29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2432 í B-deild Alþingistíðinda. (1937)

118. mál, umhverfismál og náttúruvernd

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir svör við fsp. mínum. Skv. því sem hann greindi frá eru þar vissir þættir sem munu, ef að líkum lætur, koma hér inn í þingið til meðferðar á yfirstandandi þingi og er það út af fyrir sig vel.

Ég vil hins vegar, án þess að lengja þetta mál, hvetja hæstv. ráðh. og ríkisstj. mjög eindregið til að reyna að taka þessum málum, umhverfismálunum, verulegt tak í sambandi við stjórnsýsluna og meðferð þessara mála innan stjórnkerfisins. Ég held að við séum á vissum tímamótum í þessum málum. Ef ekki tekst nú, í tengslum við umræður og tillögugerð um Stjórnarráð Íslands, að breyta til mjög verulega hvað þennan málaflokk snertir, þá er ég uggandi um að við komum þeim í það horf sem brýn nauðsyn krefur. Við erum orðnir mjög miklir eftirbátar grannlanda okkar hvað snertir meðferð þessara mála. Þörfin á að taka þau út frá nýrri sýn ætti að vera orðin sameign landsmanna eftir þá miklu umr. sem fram hefur farið um umhverfismálin á undanförnum 10 árum. En ef ekki tekst að brjóta þarna í blað, þá er ansi hætt við að það reynist dýrkeypt og það geti orðið bið á því að við komum þessum málum í það horf sem þarf.

Ég hygg að ekki þurfi að hvetja hæstv. félmrh. til dáða að þessu leyti. En ég geri mér alveg ljóst að það getur verið þungt fyrir fæti hjá einstökum fagráðuneytum að taka á þeim málum sem snerta stjórnarráðið allt að heita má. Það hefur verið vísað til þess í umr. um þessi mál að þættir, sem greinilega snerta umhverfismálin, mjög veigamikla þætti, eru nú komnir undir valdsvið ekki færri en sex ráðuneyta og kannske eru þau fleiri. Ég er ekki þar með að segja að sameining allra þessara þátta undir einu rn. sé einhver allsherjar lausn. Það getur vissulega verið álitamál með hvaða hætti málum er fyrir komið í stjórnkerfinu og með góðu samstarfi er hægt að þoka málum fram þó undir fleiri en eitt rn. heyri. Þó tel ég að reynslan hafi kennt okkur að nauðsynin á að koma meginþáttum þessara mála undir einn ábyrgðaraðila sé ótvíræð og ekkert eitt atriði sé líklegra til úrbóta í þessum málum nú á næstunni, fyrir utan nauðsynlegt fjármagn til aðgerða, en einmitt það að finna þeim réttan og eðlilegan farveg í okkar stjórnkerfi.