17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2091 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

188. mál, barnabótaauki

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. við frv. til l. um sérstakan barnabótaauka, sem er 188. mál þessa þings, á þskj. 335. Meðflutningsmaður minn er hv. þm. Kristín Halldórsdóttir.

Brtt. varðar 1. málsgr. 2. gr. frv., en lagt er til að sú grein verði svohljóðandi:

„Sérstakur barnabótaauki skal nema óskertur 30 þús. kr. með hverju barni.“

Það kemur sem sé talan 30 þús. í stað 15 þús.

Sá kostnaðarauki, sem er samfara þessari tvöföldun barnabótaaukans, er rúmlega 200 millj. kr., nánar tiltekið áætlaður 220 millj.

Flutningur þessarar brtt. er reyndar í nánu samhengi við annað mál, sem er 187. mál þessa þings og er frv. til l. um breyt. á lögum nr. 75 frá 14. sept. 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, en við það frv. gerum við þm. Kvennalista í Nd., Guðrún Agnarsdóttir og Kristín Halldórsdóttir, brtt.brtt. miðar að því að fella út samsköttunarákvæði hjóna í 3. gr. frv. eða þá setningu sem byrjar svo: „Sé tekjuskattsstofn annars hjóna sem skattlagt er samkv. ákvæðum 63. gr. lægri en 200 þús. kr. skal þó hækka þetta tekjumark hjá hinum makanum um þá upphæð sem á skortir að tekjuskattsstofn þess fyrrgreinda nái 200 þús. kr., en þó ekki um hærri upphæð en 100 þús. kr.“ En það eru einmitt þessar 200 millj. sem nota má til þess að auka barnabætur.

Að öðru leyti erum við sammála efni beggja þessara frv., um barnabótaauka og tekju- og eignarskatt, og hvetjum til þess að þau verði samþykki.

Ég vil nú gera frekari grein fyrir þessari afstöðu okkar kvennalistaþingmanna.

Sanngjörn sköttun einstaklinganna til samneyslu þjóðfélagsins er ekki auðvelt verkefni og þarf margs að gæta til að virðing gagnvart réttindum eins verði ekki að broti á réttindum annars. Það er grundvallarskoðun okkar að hver einasti fullorðinn einstaklingur eigi að vera fjárhagslega sjálfstæður aðili og að lita beri á hann sem slíkan, einnig gagnvart lögum, skattalögum sem og öðrum lögum. Efnahagslegt sjálfstæði kvenna er líklega mikilsverðasti þátturinn til að tryggja raunverulegt sjálfstæði kvenna, þ.e. til að eiga í reynd val um lífsferil sinn og viðfangsefni. Það er á þessum grundvallarforsendum sem við teljum það stórt spor í rétta átt að viðurkenna fjárhagslegt sjálfstæði kvenna með því að þær séu sjálfstæðir skattgreiðendur.

Samsköttun hjóna, sem tilgreind er í 3. gr., er frá sjónarmiði fjárhagslegs sjálfstæðis giftra kvenna tvímælalaust spor aftur á bak. Með þessari reglu er lægra launaði makinn, sem í langflestum tilfellum er konan, gerð að nokkurs konar viðhengi maka síns og má segja að í leiðinni sé að nokkru verið að réttlæta hin lágu laun kvenna úti á vinnumarkaðinum. Skattalögin eru með þessu ákvæði í reynd að taka tillit til þess að flestar konur bera ákaflega lítið úr býtum úti á vinnumarkaðinum. Réttlæting á lágum launum kvenna á auðvitað hvergi heima, hvorki í skattalögum né annars staðar, og vilji menn bæta hlut kvenna að þessu leyti og sjá til þess að þær njóti ávaxta vinnu sinnar, þá ber að hækka laun þeirra úti á vinnumarkaðinum með því að endurmeta störf þeirra og bæta aðbúnað barna þeirra í þjóðfélaginu því ella geta konur ekki staðið jafnfætis körlum úti á vinnumarkaðinum.

