29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2412 í B-deild Alþingistíðinda. (1911)

223. mál, reglugerð um endursöluíbúðir

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil taka fram að lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem tóku gildi 1. júlí s.l. , fengu þinglega meðferð. sjálfsagt er hægt að deila um hvort einhver ákvæði í þeim lögum ættu að vera á annan veg en þar kemur fram, en það er eigi að síður staðreynd.

Þessi lög tóku gildi 1. júlí s.l. og ég hef ekki orðið var við það að Húsnæðisstofnun væri í sérstökum vandræðum með framkvæmd þeirra. Að vísu komu upp ágreiningsefni í sambandi við endursölu á verkamannabústöðum sem byggðar voru fyrir árið 1980, en það leystist. Eins og kom fram í svari áðan er búið að verðleggja og meta allar íbúðir sem biðu eftir slíku mati og ég veit ekki um sérstök vandamál þar í dag.

Í sambandi við drátt á reglugerðum með lögunum, sem tóku gildi 1. júlí 1984, vil ég segja að beitt hefur verið nákvæmlega sömu aðferð og alltaf hefur tíðkast. Húsnæðisstofnun ríkisins hefur unnið að þessum reglugerðum. Hvort tala má um að afköst séu lítil eða ekki skal ég ekki segja. Menn hafa viljað vanda þessar reglugerðir vel og gefa þær út allar í einu. Þess vegna hefur þetta tekið lengri tíma.

Eins og ég sagði hér áðan verður lokafundur í Húsnæðisstofnuninni um þessar reglugerðir allar núna í vikulokin og ég vona að það valdi ekki meiri truflun.