17.12.1984
Efri deild: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2043 í B-deild Alþingistíðinda. (1465)

148. mál, fæðingarorlof

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Ég hygg að það hafi komið fram í máli mínu áðan og ég vil undirstrika það enn frekar nú að ég veit vel að aðalbreytingin verður vissulega að gerast úti á hinum almenna launamarkaði. Þar verður launajöfnunin að koma til og áunnin réttindi svo að fylgja í kjölfarið. Það geri ég mér alveg fullkomlega ljóst og það er meginmálið.

Spurningin er svo um það hvers eðlis fæðingarorlofið er í sjálfu sér. Er það aðeins hlé frá vinnu eða er það spurning um ákveðna tryggingu, ákveðið tryggingamál? Ég lít svo á að þetta mál snerti hvort tveggja. Þetta er ákveðið tryggingamál. Þar með komum við inn á eitthvað sem heitir jafnar greiðslur. Ég minni á það sem sú kona, sem hafði helst orð fyrir þeim á Eskifirði, sagði, að ef slíkt fyrirkomulag á að halda áfram um að fullum launum sé haldið, þá er verið að viðhalda forréttindum þess sem hæst hefur launin, eins og hún orðaði það, og verið að refsa hinum. Það er málið, sagði hún. Ég tek það bara nákvæmlega eins og hún sagði það. Þar af leiðandi gætu það ekki verið fullgild rök í þessu máli út frá því sjónarmiði hennar að hér væri um samfélagslegt tryggingamál að ræða framar spurningunni um hinar almennu launatekjur.

En hún tók líka fram mjög skýrt — til þess að það misskiljist ekkert enda hefur hún verið í þeirri baráttu sjálf — að á hinum almenna launamarkaði þyrfti að vinna betur að jöfnun kjara, alveg sérstaklega að hækka konur í launum til þess að þessi mismunur yrði ekki slíkur sem hann er óneitanlega í dag. Kannske ekki í mörgum tilfellum en býsna mörgum þó. Sem betur fer er nokkur hluti kvenna vel launaður og vonandi fer sá hópur mjög vaxandi um leið.