En samsköttun hjóna snýst ekki eingöngu um tekjumismun hjónanna. Hún virðist í fljótu bragði vera skref í þá átt að meta einhvers þau ólaunuðu störf sem unnin eru inni á heimilinu, heimilisstörfin. Ef þessi er tilgangur hennar, þá er ýmislegt við það fyrirkomulag að athuga. Má vera að hér sé góð hugsun að baki, en framkvæmd hennar er ómarkviss. Í fyrsta lagi er hér tekið tillit eingöngu til þess sambúðarforms sem er kjarnafjölskyldan eða hjón. Þarna er ekki tekið tillit til heimilisstarfa á heimili þar sem önnur sambúðarform gilda, t.d. milli blóðskyldra einstaklinga þar sem annar aðilinn er heimavinnandi. Sömuleiðis má segja að ekki sé tekið tillit til heimilisstarfa þeirra sem úti vinna, af því að hvergi gera slík störf sig sjálf, en hafa ævinlega þá náttúru að sjást helst ef þau eru ekki unnin. Það má því segja að þessi tilraun til viðurkenningar á hlutverki þess hjóna sem heimavinnandi er sé jafnframt skerðing á réttindum eða á kostnað réttinda annarra. Hún tekur heldur ekki beint tillit til þeirra sem heimavinnandi eru, heldur til þeirra sem hafa heimavinnandi á framfæri sínu. Sá sem útivinnandi er fær afslátt fyrir það að hafa heimavinnandi á framfæri sínu. Nauðsynlegt er að leiðrétta hlut þeirra sem heimavinnandi eru og væri þá mun réttlátara að þeir aðilar njóti sjálf eða sjálfur umbunar af störfum sínum. Við megum ekki gleyma því að þau störf sem unnin eru launalaust inni á heimilum landsins eru aldrei talin með eða viðurkennd í hagskýrslum, aldrei talin með til verðmætasköpunar í þjóðfélaginu. Þeir sem þau vinna að aðalstarfi njóta ekki einu sinni lífeyrisréttinda og eðlilegra tryggingabóta. Það er alveg ljóst að rétt þeirra þarf að virða og meta til verðmæta fyrir þjóðfélagið. Við teljum samt ekki að slíkt verði best gert á þann hátt sem hér er lagt til.

Það er nauðsynlegt að mæta kröfum heimavinnandi um lífeyrisréttindi og önnur réttindi. Ein vænlegasta leiðin til að mæta slíkum þörfum er t.d. að auka barnabætur, þannig að þjóðfélagið viðurkenni nauðsyn þess að hlúa að börnum og um leið að gefa foreldrum og forráðamönnum val um það hvernig þau standi að því. Þess vegna er þessi brtt. flutt til þess að koma til móts við þau heimili þar sem heimavinnandi er einkum heima til að annast börn. Slíkt er að jafnaði tímabundið í lífi fjölskyldunnar, að foreldrar eða forráðamenn eru bundnir af umönnun barna sinna, og oft meginástæðan fyrir því að annað foreldri, gjarnan móðir, kýs að vera heima.

Okkur finnst því eðlilegt að koma til móts við slíkar þarfir. Jafnframt þykir okkur líka sjálfsagt og eðlilegt að tillit sé tekið til barna og foreldra með auknu og lengdu fæðingarorlofi. Enn annað skref í þá átt að viðurkenna hlut heimavinnandi er að meta starfsreynslu þeirra þegar út á vinnumarkað kemur eins og aðra starfsreynslu í þjóðfélaginu og minni ég á þál. Kvennalista í því sambandi. Þessi tvö þingmál snerta í raun hugmyndafræðileg grundvallaratriði, og þrátt fyrir það að erfitt sé að finna réttláta og sanngjarna löggjöf, þannig að tillit sé tekið til allra aðila, þá teljum við að að svo komnu máli, þá sé þessi aðferð sú réttlátasta að láta auknar barnabætur mæta þörfum heimavinnandi fremur en að knýja konur með skattalöggjöf inn á heimilin með óbeinum þrýstingi. Skattalöggjöfin á að gefa fólki val. Hún á hvorki að reka konur út á vinnumarkað né heldur að knýja þær inn á heimilin.