19.12.1984
Neðri deild: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2296 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. meiri hl. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður, þó að ég telji mig eiga töluvert eftir af mínum kvóta hér í Alþingi, og vonast jafnframt til þess að ég stofni ekki til mikilla deilna, en mig langar þó til að grípa á nokkrum atriðum sem hér hafa komið fram.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir dró í efa í ræðu sinni m.a. að sparnaður hefði orðið í veiðum og vinnslu með því kvótakerfi sem upp hefði verið tekið. Ég vil benda á nokkur atriði í því sambandi.

Á fundi með innflytjendum veiðarfæra og netagerðarmönnum. kom fram að um 50% samdráttur hafði orðið í innflutningi á netum á þessu ári. Gefur það okkur ekki vísbendingu um sparnað í þessum efnum? Það fer ekki heldur milli mála að menn hafa hagað sókn á þann veg að tekist hefur að draga verulega úr og ég ítreka það: þar hefur tekist að draga verulega úr, olíunotkun fiskiskipa. Ekki fer heldur milli mála að bætt meðferð á fiski hefur skilað verulegum árangri, bæði í veiðum og vinnslu, eftir það að kvótakerfið var tekið upp. Þetta held ég að við hljótum að geta verið sammála um.

Ég vil einnig mótmæla því að kvótinn sem slíkur hafi valdið atvinnuleysi. Ég vil frekar halda hinu gagnstæða fram, að kvótinn hafi komið í veg fyrir atvinnuleysi á hinum ýmsu stöðum, þ.e. þar sem menn á annað borð höfðu þá einhvern áhuga fyrir því að stjórna veiðum á þann hátt. Ég held einnig að ég muni það rétt að ég hafi heyrt um að það sé um 10% samdráttur í sókn á flotanum miðað við sama aflamagn. Það segir okkur nokkuð um hvort hér er ekki um einhvern sparnað að ræða. (Gripið fram í: Hvaða tölu nefndi þm.?) 10% minnir mig að ég hafi heyrt.

Einnig langar mig að fara nokkrum orðum um það sem Karvel Pálmason sagði hér og vék að þeirri skoðanakönnun sem hér hefur verið vitnað til. Hann orðaði það þannig að miður æskileg skoðanakönnun hefði farið fram. T mínum huga var þetta góð og þörf athugun. Það var gott að fá sjómenn og útvegsmenn til að segja álit sitt á því hvernig hafi til tekist. Í mínum huga var það af hinu góða að spyrja þá menn, sem við þetta þurfa að búa og starfa, hvernig til hafi tekist.

Hv. þm. sagði einnig að það væri meiri ágreiningur um kvótann en áður. Þetta er hans skoðun. Mitt álit er hins vegar að menn sætti sig nú betur við kvótann en fyrr og þeir reyni að laga sig að þeirri stjórnun sem komið hefur verið á. — Og hver voru svo svör sjómanna og útvegsmanna, sem spurðir voru, í þessum efnum? Þar segir, með leyfi forseta:

Spurningin er: Hvernig telur þú að stjórna eigi fiskveiðum? Með aflakvóta á fiskiskip líkt og nú er sögðu 46.3%. Með skrapdagakerfi fyrir togara og sóknarmörkum á báta eins og giltu undanfarin ár sögðu 19.2%. Með sóknarkvóta á einstök fiskiskip sögðu 2.3%, aflakvótum á verstöðvar eða landshluta 1.9%, aflakvótum á fiskverkunarstöðvar 1.6%, verðmætakvótum á skip með takmörkunum á þorskveiðar 5.8%. Frjálsar veiðar með ákveðnu heildarhámarki á hverja fiskitegund vildu 16.2%. Auðlindaskatt, t.d. með sölu veiðileyfa, vildu 0.5% og annað ýmislegt 6.2%.

Það kemur hér alveg greinilega fram að það er mikill vilji manna fyrir því að þetta kerfi verði viðhaft þrátt fyrir allt.

En það sem mér féll einna verst við í ræðu þess ágæta þm. Karvels Pálmasonar var þegar hann spurði: Hverjir voru með í þessari könnun? Og hann sagði: Verða menn beittir þrýstingi í rn. vegna svara sinna? Ég verð að segja að hér finnst mér fráleitar aðdróttanir þm. og honum alls ekki til sóma. Það er nefnilega almannarómur að sjútvrh. hafi farið vel með það vald sem honum var falið í þessum efnum.

Þm. tala hér einnig um aukinn afla smábáta. Menn hafa rætt það nokkuð hér og það hefur verið rætt þann tíma sem kvótakerfið hefur verið í gangi. Menn eru þar sjálfsagt að tala í sama orðinu, ef ég heyri rétt, um það sem við köllum trillur og skemmtibáta. Ég tel að ef einhver á að fá aukinn afla er það sá sem stundar sjómennskuna sem fullt starf og á allt sitt undir því hvað úr hafinu er dregið. Það er þessi trausti og góði sjómaður sem ég vil fyrst að verði liðkað til fyrir ef á annað borð á að fara að breyta einhverju.

Hér hafa hv. þm. verið að tala um að línuveiðar verði utan kvótans. Mig langar til að varpa fram þeirri spurningu: Oft eru menn að tala um að hliðra til um línuveiðarnar og gefa þær jafnvel frjálsar. Eru menn virkilega að tala um það í alvöru t.d. að loðnuflotinn fari allur á línuveiðar? Hvað eru það mörg skip? Eru menn að tala um það í alvöru að loðnuflotinn eigi að fá óhefta sókn í línuveiði? Það er mjög þægilegt að útbúa loðnuskip til línuveiða. Það getur náð afbragðsgóðum árangri. Það er ekki nokkur vafi. (Gripið fram í: En ráðh. gæti stjórnað öðru eins.) Ég vil ekki samþykkja að þessir menn fái að koma til veiða og skammti sér aflamarkið sjálfir. Af hverju mega þessir menn taka aflann? Er meiningin að það komi niður á skipshöfninni á Bjarti NK eða Dagrúnu ÍS, svo að ég nefni nokkur dæmi? Er það meiningin? Sú viðbót sem menn eru að tala um að taka á þennan hátt verður tekin frá einhverjum öðrum. Annað er óhugsandi. Málið er ekki flóknara en það. Menn verða að átta sig á því að það er ekki kvótinn sjálfur sem er vandamálið í þessum efnum, heldur það aflamark sem við höfum sett okkur. Það er vandamál að glíma við.

Kjarni þessa máls er vitaskuld sá, að menn eru að fást við að skipta of litlu handa of mörgum. Það er vandamál dagsins sem menn hafa verið að fást við að leysa. Ég tel að menn hafi fundið færustu leiðina til að koma til móts við menn í þeim efnum.

Ég gæti sagt miklu fleira um þessi mál. Menn hafa jafnvel verið að tala um afkomu sjávarútvegsins í heild. En það líður nú á nóttu og fleiri mál á dagskrá hér en fiskveiðistefnan. Því læt ég þetta nægja. En ég legg enn og aftur ríka áherslu á að menn átti sig á því í allri umfjöllun um þessi mál að bíta sig ekki fast í að það sé kvótinn sem sé hið eina og sanna vandamál. Vitaskuld er vandinn sá að við höfum bundið okkur við það að taka ekki meira úr hafinu en lagt hefur verið hér til. Auðvitað höfum við efni og burði til að sækja og taka meira en það, en við höfum skammtað okkur þetta sjálfir og það er vandamálið.