19.12.1984
Neðri deild: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2236 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

192. mál, málefni aldraðra

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það frv. sem hér er á dagskrá felur í sér nokkrar skipulagsbreytingar á lögum um Framkvæmdasjóð aldraðra, breytingar sem mér skilst að séu til hagræðingar og einföldunar á því fyrirkomulagi sem í gildi hefur verið. Það kemur fram í aths. með frv. á bls. 3 í hverju meginbreytingarnar eru fólgnar, þ.e. í fyrsta lagi að koma festu á starfsemi sjóðsins, þannig að þeir sem þangað hyggjast sækja fjármuni geti vitað hvers þeir megi vænta, og í öðru lagi að færa fjármögnun hjúkrunarrýmis á vegum sveitarfélaga að nýju til fjvn., enda verði tekjur af nefskattinum einu tekjur sjóðsins. Ég held að það sé allt gott um þessar breytingar að segja og þess vegna auðvelt og sjálfsagt að styðja framgang þessa frv.

Hins vegar hefur verið upplýst í þessari umr. að með þessum breytingum skerðist heildarframlög ríkissjóðs til Framkvæmdasjóðs aldraðra um ótilteknar upphæðir. Menn greinir nokkuð á um það hvað upp á vantar og skiptir í sjálfu sér ekki máli. Hæstv. heilbrmrh. hefur upplýst að framlag skv. breytingum á lögunum, ef samþykktar verða, muni leiða til þess að fé skorti á og hefur hann þá í huga þá tölu sem er inni í fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir nú.

Ég verð að segja það eins og er að mér finnst það ekki stórmannlegt, enda þótt þessi hagræðing og breyting eigi sér stað í þessum málaflokki, að þá sé tækifærið notað til þess að skera niður fjárveitingar til málefna aldraðra. Ég get satt að segja ekki ímyndað mér að það hafi verið ætlan nokkurs manns og allra síst hæstv. ráðh. að málin skipuðust svo að dregið yrði úr fjárveitingum til byggingarframkvæmda í þágu aldraðra. Það vita allir landsmenn að húsnæðisekla fyrir gamalt fólk er geigvænleg. Það eru hundruð manna á biðlistum hjá dvalarheimilum og það ríkir neyðarástand á hundruðum heimila, ekki aðeins í Reykjavík heldur víðs vegar um land, vegna gamalmenna sem þurfa á mikilli umönnun að halda en heimilisfólk á af skiljanlegum ástæðum erfitt með að sinna. Þetta fólk þarf á því að halda að fá aðhlynningu og þjónustu á stofnunum eins og dvalarheimilum og sjúkrahúsum. Það er bráður vandi, það er svo mikill vandi að það er skylda Alþingis að veita þessum málum verðuga athygli og sýna þeim þann skilning að fjárveitingar verði a.m.k. ekki lækkaðar til þessara mála.

Ég verð þess vegna að segja það eins og er að ég get ekki varið það gagnvart samvisku minni að greiða atkv. gegn tillögum sem miða að því að framlög til Framkvæmdasjóðs aldraðra verði a.m.k. að raungildi þau sömu og verið hafa á síðasta ári. Mér finnst þetta mál ekki snerta stjórn eða stjórnarandstöðu. Það snertir heldur ekki það hvað ráðh. hefur sagt í þessum umr. Það sem skiptir máli eru hagsmunir gamla fólksins. Og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hv. Alþingi láti það spyrjast um sig að skipulagsbreytingar í þessum lögum eigi að leiða til þess að fjárframlög lækki til málefna aldraðra. Ég vildi því láta það koma fram, herra forseti, við þessa umr. að ég er algjörlega andvígur því að niðurskurður eigi sér stað á fjárveitingum til Framkvæmdasjóðs aldraðra og ég er fyrir mitt leyti tilbúinn til þess að greiða atkv. með þeirri varatillögu sem hér hefur verið flutt og kynnt af hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og Svavari Gestssyni.

Fyrri tillagan hljóðar upp á það að þetta framlag eigi að nema 30 millj. Ég held að hvorki ég né aðrir geti sagt með sanni að sú tala sé hin rétta til þess að halda raungildi frá fyrra ári. Það sem skiptir máli, eins og ég sagði áðan, er það að hér sé ekki dregið úr frá því sem áður var. Ég skil vel að nú þurfi að spara og gæta aðhalds í rekstri og útgjöldum ríkisins. Ég er ekki að mæla með því að þetta framlag sé aukið að verðgildi eins og sakir standa. En ég tel það fráleitt að úr því sé dregið.

Ég lýsi því hér með yfir, herra forseti, að ég mun greiða atkv. með varatillögu þeirri sem ég nefndi áðan nema fram komi skýringar af hálfu stjórnvalda eða yfirlýsingar af hálfu hæstv. heilbrmrh. um það að hér muni verða gerð bragarbót á, annaðhvort með afgreiðslu fjárlaga eða með öðrum hætti nú á allra næstu dögum. — [Fundarhlé.]