir ekki síður en ég þá örðugleika sem fólk býr við á hinum svokölluðu köldu svæðum í þessum efnum. Og ég vænti þess að sá tillöguflutningur sem ég stend hér að ásamt hv. þm. Karvel Pálmasyni verði til stuðnings þeim vilja og markmiðum ráðh. sem hann svo oft hefur lýst í þessum efnum.

Ég tel að það sé fullkomlega eðlilegt að verja drjúgum hluta af þeirri tekjuaukningu sem menn telja sig eiga í vændum af hækkun raforkuverðs til stóriðju beint til þessa þáttar og vísa þar til till. sem nefnd þingflokka skilaði til iðnrn. 28. janúar 1983, en meðal tillögumanna var hv. forseti Sþ. Þorv. Garðar Kristjánsson, og þar var sérstaklega vísað til þessa úrræðis til að ná fram lækkun húshitunarkostnaðar.

Þá vil ég að lokum, herra forseti, nefna hér till. sem ég er flm. að á þskj. 297 ásamt Helga Seljan, hv. 2. þm. Austurl., og varðar heilsugæslustöð á Eskifirði. Þar er lagt til að framlag til heilsugæslustöðva hækki sem svarar 1 millj. vegna heilsugæslustöðvarinnar, H-2 stöðvar, á Eskifirði, þannig að unnt verði að ráða annan lækni til þessarar stöðvar í samræmi við lög frá árinu 1983. Nú er þarna aðeins einn læknir, en vilyrði hafa verið gefin um að annar læknir yrði ráðinn og ætti raunar þegar að vera kominn til starfa. Til þess að leitast við að tryggja að svo verði gert í byrjun næsta árs flytjum við hv. þm. Helgi Seljan þessa brtt. við fjárlagafrv.

Alþb.-menn standa að öðrum brtt. hér sem mælt verður fyrir síðar í þessari umr. og sem ég að sjálfsögðu tek undir. Þar er m.a. um að ræða till. um hækkun til ýmissa framkvæmdaþátta, m.a. í samgöngumálum og í skólabyggingum og gerðar till. um tekjuöflun á móti.

Í sambandi við flugvallarframkvæmdir vil ég sérstaklega benda hér á flugvöllinn á Egilsstöðum, sem ég held að að flestra mati sé sú framkvæmd sem hvað brýnast er að ráðist verði í fyrr en seinna, varðandi hina stærri flugvelli hér innanlands, og við höfum það auðvitað í huga m.a. þegar við erum að leggja til hækkun á framlögum til þessa þýðingarmikla þáttar, flugmálanna hér innanlands.

Herra forseti. Ég læt málið mínu lokið.