18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2146 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

135. mál, skólakostnaður

Fyrirspyrjandi (Kristófer Már Kristinsson):

Herra forseti. Ég pakka hæstv. menntmrh. fyrir að svara þessari fsp. Ég verð að vísu að viðurkenna að ég er litlu nær um þá stefnu sem á að vera uppi í þessum efnum. Það kann að vera að skýringanna á því sé að leita annars staðar en í málflutningi hæstv. ráðh.

Mér sýnist að hæstv. ráðh. hafi hér fyrst og fremst gert grein fyrir skoðunum sem uppi eru í nefnd sem hæstv. félmrh. skipaði til að fara ofan í saumana á þessu og öðru sem snertir samskipti ríkis og sveitarfélaga. Hæstv. ráðh. nefndi að fámenni sveitarfélaga væri lykilatriði í þessu efni, þ.e. ef ætti að ná því markmiði að færa saman fjárhagslega ábyrgð og ákvarðanir. Það er ekki alveg ljóst hvort það er ætlun hæstv. ráðh. að færa allan kostnað t.d. af framhaldsskólakerfinu yfir á sveitarfélög eða þá að svo miklu leyti sem sveitarfélögum er kleift og ástæða er til að þau taki ákvarðanir um málefni framhaldsskóla. Mér sýnist jafnframt að ekki sé óvitlaust að skoða þann möguleika að stjórnendur skólanna geti sinnt fjármálum þessara stofnana og þar fari saman stjórnunarábyrgð og fjárhagsábyrgð.

Ég hlýt þó að treysta því að sú stefna í menntamálum sem birtist í fjárlögum eða fjárlagafrv. fyrir árið 1985 sé ekki stefna hæstv. menntmrh. og vísa þar til orða hennar að nú ári ekki til nýrra skuldbindinga á ríkissjóð. Það er hins vegar ekki ljóst og ég varð ekki var við að hæstv. ráðh. svaraði hvort það standi til t.d. á komandi skólaári að senda reikninga fyrir námsvistargjöldum vegna nemenda í menntaskólum. Það er alveg ljóst að sú mismunun sem á sér stað milli nemenda í menntaskólum og nemenda í fjölbrautaskólum er óþolandi og gersamlega ástæðulaus. Það kann að vera að þetta hafi komið fram í svari hæstv. ráðh., en það fór a.m.k. alveg fram hjá mér.