20.12.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2351 í B-deild Alþingistíðinda. (1848)

1. mál, fjárlög 1985

Frsm. minni hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Ég ætla fyrst að nefna einstök atriði varðandi nokkra þá málaflokka sem biðu afgreiðslu hjá fjvn. til 3. umr.

Í vegáætlun fyrir árið 1985 og í langtímaáætlun um vegagerð er gert ráð fyrir að 2.4% af þjóðarframleiðslu yrði á árinu 1984 varið til vegamála. Niðurstaðan við afgreiðslu fjárlaga nú er að horfið verði frá fyrri samþykktum Alþingis og til vegamála verði á næsta ári varið 1.9% af þjóðarframleiðslu. Þar munar 432 millj. kr., en ef tekið er tillit til þess að vísitala vegagerðar hefur hækkað minna en vísitala þjóðarframleiðslu vantar 180 millj. kr. til þess að sama framkvæmdamagn náist og stefnt var að með ákvörðunum Alþingis um að verja 2.4% þjóðarframleiðslu til vegamála 1985. Þó að þannig sé nú ákveðið að skera niður framkvæmdir frá fyrri áætlunum varðandi næsta ár og minnka framkvæmdir að raungildi miðað við vegáætlun ársins 1984, þegar hlutfall vegaframkvæmda af þjóðarframleiðslu er 2. 03%, þá eiga bensíngjöld og þungaskattur að hækka í réttu hlutfalli við breytingar á byggingarvísitölu eða um 26% að meðalatali á næsta ári miðað við árið í ár, en engar verðbætur koma á laun á því tímabili, a.m.k. á meðan núgildandi kjarasamningar standa, en áætlað er að kauptaxtar verði á næsta ári að meðaltali 22% hærri en á þessu. Bensínið á hins vegar að hækka á sama tíma um 26%. Þetta framlag til vegamála, 1.9% af þjóðarframleiðslu, er lægra en á nokkru áranna 1982, 1983 og 1984.

Varðandi afgreiðslu Pósts og síma er þess að geta að taxtar fyrir þjónustu eiga að hækka um 11% 1. febr. n.k., en 1. ágúst 1983 fékk stofnunin 18% hækkun taxta sem verður í gildi til 1. febr. En á þessu 18 mánaða tímabili hefur meðalhækkun framfærsluvísitölu verið 13.8% svo að stofnunin hefur notið tekjuaukningar umfram almennar verðlagshækkanir sem nemur um 115 millj. kr. Er þó þess að geta í fyrsta lagi að á þessu 18 mánaða tímabili hefur framkvæmdavísitala eða vísitala byggingarkostnaðar hækkað minna en framfærsluvísitala svo að ætla má að miðað við þá vísitölu hafi Póstur og sími haft ríflega 200 millj. kr. meira úr að spila en verið hefði ef taxtar hefðu á tímabilinu hækkað jafnt og byggingarvísitalan. Í öðru lagi hafa laun starfsmanna stofnunarinnar, en þau eru tæplega 40% af rekstrarútgjöldum að meðtöldum afskriftum, verið skorin niður að raungildi um fjórðung fyrir atbeina ríkisstj. Ýmsir kynnu að ætla að vegna þess að taxtar hafa ekki breyst síðan 1. ágúst 1983 hafi notendur búið við hlutfallslega lægri gjöld en áður, en staðreyndir sýna að sú hækkun sem Póstur og sími fékk í upphafi þess tímabils, sem ég hef hér rætt um, þ.e. frá 1. ágúst 1983, og gildir þar af leiðandi sem meðalhækkun allan tímann, er miklu meiri en meðalhækkun á almennu verðlagi og ég tala nú ekki um kaupgjaldi á þessu tímabili. Meðalhækkunin á töxtum Pósts og síma hefur líklega verið tvöfalt meiri en meðalhækkun byggingarvísitölu á sama tíma.

Framlag ríkissjóðs til Tryggingastofnunar ríkisins nemur um 6 þús. millj. kr. í fjárlagafrv. og hækkar í meðförum fjvn. um 1200 millj. Hér er um háar upphæðir að ræða og skiptir miklu um áreiðanleik fjárlaganna að þessar tölur séu sem nákvæmast áætlaðar. Ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en að þær séu það að þessu sinni miðað við verðlagsforsendur þótt ávallt sé erfitt að spá um magn þjónustu eins og þessarar. Þess ber að gæta í þessu sambandi að í þessum tölum er gert ráð fyrir því að einungis verði að hálfu leyti komið til móts við óskir sem fyrir liggja um að taka í notkun legurými sem tilbúið er eða verður tilbúið til notkunar á næsta ári, en þar er um að ræða legurými í Garðvangi í Gerðahreppi, Hlíð, Akureyri, Dalvík og Sauðárkróki, auk þess sem ekki er gert ráð fyrir fjárveitingu til reksturs þess hluta B-álmu Borgarspítalans sem kann að verða tilbúin til notkunar seint á árinu 1985.

