17.10.1984
Efri deild: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

61. mál, átak í dagvistunarmálum

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hér hafa talað og sem hafa tekið vel undir það mál sem hér er fram lagt.

Ýmsar aths. hafa komið fram og ef ég vík fyrst að síðasta atriði í ræðu hv. síðasta ræðumanns, Valdimars Indriðasonar, þá get ég heils hugar tekið undir að fyllsta ástæða er til að athuga hvort finna megi einhverjar aðrar leiðir en eingöngu byggingu dagvistunarstofnana til að mæta þeirri þörf sem í dag er á fóstrun barna.

Ég vil hins vegar mótmæla þeim málflutningi sem hv. þm. Eiður Guðnason hafði uppi um þetta mál. (Gripið fram í.) Hv. þm. mæltist á þann veg að vegna þess að aðrir möguleikar væru ekki ræddir núna þá teldi flm. þá ekki koma til greina. Ég vil minna hv. þm. á að við tökum eitt mál í einu fyrir hér í hv. deild. Þó að við séum hér að ræða byggingu dagvistarheimila þá útilokar það ekki aðra möguleika í þessu máli eins og mátti skilja af orðum hv. þm.

Menn hafa dregið mjög í efa réttmæti þess að binda með lögum ákveðna upphæð á fjárlögum til þessara mála og bent réttilega á að það tryggir ekki svo óyggjandi sé að því fé sem frv. kveður á um verði varið til uppbyggingar dagvistarheimila. Þetta er mér fullkomlega ljóst. Fjárveitingar til hinna ýmsu málaflokka eru endanlega ákveðnar á fjárlögum og því miður hefur sá slæmi siður viðgengist hér í þinginu að fjárveitingar eru skertar þrátt fyrir ákvæði gildandi laga. Þetta á við um fjöldamörg mál, eins og þm. hafa komið hér inn á, þannig að með þessu frv. gefst engin trygging. En ef menn vilja ekki fara þessa leið vil ég spyrja þá hv. þdm. sem hér hafa talað og mælt á móti henni: Hvaða aðra leið vilja menn fara til að tryggja fé til þessara mála? Hvaða önnur leið er möguleg fyrir Alþingi til að reyna að tryggja með einhverjum hætti að fé verði veitt til dagvistarmála barna og unglinga? Þær tillögur vildi ég gjarnan fá að heyra.

Hv. þm. Björn Dagbjartsson hefur greinilega ekki heyrt mál mitt mjög vel áðan. Ég talaði einmitt um að mér þætti mjög ákjósanlegt að börn hefðu greiðan aðgang að foreldrum sínum jafnt sem dagvistarþjónustu. Ég hef ekki með einu einasta orði vikið að því að börn ættu endilega eða nauðsynlega að vera á dagvistarheimilum. Ég sagði að dagvistarþjónusta væri nauðsynleg í dag miðað við þær vinnuaðstæður sem foreldrum er boðið upp á og hún er líka nauðsynleg fyrir börnin, svo að þau hafi einhvern tíma dagsins tök á að vera innan um jafnaldra sína í leik og starfi. Hv. þm. taldi að það væri engin þörf á því fyrr en börn væru orðin sex ára, að þau gætu hvort sem er fundið sér jafnaldra úti á götu fram að þeim aldri. Ég mundi aldrei nokkurn tíma senda yngra en sex ára barn út á götu í Reykjavík, hv. þm., þannig að þetta er gersamlega óraunhæft.

Þm. sagði líka miður fagra sögu af dagvistarheimili í Kúlá, ef ég man rétt, og vildi e.t.v. ýja að því að ég væri að leggja til að þannig skipulag væri tekið upp hér á landi. Ef þm. heyrði ræðu mína áðan veit hann mætavel að það hef ég ekki gert og dettur ekki í hug.

