17.12.1984
Efri deild: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2051 í B-deild Alþingistíðinda. (1483)

233. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Þetta frv. um verðjöfnunargjald af raforkusölu virðist vera og er veigamikill lagabálkur upp á einar 13 greinar, enda lofaði hæstv. iðnrh. því hér á Alþingi fyrir ári að hann mundi láta vinna nýtt frv. með breyttum áherslum í sambandi við stuðning við almenningsorkuveitur og sá árlegi viðburður mundi varla endurtaka sig að verðjöfnunargjald yrði framlagt enn einu sinni á óbreyttum grundvelli.

Á undanförnum árum hefur efni frv. um framlengingu verðjöfnunargjalds verið breyting á einu ártali í gildandi lögum. Í stað yfirstandandi árs hefur í lögin verið sett komandi ár. Þegar frv. það sem hér er til umr. er skoðað og borið saman við gildandi lög kemur í ljós að lítið meira er verið að gera nú en áður. Hér er hin árlega framlenging verðjöfnunargjalds af raforkusölu enn einu sinni á ferðinni, en í stað þess að bera fram frv. um breytingu á einni grein laganna er lagabálkurinn allur prentaður upp og kemur hér fram í frv.-formi.

Frv. fylgir allmikil grg. og fskj. Þegar þetta lesefni er skoðað kemur í ljós að þar er að finna alvörufrv. um hvernig hætta skuli álagningu þessa gjalds og hvaða ráðstafanir á að gera til að niðurfelling verðjöfnunargjaldsins sé möguleg. Það kemur sem sagt í ljós að alvörufrv. er bara fskj. við endurprentaðan lagabálk sem kallaður er frumvarp til laga.

Meðan aðrar leiðir eru ekki valdar til að tryggja fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða er ég samþykkur framlengingu verðjöfnunargjaldsins þó að mér finnist að það hefði mátt gera með frv. í færri greinum en þetta.

Verðjöfnunargjaldið hefur sína galla, sem margoft hafa verið upp taldir, og þar sýnist sitt hverjum. Kostir verðjöfnunargjaldsins eru þeir að með því hefur verið hægt að jafna orkukostnaðinum í landinu nokkuð. Á síðustu árum hefur t.d. verið hægt að halda verði orku frá Rafmagnsveitum ríkisins innan við 25% verðmun miðað við Rafmagnsveitu Reykjavíkur, en eins og kunnugt er var sá verðmunur um 90% 1978.

Hvað er þá í frv. sem hér er til umr.? Í fyrsta lagi framlenging verðjöfnunargjaldsins á raforkusölu árið 1985 og í öðru lagi lækkun á þessu gjaldi úr 19%, sem það var í ár, í 16% sem það skal vera á næsta ári, 1985. Aðalbreytingin felst í lækkun gjaldsins úr 19% í 16%. Maður skyldi halda að allir fögnuðu því. Lækkar ekki orkuverð um það sem þessu nemur hjá öllum orkukaupendum? Svarið við þessari spurningu er nei. Það lækkar ekki hjá þeim aðilum sem nutu þess, þ.e. hjá Orkubúi Vestfjarða og Rafmagnsveitum ríkisins, nema eitthvað komi í staðinn fyrir þann tekjumissi sem felst í lækkun verðjöfnunargjaldsins fyrir þessar veitur. Skv. frv. er ekki séð fyrir nýjum tekjum, en skv. aths. við frv. á að bæta tekjumissi RARIK og Orkubúsins með skuldbreytingum áhvílandi lána hjá fyrirtækjunum, þ.e. fresta greiðslu afborgana, en ekki yfirtaka lán né heldur bæta stöðu þeirra á annan máta, t.d. með nýjum tekjustofnum eða beinum ríkisframlögum.

Hér er farið inn á mjög vafasama braut. Skuldbreytingin breytir engu öðru en greiðslustöðu fyrirtækisins ákveðinn tíma. Í þessu tilfelli léttir hún greiðslustöðu næsta árs, en þyngir greiðslustöðuna síðar. Þar ofan í kaupið upplýsti rafmagnsveitustjóri, Kristján Jónsson, okkur um það á fundi iðnn. að skuldbreytingin bætti stöðu RARIK næsta ár um 47 millj. kr., en tekjumissirinn við lækkun verðjöfnunargjaldsins væri áætlaður um 59 millj. kr. Þarna vantar því upp á 12 millj. til þess að hlutur RARIK skerðist ekki beint. Ég hef því fullan fyrirvara á þessari útfærslu á jöfnun á stöðu RARIK og Orkubúsins og tel að í stað skuldbreytingar á lánum hefði ríkissjóður átt að yfirtaka lán fyrirtækjanna eða leggja þeim til fé eða þá að skapa hefði átt nýjan tekjustofn. Skuldbreytingin bætir ekki stöðu fyrirtækjanna. Hér er aðeins um frestun á vandamáli að ræða. Með því er verið að efna í hækkun orkuverðsins síðar.

