14.12.1984
Neðri deild: 25. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2011 í B-deild Alþingistíðinda. (1444)

187. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég hef ekki mikinn áhuga á því að tala lengi yfir auðum stólum og því skal ég ekki flytja hér langa eða mikla ræðu, en ég tel þó óhjákvæmilegt að við þetta tækifæri standi ég upp og tjái mig með örfáum orðum um þetta frv.

Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir framlagningu þess og hæstv. ríkisstj. fyrir þá stefnu sem mörkuð er með flutningi þess frv., þ.e. um skipulagða áfanga að því að fella niður tekjuskatt af almennum launatekjum. Ég fer hins vegar ekki dult með þá skoðun mína að hér sé allt of skammt gengið og að stjórnvöld hefðu átt að grípa miklu rösklegar til aðgerða á þessum vettvangi og taka miklu fastari tökum á því mikla óréttlæti og þeirri mismunun sem ríkir í þjóðfélaginu á þessu sviði, þ.e. í greiðslu skatta. Ég held þess vegna að þetta frv. sé meira táknrænt, það sé fyrsta sporið og fyrsti áfanginn í þeirri stefnu að fella niður tekjuskatt af almennum launatekjum, heldur en hitt að það leiðrétti þær misfellur sem nú eru uppi. Sannleikurinn er sá að í skjóli tekjuskattslaganna þrífst sennilega mesta ranglætið, mesta misréttið sem fyrir hendi er í þjóðfélaginu í dag. Tekjuskattslögin eru skálkaskjól ójafnaðarins og þar af leiðandi fullkomin afskræming á hinum upphaflega tilgangi tekjuskattsins sem slíks.

Tilgangur tekjuskatts er í aðalatriðum tvíþættur. Annars vegar er um það að ræða að afla tekna fyrir ríkissjóð til samneyslunnar og hins vegar er um það að ræða að jafna tekjum á milli þjóðfélagsþegna. Það er athyglisvert varðandi tekjuöflunina að hlutur tekjuskatta, sérstaklega tekjuskatta einstaklinga, fer sífellt minnkandi í tekjuöflun ríkissjóðs. Í því frv. til fjárlaga sem nú liggur fyrir kemur fram að gert er ráð fyrir því að tekjuskattar einstaklinga nettó nemi 1.5 milljarði kr., sem er vel innan við 10% af áætlaðri útgjaldaþörf ríkissjóðs, þannig að ljóst er að þessu leyti, þ.e. varðandi tekjuöflun til ríkissjóðs, að tekjuskatturinn gegnir sífellt veigaminna hlutverki.

Ef litið er á tekjujöfnunarhlutverk tekjuskattsins held ég að það blasi við öllum að einmitt í skjóli tekjuskattslaganna þrífst hér meiri ójöfnuður en dæmi eru til um áður. Það er kannske erfitt að henda reiður á því í tölum, en það blasir við öllum og er opinbert leyndarmál að hér er ekki aðeins svikið undan sköttum og skattalögin brotin, heldur er farið fram hjá þeim af fullkomnu samviskuleysi. Nú er ég ekki að dæma þjóðina alla sem misindismenn á þessum vettvangi. Ég er hins vegar að nefna þetta til að vekja athygli á þeirri staðreynd að tekjuskatturinn er annaðhvort orðinn svo hár að ekki er við unað eða að hann þykir stríða svo gegn hagsmunum fjöldans að fólk skirrist ekki við að brjóta eða beygja þessi lagaákvæði sem gilda um framtöl og skattgreiðslur. Raunin hefur því orðið sú að tekjuskatturinn er fyrst og fremst launamannaskattur og mig furðar að verkalýðshreyfingin og þau stjórnmálaöfl sem í orði kveðnu eru sífellt að berjast fyrir hagsmunum hins vinnandi fólks skuli ekki leggja miklu meiri áherslu, höfuðáherslu á það einmitt að uppræta það misrétti sem ríkir og uppræta þær skattaálögur sem fyrst og fremst lenda á launafólkinu. Þetta hefur gert það að verkum að á Íslandi hafa nú skapast tvær þjóðir, eins og réttilega hefur verið bent á oft á undanförnum mánuðum, önnur sem greiðir skatt, hin sem sleppur við að greiða skatt.

Vera má að mögulegt sé að herða skattaeftirlit og ná til þeirra sem ekki greiða skatt eða greiða óeðlilega skatta í dag, en ég held þó að það sé gífurlega mikið verk, kosti mikla fjármuni og sé borin von að það beri tilætlaðan árangur. Ég vek athygli á því líka að í þessu sambandi er ekki alltaf hægt að benda á að menn beinlínis svíki undan skatti. Það var rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. nefndi fyrr í þessari umr., að í skjóli fyrirtækjareksturs hafa menn oft möguleika til þess að telja fram útgjöld á kostnað fyrirtækisins sem þeir sjálfir eru kannske að leggja til, þannig að þeir sleppa við að greiða skatta af þeim hlunnindum og þeirri fyrirgreiðslu sem þeir fá í gegnum fyrirtæki eða stofnanir sem þeir vinna hjá. Og þarna er ekki hægt að festa hendur á beinum skattsvikum. Þar er um að ræða ýmiss konar krókaleiðir fram hjá lögunum og yrði gífurlega mikið verk ef skattyfirvöld ættu að fara að eltast við öll slík undanbrögð.

Hv. 3. þm. Reykv. hefur tekið undir það að tekjuskattinn þurfi ef ekki að afnema þá að lækka, en hann leggur á það áherslu að í staðinn verði tekinn upp eignarskattur. Ég hef allan fyrirvara á að sú leið sé skynsamleg. Ég vek athygli á því að eignir manna hafa verið margskattaðar. Fyrst hafa tekjurnar verið skattlagðar og það sem eftir er hefur þá verið notað til að koma sér upp eignum. Þess vegna er ósanngjarnt að taka aftur skatt af þeim verðmætum sem menn hafa eignast eftir tekjuskattsgreiðslur af hreinum og óumdeilanlegum tekjum þeirra. Ég vek líka athyli á því að menn borga ekki aðeins tekjuskatt af almennum tekjum, þeir borga líka útsvör og þegar þeir koma sér upp eignum borga þeir að sjálfsögðu söluskatt og alls kyns óbeina skatta af því að koma sér upp þessum eignum og þeir borga fasteignagjöld og svo mætti áfram lengi telja.

Ég hef þess vegna margoft lýst því sem minni skoðun að ég teldi það ekki óeðlilegt, ef tekjuskatturinn yrði afnuminn, að teknir yrðu upp neysluskattar í hans stað. Flatur skattur, almennur skattur, kæmi og til greina, þannig að þeir sem væru ekki færir um að greiða skatta gætu þá sótt um undanþágur frá þessum flata skatti, en allur obbinn af fólki mundi þá greiða hann.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja ræðu mína öllu frekar. Ég stóð aðeins upp til að láta í ljós þessar skoðanir mínar. Ég tel sem sagt að þetta frv. sé spor í rétta átt, en tel að það gangi allt of skammt. Ég er þeirrar skoðunar að tekjuskatturinn eins og hann viðgengst á Íslandi sé algjörlega óviðunandi. Í skjóli tekjuskattslaganna þrífst ranglæti og misrétti sem ekki verður við unað öllu lengur. Ég skora á Alþingi og hv. stjórnvöld að berjast með oddi og egg fyrir því að þessu allsherjar spillingarkerfi verði breytt þannig að sæmilegur friður ríki um skattgreiðslur þegnanna í framtíðinni.