14.12.1984
Efri deild: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1997 í B-deild Alþingistíðinda. (1432)

233. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég skil það vel að hv. 3. þm. Norðurl. v. finni enn til með ríkissjóði þegar um það er fjallað að auknar verði skuldbindingar hans. Hann var lengi í þeim stellingum að verjast þar eftir mætti. (RA: Þurfa ekki allir að gera það?) Þess þurfa allir auðvitað, en menn verða nú að gæta að því að Rafmagnsveitur ríkisins og reyndar Orkubú Vestfjarða líka eru ekkert óskyld fyrirtæki ríkissjóði vegna þess að þetta er nú einn angi af þeim sjóði og skuldir Rafmagnsveitna ríkisins eru allar saman skuldir ríkissjóðs, ríkisins sjálfs.

Það er eins og verða vill að enginn getur sagt fyrir um það hverjir ráði ríkjum að ári, enginn veit hvar við dönsum næstu jól, en ég minni á að það hefur verið gengið úr skugga um að mikill meiri hl. hv. þm. er andstæður þessu gjaldi. Það kom í ljós við afgreiðslu þessa gjalds á sama tíma í fyrra. Þá mótmæltu menn aðferðinni og voru ekki, t.a.m. mínir flokksmenn, reiðubúnir til þess að afgreiða þetta mál nema gegn yfirlýsingu ríkisstj. um að gjaldið yrði lækkað í áföngum og afnumið. En að sjálfsögðu kom ekki annað til greina en að ábyrgjast að í sama máta yrði séð fyrir fjárhag fyrirtækjanna sem þessa gjalds höfðu notið. Ég á því ekki von á þeirri stórbyltingu í skipan hins háa Alþingis að ekki eigi að vera nokkuð öruggt að breyting í þessu efni, niðurfelling verðjöfnunargjaldsins af raforkusölu, muni njóta mikils meirihlutafylgis, jafnvel þótt nýir menn sitji á stjórnarstólum.

Ástæðan fyrir því að þessum málum var ekki ráðið til lykta var tímaskortur fyrst og fremst. Það má lesa í fskj. tillögur hinnar stjórnskipuðu nefndar. Ég að vísu gerði mér ekki svo glæstar vonir um framgang málsins eins og þar má lesa. Ég var með upphaflegar hugmyndir um að upphaflegi áfanginn yrði þessi, sem hér er lagt til, úr 19 í 16, og ég mun vinna að því að frá því ári sem nú byrjar rétt bráðum muni það afnumið í fjórum áföngum, 4% á ári.

Það er ljóst að mönnum gafst ekki ráðrúm til þess að ráða þessum málum til lykta og þá sérstaklega vegna þess með hvaða hætti yfirtakan á lánum og önnur fjármálaleg fyrirgreiðsla við fyrirtækin færi fram. En fyrir næsta ári er séð, 1985. Þar hefur þegar verið skuldbreytt stóru láni sem þessi fyrirtæki hafa notið góðs af og nokkurn veginn nákvæmlega sama tala sem til þess friðar heyrir. Þannig að fyrir því er séð að sá tekjumissir sem þau verða fyrir verður bættur upp með þeim hætti. En að öðru leyti verður hafist handa við þetta verkefni þegar á nýju ári.

Ég minni líka á að menn hafa verið svo óánægðir með eðli þessa skatts sem er ákaflega ósanngjarn, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. sjálfur benti á, að þeir sem hæsta orkuverðið borga borga að sjálfsögðu hæst þetta gjald. En ég minni á að þetta átti svo mikla andstöðu að ríkisstj. fram af ríkisstj. treysti sér aldrei til þess nema ár í senn að fara fram á að framlengja þetta gjald og alltaf voru gefnar meira og minna bindandi yfirlýsingar um að þetta skyldi tekið til endurskoðunar áður en til þess drægi að menn þyrftu að framlengja það á nýjan leik. Á þetta minni ég. Og ég vil ekki fullyrða það, en það er eins og mig rámi í það að það hafi verið mjög haft á orði af a.m.k. að ég ekki segi tveimur, þremur síðustu ríkisstj. á undan þessari að finna aðra leið í þessu efni. Ég vil þó ekki fullyrða hvernig orð lágu til þess af hálfu forustumanna ríkisstj. næst á undan þessari sem nú situr. En umr. fór alltaf allmikil fram um þetta. Alltaf var þetta á síðustu stundu, framlengingin, fyrir jólahlé af því sem menn drógu það við sig í lengstu lög að bera þetta óbreytt fram. En ég mun vinna eftir þeim línum sem lagðar hafa verið af hinni stjórnskipuðu nefnd að breyttu breytanda eftir því sem samkomulag næst best um, en mun ekki sætta mig við lengri tíma í afnámi gjaldsins en fjögur ár eftir að því lýkur sem nú verður tekin ákvörðun um gjaldið, 1985, þ.e. í árslok 1989.