17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2107 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

233. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal á engan hátt gera neina tilraun til að tefja fyrir þessu nauðsynjamáli, sem hér er nú loks fram komið, því að mér er ljóst að þetta mál verður að fá greiða afgreiðslu hér í gegnum þingið svo seint sem það er á ferðinni. En það er ástæða til þess að fara nokkrum orðum um þetta mál, svo mikilvægt sem það er margra hluta vegna.

Það er rétt, sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vék að áðan, að hér er um að ræða nánast árlegan viðburð í framlengingu þessa gjalds nokkuð mörg undanfarin ár.

Ekki hefur farið fram hjá neinum eða farið hljótt yfirlýsingar og stefna hæstv. iðnrh. í þessu máli. Hún ætti öllum landslýð að vera ljós eftir allar þær yfirlýsingar sem hæstv. ráðh. hefur gefið. Ég þykist vita að hann hafi gefið þær af fullum heilindum. Auðvitað er hægt að hugsa sér fleiri en eina og fleiri en tvær aðrar leiðir til að jafna í þessum þætti en þetta verðjöfnunargjald. En ekki er að sjá að um það sé samstaða innan hæstv. ríkisstj. eða stjórnarflokka að gera neitt slíkt. Verðjöfnunargjaldið er auðvitað einn þátturinn í því, þó ekki sé nægilega stór, að jafna aðstöðu fólks innan þessa ramma. Þó að ég ætli ekki að standa hér og munnhöggvast við hv. þm. Kjartan Jóhannsson held ég að það sé mesti misskilningur, ef menn tala almennt um orkukostnað, t.d. upphitunarkostnað íbúðarhúsnæðis sem hin almenna launafjölskylda verður að standa skil á, að hann sé lægri á þeim svæðum sem hér er verið um að ræða, eins og t.d. hjá Orkubúi Vestfjarða, en á þeim svæðum sem hér hefur verið vitnað til. Ég skal ekki fara út í það frekar nú, en ég a.m.k. hef allan fyrirvara á um réttmæti þeirra fullyrðinga.

Það var ansi fróðlegur listi sem hæstv. iðnrh. las upp við umr. ekki alls fyrir löngu í þinginu að því er varðaði orkukostnað, upphitunarkostnað heimilanna, þann vinnuviknafjölda sem launafólk er að vinna fyrir þessum þætti í heimilishaldinu. Það kemur í ljós að gífurlega stór hluti af launatekjum hins almenna launamanns, sérstaklega á köldu svæðunum, fer bara í þennan eina þátt heimilishaldsins. (Gripið fram í.) Hvað segir hv. þm.? Ég er reiðubúinn til andsvara. (KJóh: Ég vil bara að þú sért klár á því að ég var að tala um rafmagn til heimilisnota en ekki til húshitunar.) Ég tala um orkukostnaðinn sem slíkan því að þeim þætti verður launafólk að skila hvort sem því líkar betur eða verr. Það er ekki bara um að ræða einn þáttinn í þessu dæmi, heldur verður fólk að borga hann allan. Auðvitað á að tala um allan kostnaðinn sem fólk verður að standa skil á. (KJóh: Eigum við þá ekki að lækka húshitunarkostnaðinn?) Enn er ég reiðubúinn til þess og hefur ekki á okkur staðið, þm. dreifbýlisins, heldur hefur staðið þar frekar á öðrum að létta þar undir og skila m.a.s. þeirri skattheimtu sem af okkur er tekin á köldu svæðunum til að jafna þennan þátt. Á engan hátt skal ég skorast undan því að rökræða hér við hvern sem er um þann þátt mála, í hvaða flokki sem er.

Þetta frv., sem hér er nú til umr., er svipur hjá sjón miðað við þær yfirlýsingar sem hæstv. iðnrh. hefur gefið. Það er örlítið brot af innihaldi allra þeirra yfirlýsinga sem frá hæstv. ráðh. hafa komið um þessi mál. Hér er um það að ræða að lækka verðjöfnunargjaldið úr 19% í 16% sem þýðir skv. aths. með frv. að tekjumissir Rafmagnsveitna ríkisins verður um 53 millj. kr. við það að missa þessi 3% af verðjöfnunargjaldinu og tekjumissir Orkubús Vestfjarða verður um 13.3 millj. kr. við það að lækka verðjöfnunargjaldið úr 19% í 16. Það er ekki stafkrókur um það í frv. að þessum aðilum eigi að bæta þennan tekjumissi. Þess er að vísu getið í grg. að uppi séu hugmyndir um að gera slíkt, en við höfum fyrir okkur margítrekaðar yfirlýsingar hæstv. iðnrh. um allt aðra málsmeðferð á þessu máli en þetta frv. hans ber vitni um. Og það er engin ástæða, a.m.k. ekki fyrir mig, að treysta því, þó að lauslega sé á það minnst í grg. með frv., að hugsanlegt sé að bæta að einhverjum hætti þennan tekjumissi.