Skv. þeim gögnum sem Tryggingastofnun ríkisins hefur lagt fyrir fjvn. kemur fram að reglugerð sem heilbrmrn. setti og tók gildi 1. júní s.l. og gilti óbreytt til 1. des. hefur minnkað útgjöld Tryggingastofnunar ríkisins á þeim hluta ársins sem hún gilti vegna læknisþjónustu um 40 millj. kr., vegna tannlæknisþjónustu um 10 millj. kr. og vegna lyfjakaupa um 80 millj. kr. eða samtals um 130 millj. Síðan hefur verið sett ný reglugerð sem dregur úr útgjaldaaukningu hjá sjúklingum vegna reglugerðarinnar frá 1. júní s.l., þannig að nú er áætlað að eftir standi af þeim sérstöku álögum sem á sjúklinga voru lagðar 1. júní 1984 73 millj. kr. á næsta ári miðað við verðlag í des. s.l.

Við afgreiðslu á málefnum Rafmagnsveitna ríkisins er gert ráð fyrir að taxtar fyrirtækisins hækki í þeim mæli á næsta ári að jafngildi 20% hækkun 1. jan. n.k. og má þá búast við að aftur raskist viðskiptamönnum þess í óhag hlutfallið milli verðs á rafmagni annars vegar frá Rafmagnsveitum ríkisins og hins vegar frá öðrum rafmagnsveitum. Þrátt fyrir þessa miklu hækkun á seldu rafmagni er gert ráð fyrir að skuldabyrði Rafmagnsveitnanna aukist á næsta ári um 22 millj. kr., stofnunin greiði 153 millj. kr. í afborganir lána, en taki ný lán að upphæð 175 millj.

Um afgreiðslu fjárlaganna í heild er ekki mikið að segja umfram það sem ég rakti við 2. umr. og þá blasti við. Megineinkennin eru raunhækkun bæði tekna og útgjalda, verulegur rekstrarhalli og erlend og innlend skuldasöfnun samtímis því sem félagslegar framkvæmdir eru skornar niður. Milli 2. og 3. umr. hækka innlendar lántökur ríkissjóðs um 50 millj. kr. og verða 1250 millj. og erlendar lántökur hækka við 3. umr. um 300 millj. kr. og verða 2900 millj. kr. á næsta ári. Meginmunurinn á niðurstöðum varðandi áætlun næsta árs og niðurstöðunni í ár er sá að tekjur ríkissjóðs af innflutningi, sem eru langt umfram það sem spáð var í þjóðhagsáætlun í fyrra, duga líklega til þess að skila ríkissjóði svo til hallalausum í ár, en á næsta ári er enn reiknað með jafnmiklum og gegndarlausum innflutningi og viðskiptahalla upp á 4800 millj. kr. og erlendri skuldasöfnun í samræmi við það, en eins og nú á að afgreiða fjárlög dugir það ekki til þess sama árangurs fyrir ríkissjóð og í ár, heldur er halli á ríkissjóði á næsta ári áætlaður um 720 millj. kr.

Þetta er slík niðurstaða að við sem skipum minni hl. fjvn. teljum að ekki sé stætt á að afgreiða fjárlög eins og hér er lagt til. Við teljum fullkomið ábyrgðarleysi að feta þá braut sem hér er gert og teljum að eins og málum er nú komið ætti að fresta afgreiðslu fjárlaga og erum fyrir okkar leyti reiðubúin til þess að leggja í það vinnu með meiri hl. n. að endurskoða þær ákvarðanir sem að er stefnt að samþykkja og erum þeirrar skoðunar að leita eigi leiða til þess, m.a. með nýrri tekjuöflun, að afgreiða fjárlög án halla.

