17.10.1984
Efri deild: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

61. mál, átak í dagvistunarmálum

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Það vakir áreiðanlega fyrir flm. þessa frv. að gera hér mikla bót á í dagvistunarmálum barna. Nú í okkar nútíma- og nýtískuþjóðfélagi fer það ekki á milli mála að gera þarf ýmsa hluti til batnaðar og breytinga frá því sem er í dag. Við þessa umr. ætla ég ekki að orðlengja um þessi mál. En að fenginni reynslu úr sveitarstjórn veit ég að öll stærri sveitarfélögin a.m.k. hafa lagt á það mjög ríka áherslu að geta haft þessi mál í sem bestu lagi. Ef ég man rétt er greiðsla frá ríkinu 50% af byggingarkostnaði og viðkomandi sveitarfélag greiðir önnur 50. Auðvitað er sótt á þennan ríkishluta og það alltaf mjög fast í öllum fjárveitingabeiðnum, en samt er það reynslan hjá flestum þessara sveitarfélaga að þau hafa sjálf lagt út og verið á undan ríkinu í þessum framkvæmdum.

En óvíða er nóg að gert til að fullnægja þeirri eftirspurn sem er. Ég tek undir það með þeim sem hér hafa talað að gera þarf verulega breytingu, bæði á leikskólaforminu og dagvistunarforminu, í sambandi við byggingarnar. Það hefur orðið að hlíta því að fara eftir stöðluðum teikningum frá ríkinu þar sem heimamenn hefðu í mörgum tilvikum kannske getað gert miklu betur og ódýrar en þar er lagt til. Það er þessi liður sem ég vildi undirstrika. Einmitt mál eins og dagvistunarmálin eiga að mínu áliti að færast mun meira í viðkomandi sveitarfélög í stað þess að vera á vegum ríkisins. Það er með það eins og annað að þar sjá þeir best til sem gerst þekkja.

Ég veit það einnig að þetta er gagnrýnt af fólki sem vinnur við þessar stofnanir, þetta er ekki eins og það vill hafa það. Við erum þarna að láta miðstýringuna fara langt yfir það mark sem henni var ætlað í byrjun. Þar sem þetta er einmitt vettvangur fyrir slíka rannsókn og uppbyggingu á slíkri aðstöðu á hún að vera sem mest gerð í samræmi við aðstæður á hverjum stað.

Varðandi skóladagheimilin, sem ég tel vera mjög nauðsynleg að vissu marki, er ýmislegt sem þarf að taka til greina. Það þarf ekki alltaf þessar sífelldu dýru, miklu byggingar. Þetta geta verið einfaldar byggingar en mjög aðlaðandi. Þetta hendir okkur á fleiri sviðum. Hjá okkur á Akranesi er t.d nýlega búið að vígja heimili fyrir þroskahefta. Þetta er ákaflega glæsilegt hús, ég hef enn á tilfinningunni að það blessaða fólk sem þar dvelur hefði viljað hafa þetta á einfaldari máta en þarna er gert, hafa þetta heldur heimilislegra og án íburðar. Þarna erum við á hættulegri braut. Þess vegna tek ég undir það að við gerum hlutina ekki endilega of kostnaðarsama, heldur eigum við að taka mannlega þáttinn þarna inn í til að þetta verði gert ódýrara og manneskjulegra fyrir alla aðila heldur en algengt er í dag.

Í öðru lagi tek ég undir með þeim sem vara við því að marka tekjustofna í fjárlögum okkar eins og hér er lagt til. Það hefur reynst okkur illa og það hefur reynst víðast hvar illa þar sem það er gert. Það er meira og minna um það að slíkar samþykktir gangi til baka, hver svo sem situr í valdastól á hverjum tíma. Þetta er staðreynd sem blasir við. Núna er ástandið í okkar efnahagsmálum t.d ekki of gott. Hér er lagt til að 0.8% af A-hluta fjárlaganna, sem eru þá, að ég hygg, 170–180 millj., yrði varið í þennan lið á því ári sem þessi lög tækju gildi. Það er veruleg hækkun frá þeim 30 milljónum sem eru sjálfsagt eins og víða í þessu fjárlagafrv. allt of litið til þessarar starfsemi núna. En á þetta vil ég benda að ég mæli ekki með því að bundin verði föst prósentutala til að taka í þennan afmarkaða stofn til þessara framkvæmda.

Við getum sjálfsagt öll harmað það að ekki var staðið við þá samninga sem gerðir voru á sínum tíma um það að taka ákveðinn hluta af fjárlögum. Það er einmitt dæmi um þessi 0.8% að ekki var staðið við þetta sem gert var í samningunum á sínum tíma eins og frsm. kom réttilega inn á. Það hefur skv. hennar útreikningum og upplýsingum farið mjög til baka.

Alltaf er maður náttúrlega viðkvæmur fyrir hlutunum. Hv. 2. þm. Austurl. sagði að allt væri skorið niður í svokölluðum velferðarmálum þjóðfélagsins, eða orðaði það í þeim dúr ef ég skildi hann rétt. Þetta má vel rétt vera þetta er gert á öllum sviðum og ég dreg ekki úr því. En ég sé ekki af greinargerðinni að það hafi verið nein sérstök reisn yfir þessum málum 1981–1984: 11 millj. 1981, 15 millj. 1982, 27 millj. 1983 og 31.6 millj. 1984. Ég held að við ættum að dæma varlega um þau mál nú þrátt fyrir breytta valdastöðu.

Að lokum vil ég taka undir með hv. þm. Eiði Guðnasyni um það að kannaðir verði möguleikar á því að greiða þeim foreldrum sem þess óska og telja sér fært að dvelja heima með sínum börnum fyrir það a.m.k. að hluta til það sem ríki og sveitarfélag þarf í þessum tilvikum að greiða til þessara stofnana í viðkomandi bæjarfélagi. Ef ég man rétt liggur þessi tala nokkurn veginn þannig að neytendur eða foreldrar greiða í kringum 40% af rekstrarkostnaði viðkomandi stofnunar en sveitarfélagið 60%. Þetta liggur á milli þessara talna eftir því sem ég hef séð. Konur, sem eru með fjögur, fimm börn og geta alls ekki komið þeim fyrir á dagheimilum þó þær vildu — það væri svo dýrt að þær gætu það ekki - en eru neyddar til að vera heima — ég segi neyddar þó það sé afstætt orð - til að gæta sinna barna og ala þau upp, þær fá ekkert fyrir þetta úr sameiginlega sjóðnum sem heitir sveitarsjóður. Ég vildi að við gætum sameinast um að leiðrétta þessa meðferð og þessa aðferð og gefa fólki kost á því að geta dvalist heima með sínum börnum, ef það sér sér fært, og greiða því fyrir það, í staðinn fyrir að greiða það til reksturs viðkomandi stofnana.