Eins og frv. liggur fyrir er verið að rýra tekjur Orkubús Vestfjarða frá því sem þær nú eru um 13.3 millj. kr. og tekjur Rafmagnsveitna ríkisins um 53 millj. kr., án þess að nokkurs staðar sé stafkrók að finna um það í frv. að þetta eigi að bæta. Þessu mótmæli ég harðlega og krefst þess að hæstv. iðnrh. gefi enn eina yfirlýsinguna, og henni vil ég helst geta trúað og treyst, um að afleiðingar þessarar lækkunar um þrjú stig í verðjöfnunargjaldi leiði ekki til tekjumissis þeirra tveggja fyrirtækja sem hér eiga hlut að máli. Ótvíræð yfirlýsing af hálfu hæstv. iðnrh. fyrir hönd ríkisstj. um að séð verði fyrir þeim tekjumissi sem um er að ræða gagnvart þessum fyrirtækjum er lágmarkskrafa við þær kringumstæður sem þetta mál er nú í.

Ég vek hins vegar á því athygli að í hv. Ed. kom fram brtt. sem útfærir alveg stefnu hæstv. iðnrh. og þeirrar nefndar sem um þetta mál fjallaði og er vel til þess fallin að að henni yrði farið hér á hv. Alþingi. Ég held að það sé alveg bráðnauðsynlegt að hv. þdm. hér í Nd. segi hvort þeir vilja styðja við bakið á hæstv. iðnrh. í hans hugmyndum í þessu máli og yfirlýsingum og fram fáist afstaða þdm. til nál. þeirrar nefndar sem hæstv. iðnrh. skipaði til að gera númer eitt tillögur um að fella niður verðjöfnunargjaldið en láta annað koma í staðinn. Ég held að bráðnauðsynlegt sé að fá að vita hvort Nd.-þm. eru sammála hæstv. iðnrh. og þeirri nefnd sem hann skipaði til að gera tillögur um að fara aðrar leiðir. Nauðsynlegt er að fá fram sams konar brtt. og hv. Ed. fjallaði um, þannig að við tökum af öll tvímæli um hverjir það eru sem bregðast hæstv. iðnrh. í stuðningnum við að ná fram breytingu á málinu. (Gripið fram í.) Hvað segir hv. 7. þm. Reykv., formaður Verkamannasambands Íslands? Ég náði því ekki. (GJG: Ég las einhvers staðar að það hefðu verið sóleyjar í varpa í desember í Bolungarvík.) Það er ekki ólíklegt. Það er ýmislegt sem blómstrar þar á öllum árstímum og ætti ekki að koma hv. þm., sem ætlaður er vestan af fjörðum, á óvart nema hann sé búinn að gleyma sinni fortíð og sínum uppruna eins og kannske fleiru af því góða.

Ég skal ekki, herra forseti, orðlengja frekar um þetta því að mér er ljóst að þetta mál verður að fá afgreiðslu þó að það sé í allt öðru formi en hæstv. iðnrh. vill hafa málið og í allt öðru formi en sú nefnd, sem hæstv. ráðh. skipaði til að gera tillögur um breytingar, vildi. Það er nauðsynlegt, að mínu viti, að fá fram vilja þdm. um hvora leiðina meiri hl. hér styður, hæstv. ráðh. í ljósi þeirra yfirlýsinga og stefnumörkunar sem hann hefur gefið eða það frv. sem nú liggur fyrir deildinni og kallað er stjfrv.

En að síðustu: Ég óska mjög eindregið eftir því að fá um það ótvíræða yfirlýsingu af hálfu hæstv. iðnrh. fyrir hönd ríkisstj. að Orkubúi Vestfjarða og Rafmagnsveitum ríkisins verði tryggðar tekjur í stað þess tekjumissis sem þessir aðilar verða fyrir við það að lækka verðjöfnunargjaldið úr 19% í 16%.