29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2410 í B-deild Alþingistíðinda. (1908)

223. mál, reglugerð um endursöluíbúðir

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 271 fyrirspurnir til hæstv. félmrh., en fyrirspyrjandi auk mín er hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson. Fyrirspurnirnar eru á þessa leið:

„1. Hve margar endursöluíbúðir í verkamannaíbúðum bíða nú mats á íbúðaverði?

2. Hvenær verður gefin út reglugerð um verðlagningu endursöluíbúða?“

Þegar húsnæðismálafrv. ríkisstj. var til meðferðar á síðasta þingi flutti ég brtt. ásamt öðrum þm. Alþb. við allar þær greinar frv. ríkisstj. sem fjölluðu um endursöluíbúðir í verkamannabústöðunum vegna þess að við töldum að þær reglur sem voru teknar upp og ríkisstj. beitti sér fyrir væru flóknar og gallaðar og það væri óvinnandi vegur að fara eftir þeim reglum. Hæstv. félmrh. svaraði í engu þessari gagnrýni á síðasta þingi og gerði enga grein fyrir þeim breytingum sem þessar nýju reglur mundu hafa í för með sér fyrir íbúðaeigendur í verkamannabústöðum. Við umr. fullyrti ég, og ég hygg að það hafi komið í ljós, að þessar nýju reglur hefðu í för með sér stórfellda lækkun á íbúðaverði handa þeim sem búa í verkamannabústöðum frá því sem áður var. Reynslan hefur svo sýnt að húsnæðismálastjórn og stjórnir verkamannabústaðanna hafa ekki getað framkvæmt hinar nýju reglur. Vikum og mánuðum saman stóðu félmrn. og húsnæðisstjórn í bréfaskriftum út af þessum málum vegna þess að hin nýju lög reyndust að þessu leyti gersamlega óframkvæmanleg. Mér er tjáð að hæstv. félmrh. hafi viðurkennt það með því að gefa út reglugerð um hátíðarnar sem mun að verulegu leyti víkja frá þeim reglum sem lögin kveða á um. Þess vegna bæti ég við þeirri fsp.: Hyggst hæstv. félmrh. bera fram frv. um breytingar á útreikningsreglum vegna endursöluíbúða í verkamannabústaðakerfinu?