29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2412 í B-deild Alþingistíðinda. (1913)

224. mál, framlagning frumvarps um umhverfismál

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram fsp. á þskj. 277 til félmrh. um framlagningu frv. um umhverfismál. Fsp. er svohljóðandi:

„Hvenær er þess að vænta að lagt verði fram frv. það um umhverfismál sem félmrh. boðaði á síðasta þingi?“ Ástæðan til þess að ég beini þessari fsp. til hæstv. félmrh. er sú, að á síðasta þingi báru sex þm. Sjálfstfl. fram frv. til l. um umhverfismál á þskj. 268, 163. mál. Að beiðni félmrh., eftir að frv. var komið fram, var beðið með að mæla fyrir því og koma því til nefndar á venjulegan máta þar sem hann boðaði að hann mundi sjálfur leggja fram annað frv. um sama efni síðar á þinginu. Sú fyrirætlan brást hins vegar og slíkt frv. var ekki lagt fram af hálfu ráðh. með þeim afleiðingum að ekkert frv. um umhverfismál var afgreitt á síðasta þingi. Við sem að frv. sjálfstæðismanna stóðum höfum ekki endurflutt það nú í ljósi fyrri yfirlýsinga félmrh., en nú er haustþingi lokið án þess að nokkuð hafi gerst í málinu og því er þessi fsp. hér fram komin.

Langeinföldust lausn þessa máls væri vitanlega sú að félmrh. legði fram það frv. sem í fyrra var flutt með þeim breytingum á því sem hann telur æskilegt að gera. Á þann hátt gæti enn tekist að fá samþykkta nýja lagasetningu um umhverfismál á þessu þingi. Ástæða er til að undirstrika það hér að það frv. var á sínum tíma samið af hópi sérfræðinga, þ. á m. af þremur ráðuneytisstjórum þeirra rn. sem í mestum mæli fjalla um umhverfismál hér á landi. Það var síðan flutt sem stjfrv. undir vor árið 1978, en náði þá ekki fram að ganga. Síðan hefur frv. þetta verið flutt tvisvar lítils háttar breytt, í síðara sinnið á síðasta þingi svo sem ég gat um áðan.

Það var fyrir níu árum, árið 1975, sem þáv. ríkisstj. taldi brýnt að hafist væri handa um setningu heildstæðrar umhverfislöggjafar hér á landi. Hafi á því verið talin nauðsyn fyrir nær áratug að setja slíka löggjöf er tvímælalaust enn þá brýnna að hún nái fram að ganga nú. Meginmarkmið slíkrar löggjafar er að setja ítarleg lagaákvæði um varnir gegn mengun hér á landi í lofti, láði og legi. Slík ákvæði eru af mjög skornum skammti nú í lögum og þar búum við raunar við óviðunandi ástand.

Í öðru lagi skortir nær alveg í lög ákvæði um atvinnurekstur sem sérstök mengunarhætta stafar af, starfsleyfi fyrir slík fyrirtæki og varúðarráðstafanir allar. Á það ekki síst við um stóriðju nútíðar og framtíðar. Um bæði þessi vandamál er ítarlega fjallað í frv. því sem hér var borið fram á síðasta þingi og auk þess sérstaklega tekið á stjórnsýsluþætti umhverfismála sem í dag er í miklum molum. Raunar heyra umhverfismál, þótt undarlegt megi virðast, sennilega undir a.m.k. sjö rn., hinir ýmsu þættir þeirra, og getur hver maður séð hve mikil brotalöm er á slíkri stjórnsýslu. Raunar hafa menn sett það markmið að öll yrði sú stjórnsýsla sameinuð í einu nýju umhverfisráðuneyti þó svo í frv. sem borið var fram á síðasta þingi sé ekki gert ráð fyrir að það skref verði stigið strax í upphafi, heldur að sérstakri sjálfstæðri stjórnardeild í stjórnarráðinu verði falin stjórnsýsla þessara mála.

Þótt ekki væri nema til að fá samþykkt ákvæði um þessi þrjú svið umhverfismála er hér hin mesta nauðsyn á nýrri löggjöf. Slík löggjöf hefur aldrei verið sett hér á landi og má þó fullyrða að óvíða sé hennar meiri nauðsyn en í þessu norðlæga landi þar sem náttúran er óvenjuviðkvæm og mengun hvers konar er því hættulegri tjónvaldur en víðast annars staðar.