Það hefur komið fram hjá ýmsum í stuðningsliði hæstv. ríkisstj. að þeir eru að vonum ekki ánægðir með þessa þróun og ýmsa þætti þeirrar afgreiðslu fjárlaga sem hér er stefnt að. M.a. hefur formaður fjvn., hv. 1. þm. Norðurl. v., lýst yfir þessari skoðun í sjónvarpi. Ég tel að hv. meiri hl. n. og ríkisstj. ættu að taka alvarlega þennan vilja okkar til að endurskoða þær fyrirætlanir sem nú eru uppi um afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár og hugmyndir okkar um að afgreiðslu málsins verði frestað til þess að fjárlagaafgreiðslan verði með þeim hætti að betur verði við unað og til minni ófarnaðar leiði fyrir efnahagslífið í landinu.

Eins og ég áðan nefndi hækka bæði tekjur og útgjaldahlið fjárlagafrv. að raungildi. Við 2. umr. dró ég fram dæmi um einstaka rekstrarliði sem hækka langt umfram verðlag. Aðalskrifstofur ráðuneytanna höfðu þá hækkað að raungildi um ríflega 10%, þ.e. umfram verðlagshækkanir. Nú við 3. umr. hækka þessir útgjaldaliðir enn um 1.3 millj. kr. og felast því í fjárlagaafgreiðslunni tillögur um að framlag til aðalskrifstofa rn. hækki um 36 millj. kr. að raungildi á næsta ári eftir að þær höfðu verið færðar til samræmis við ríkisreikning við afgreiðslu fjárlaga í fyrra. Ég vil ítreka það, sem ég sagði við 2. umr., að heildarútgjöld ríkissjóðs hafa ekki dregist saman í tíð núv. ríkisstj. til þessa, þvert á móti, og þau aukast enn verulega á næsta ári við afgreiðslu fjárlaga með þeim hætti sem hér er lagt til.

Útgjöld ríkissjóðs í ár eru áætluð 19 582 millj. kr., en á næsta ári 26 060 millj. Það er bein hækkun um 33.1%. Á hinn bóginn eru launahækkanir ríkisstarfsmanna og rekstrargjaldahækkanir taldar verða 24% á næsta ári og hækkun byggingarvísitölu 26%. Ef miðað er við 25% meðalhækkun á útgjaldaþáttum hækka heildarútgjöld ríkissjóðs á næsta ári að raungildi um 6.5%, en það jafngildir 1582 millj. kr. á verðlagi næsta árs. Það er því ekki annað en bull og blekkingar þegar því er haldið fram að verið sé að draga úr umsvifum í ríkisbúskapnum. Þau stóraukast að raungildi eða um hvorki meira né minna en 6.5% miðað við fast verðlag.

Þó að aðaleinkenni fjárlagaafgreiðslunnar sé að tekjur aukast ekki í takt við útgjöldin, þannig að um er að ræða mjög verulegan rekstrarhalla sem borinn er uppi af erlendri skuldasöfnun, þá er það líka rangt, sem haldið hefur verið fram af hálfu stjórnarsinna, að tekjur ríkisins og skattheimta minnki í raun og að ríkissjóður hafi minna úr að spila en áður. Tekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 19 512 millj. kr. á þessu ári, en 25 336 millj. kr. á næsta ári. Ef enn er miðað við 25% meðalhækkun í útgjaldaþáttum ríkisins milli áranna 1984 og 1985 er raunhækkun tekna ríkissjóðs 3.9%, en það jafngildir nær 1000 millj. kr. á verðlagi næsta árs. Þetta dugir þó ekki til. Þó að ríkissjóði sé á næsta ári ætlað að njóta góðs af svo miklum innflutningi að viðskiptahalli er áætlaður 4800 millj. kr. þrátt fyrir aukna þjóðarframleiðslu, þá er hækkun ríkisútgjalda þá enn meiri og rekstrarhalli því 720 millj. kr.

Það er að sjálfsögðu hægt að benda á einstaka tekjuliði sem skertir hafa verið, t.d. skattar á ferðagjaldeyri, banka, verslunar- og skrifstofuhúsnæði og lækkun á tekjuskatti vegna ívilnana til eignamanna, en aðrir tekjuliðir hafa hækkað meira en þessu nemur, fyrst og fremst veltuskattar af innflutningi sem er langt umfram útflutninginn. Vegna þess mikla innflutnings, sem ríkissjóður nýtur góðs af, hlaðast upp erlendar skuldir og þar á ofan bætast svo þær erlendu skuldir sem ríkissjóður stofnar sjálfur til vegna þess að þessi mikla veltuaukning dugir ríkissjóði samt ekki fyrir útgjöldum.