Í nál. sem fylgir frv. er sagt, með leyfi hæstv. forseta: „Nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegt sé að bera saman verð fyrirtækjanna tveggja annars vegar og verð 15 rafveitna sveitarfélaga hins vegar, þannig að rafveitur höfuðborgarsvæðisins og Rafveita Akureyrar, Rafveita Akraness og Rafveita Siglufjarðar séu undanskildar.

Þessi samanburður er sýndur á fskj. 3c. Með hliðsjón af þeim samanburði telur nefndin eðlilegt að öflun eigin tekna af orkusölu hinna tveggja fyrirtækja verði á þessu stigi a.m.k. aukin sem svarar hækkun meðalverðs (án sölu til rafhitunar) í því sem næst vegið meðaltal orkuverðs hinna 15 veitna. Hjá Rafmagnsveitum ríkisins jafngildir þetta tekjuaukningu um 35.4 millj. kr. og hjá Orkubúi Vestfjarða um 2.8 millj. kr.“

Hér er raunverulega verið að segja að það skuli hækka orkuverð frá RARIK og Orkubúinu til að jafna þessa stöðu. Á fundi í iðnn. upplýsti rafmagnsveitustjóri að hér þyrfti að ná um 7% hækkun til að ná jöfnuði við aðrar veitur á landsbyggðinni sem sumar eru með hærra verð en RARIK. Hér er því verið að búa til nýja viðmiðun. Áður var miðað við að halda orkuverði innan við 25% mismun á við Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Nú er farið út í jöfnunarviðmiðun á landsbyggðinni sem í sjálfu sér er réttlát ef ekki er um leið horfið frá fyrri viðmiðun, þ.e. við Rafmagnsveitu Reykjavíkur.

Þá ber einnig að undirstrika að markmiðið var og er vonandi enn að minnka mismun á orkuverði hjá landsbyggðinni og á Reykjavíkursvæðinu. Heyrst hefur að Landsvirkjun muni hækka sinn heildsölukostnað nú um 14% til viðbótar við þá 5% hækkun sem varð í vor. Rafmagnsveitustjóri upplýsti í iðnn. að RARIK hefði gert áætlun um hve mikla hækkun þyrfti nú að gera á orkuverði RARIK til að mæta þessari hækkun Landsvirkjunar svo og til að mæta gengisfellingu og verðlagsþróun. Rafmagnsveitustjóri nefndi að hækkun RARIK þyrfti að vera 17% á hitatöxtum og 22% á öðrum töxtum veitnanna. Í þessum hækkunum væri þó innifalin sú jöfnunarhækkun sem ég nefndi áður, þ.e. sú 7% hækkun sem rafmagnsveitustjóri gat um og kemur fram í nál. að þyrfti að eiga sér stað til að jafna þessar 15 rafveitur á landsbyggðinni.

Ef þessar hækkanir ná fram að ganga hjá RARIK, og trúlega er um að ræða þörf fyrirtækisins, er mjög líklegt að hér sé um að ræða mun meiri hækkun en vænta má hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og að nú hnígi í þá átt á nýjan leik að bilið milli orkuverðs á landsbyggðinni og hér á Reykjavíkursvæðinu aukist. Mér sýnist að allt bendi til þess að þrátt fyrir fögur fyrirheit hjá talsmönnum stjórnarliðsins standi nú fyrir dyrum sú þróun mála að orkuverð hækki meir á köldu svæðunum en hér á Reykjavíkursvæðinu, það þróist í þá átt að orkukostnaður á landsbyggðinni verði óhóflegur og orsaki aukinn mismun lífskjara eftir búsetu.

Ég vil leyfa mér að beina þeim spurningum til hæstv. iðnrh. hvort sú þróun blasi nú við, sem ég hef hér nefnt, að sú viðmiðun sem notuð hefur verið undanfarin ár, þ.e. það að orkuverð verði ekki hærra á landsbyggðinni en sem nemur um 25% yfir Reykjavíkursvæðinu, breytist í þá átt að orkuverðið á landsbyggðinni verði hærra í hlutfalli við það orkuverð sem er á Reykjavíkursvæðinu.

Það er ekki mikið fagnaðarefni fyrir landsbyggðina, þó að verið sé að lækka verðjöfnunargjaldið og breyta grundvelli verðlagningar á orku, ef það hnígur í þá átt að orkuverðið hækki og hlutur landsbyggðarinnar verði verri en áður var.