Hv. þm. Salome Þorkelsdóttir og hv. þm. Eiður Guðnason töldu það ofsagt að íslenskt samfélag gerði ekki ráð fyrir börnum. Hv. þm. Salome Þorkelsdóttir minntist á heilsugæslu í því sambandi og vil ég síður en svo gera lítið úr þeim hlutum. Það sem ég á við þegar ég segi að íslenskt samfélag sé ekki skipulagt og ekki rekið með tilliti til barna er það, að á flestum heimilum, þar sem báðir foreldrar vinna úti af nauðsyn, er afskaplega erfitt að finna bæði tíma og pláss fyrir börnin. Það eru þessi mál sem oft eru álitin einkamál hverrar fjölskyldu, það hvað er gert við börnin á meðan öðrum störfum er sinnt. Ég tel hins vegar að þetta eigi ekki að vera einkamál. Ég tel að samfélagið eigi að taka það með í reikninginn að foreldrar þurfa svo og svo langan tíma á dag til að vera með börnum sínum. Börnin þurfa það, foreldrarnir þurfa það. Það er það sem ég á við þegar ég segi að við tökum börnin ekki með í reikninginn við rekstur þessa þjóðfélags. Við verðum að gera það. Það ófremdarástand, sem hér hefur ríkt í þessum efnum, má ekki vara lengur. Það held ég að við öll hér í þessari hv. deild getum verið sammála um.

Hv. þm. Salome Þorkelsdóttir benti á að vegamál væru öryggismál og líka öryggismál fyrir börn og svo sannarlega tek ég undir það. Ég var nú ekki að leggja til að Vegagerðin yrði lögð niður þ6 að einhverjar milljónir væru teknar af þeim 1 milljarði 383 millj. sem fer til hennar í ár.

Hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir benti á að skattalækkanir til bankanna hefðu numið 100 millj. í ár. Mér finnst prýðishugmynd að verja þeim 100 millj. til uppbyggingar dagvistarstofnana. Þá gætum við kannske sótt þær 47 sem eftir eru til Vegagerðarinnar. (Gripið fram í.) 17, það er rétt. Það eru 30 fyrir í fjárlagafrv. Yfir þessu getum við lengi velt vöngum, hvað við viljum láta bíða og hverju við viljum veita forgang.

Hv. þm. Árni Johnsen sagði eitthvað á þá leið að prósentuuppbygging leiddi til óþarflegrar miðstýringar á uppeldi barna. Ég fæ þetta ekki til að ganga upp og því síður það sem þm. virtist fá út úr grg. frv. þar sem fjárhæð til dagvistarstofnana er miðuð við byggingarvísitölu. Þetta er einföld viðmiðun eins og algeng er í lögum og sú byggingarvísitala hefur út af fyrir sig ekkert með byggingarstaðal barnaheimila að gera. En með því að bera þetta tvennt saman fékk þm. þá niðurstöðu að talan í frv. væri of há. Ég verð að viðurkenna að ég fæ þetta ekki heldur til að ganga upp.

Það var eitt enn. Þm. töluðu um að enginn vissi hver þörfin væri fyrir dagvistarþjónustu barna og það er út af fyrir sig rétt. Það er ekki vitað nákvæmlega hver þörfin er. Við höfum hérna í höndunum 10 ára áætlun um byggingu dagvistarheimila sem nefndin, sem ég gat um í upphafi máls míns áðan, vann. Þetta er vel unnið plagg og ég held að okkur sé óhætt að byggja á því og taka niðurstöður nefndarinnar sem lágmark þeirrar þarfar sem fyrir hendi er. Ég er viss um að þörfin er miklu meiri. Miðað við þessa áætlun er sú upphæð, sem gert er ráð fyrir í frv., engin ofrausn. Ef við ættum bara að fara eftir þeirri þörf sem er skilgreind hér þyrftum við meira en frv. gerir ráð fyrir.

Ég vil að lokum þakka öllum þeim hv. þm., sem hafa tekið vel í þessi mál og eru tilbúnir til að huga að því að veita þessum málum einhvern forgang, og hef þessi orð ekki fleiri í bili.