Þegar vitnað er til þess að erfiðleikar í þjóðarbúskapnum hafi skert tekjur ríkissjóðs er það rétt í þeim skilningi að meiri þjóðarframleiðsla ætti að vera grunnur að eðlilegri tekjuaukningu ríkissjóðs. Tekjuaukning ríkissjóðs er eigi að síður fyrir hendi nú, en hún byggist á hinn bóginn ekki á aukinni þjóðarframleiðslu, sem væri hinn eðlilegi grunnur, heldur á viðskiptahalla og innflutningi m.a. fyrir ný erlend lán. Í ríkissjóð renna auknar tekjur á þennan hátt og heildartekjurnar aukast að raungildi með þessum óeðlilega og varhugaverða hætti. Hinn mikli innflutningur í ár, þegar viðskiptahalli nam 3900 millj. kr. skv. nýjustu áætlun — var í haust áætlaður 3500 millj. kr., — er lagður til grundvallar tekjuspá fyrir næsta ár. M.a.s. er þar inni í dæminu sú mikla viðbótarvelta sem kom fram í okt. og nóv. s.l. og átti rætur að rekja til viðbragða innflytjenda og neytenda vegna fyrirsjáanlegra efnahagsráðstafana. Hvort þessi tekjuspá stenst og hvort þjóðfélagið og efnahagskerfið stenst það að hún gangi eftir og hvort öllu lengur getur varað sú endileysa sem nú viðgengst í peninga- og efnahagsmálum almennt er svo önnur saga.

Ég rakti það við 2. umr. að fjárlagaafgreiðslan staðfestir að ríkisstj. hefur fallið frá öllum helstu stjórnunaráformum sínum varðandi viðskiptahalla, erlenda skuldasöfnun og jafnvægi í ríkisbúskapnum. Ríkissjóður er rekinn með erlendum lántökum. Vaxtaútgjöld ríkisins aukast stórlega. Þau hækka á næsta ári úr 920 millj. kr. í 1472 millj., en sú upphæð er ámóta há og framlög til framkvæmda- og stofnbúnaðarkaupa ríkisins. Vaxtagjöld ríkissjóðs aukast að raungildi á næsta ári um u.þ.b. 300 millj. kr. Þannig er vítahringurinn: erlend skuldasöfnun, stórauknar vaxtagreiðslur og enn erlend skuldasöfnun til þess að standa undir hækkun vaxtaútgjalda.

Þótt 2 milljarða gat kæmi fljótt í ljós í ríkissjóðsdæminu í ár átti það stóran þátt í að bjarga rekstrarstöðu ríkissjóðs að innflutningur vöru og þjónustu var miklu meiri en áætlað hafði verið í þjóðhagsáætlun í fyrrahaust. Það var spáð að innflutningur yrði 33 130 millj. kr., en verður í reynd 38 500 millj. Í þjóðhagsspá fyrir næsta ár er áætlað að viðskiptavelta verði jafnmikil í ár og viðskiptahallinn 4800 millj. kr. og skuldasöfnun erlendis í samræmi við það. En nú dugir þessi velta ekki til þess að ná endum saman í ríkisrekstrinum. Það er munurinn á horfunum í ár og á næsta ári. Þó að tekjur ríkissjóðs hækki um nær 4% að raungildi hækka útgjöld svo miklu meir að rekstrarhalli nemur 720 millj. kr. og heildarlántökur ríkissjóðs verða 4150 millj. kr., þar af erlendar lántökur 2900 millj. Nú er ráðleysið í ríkisfjármálunum orðið slíkt að jafnyfirspennt viðskiptavelta og innflutningur, viðskiptahalli og skuldasöfnun þjóðarinnar erlendis dugir ekki einu sinni til þess að endar nái saman hjá ríkissjóði. Það er augljóst að verði fjárlög fyrir næsta ár afgreidd eins og hér er lagt til hefur ríkisstj. valið hina hægu leiðina þar sem hallar undan fæti.

Við sem skipum minni hl. fjvn. teljum að Alþingi megi ekki víkja sér undan þeirri skyldu að spyrna við fæti hér og nú og fjárlög eigi ekki og megi ekki afgreiða með þeim hætti sem nú er fyrirhugað. Þess vegna teljum við að nú eigi að fresta afgreiðslu fjárlaga og skorum á hæstv. ríkisstj. að fara þannig að.

Ég endurtek það, sem ég sagði í upphafi máls míns, að við sem skipum minni hl. fjvn. erum reiðubúin til þess að taka þátt í því með meiri hl. n. að leita sameiginlegra leiða til að finna farsælli lausn á afgreiðslu fjárlagafrv. en hér er að stefnt.