29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2445 í B-deild Alþingistíðinda. (1948)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég hef óskað eftir því að taka til máls utan dagskrár til að ræða það ástand sem verið hefur í atvinnumálum fiskvinnslufólks að undanförnu og bágborna stöðu sjávarútvegs á Suðurnesjum.

Frá því um miðjan desember hefur vinnsla fiskjar á Suðvesturlandi verið afar takmörkuð. Hundruð og aftur hundruð verkafólks hafa bæst í hóp atvinnulausra. Er talið að 75% af þessu vinnuafli séu konur. Á Suðurnesjum hefur ástandið verið sýnu verst, en þar voru fyrstu vikuna í janúar allt fram til þessa dags á sjötta hundrað manns atvinnulaus. Þetta sama fólk hefur að stærstum hluta verið án atvinnu frá því um mánaðamót nóvember og desember. Í Hafnarfirði hafa rúmlega 200 manns verið atvinnulaus frá 6. okt. s.l. Í Reykjavík misstu 236 verkakonur atvinnu á Þorláksmessu og eru margar þeirra atvinnulausar enn.

Á sama tíma og fjöldi kvenna í fiskiðnaði í Reykjavík er atvinnulaus eru dagblöðin full af auglýsingum frá hvers konar þjónustuaðilum þar sem óskað er eftir starfsfólki til vinnu. Það þýðir ekki að fiskvinnslufólk eigi greiðan aðgang að þeirri atvinnu, enda oft erfitt fyrir rosknar konur eða einstæðar mæður að skipta yfir í verslunar- eða önnur þjónustustörf á skömmum tíma. Þar kemur til sú staðreynd að fólk sem unnið hefur lengi í fiski hefur aflað sér sérþekkingar sem hvergi nýtist nema í fiskiðnaði. Það er líka oft þannig að bönd milli almenns verkafólks og sjávarútvegs eru sterk eftir áratuga þjónustu, bönd sem erfitt er að slita þrátt fyrir erfiða afkomu.

Þessar atvinnuauglýsingar sýna hins vegar hvað þrífst best þessa dagana, þ.e. verslun og hvers konar þjónustustarfsemi. Þær sýna líka hversu fiskiðnaðurinn hefur sett niður, að sjávarútvegur er á fallanda fæti. Á Suðurnesjum er hins vegar svo komið að atvinnuauglýsingar berja menn ekki augum. Reyndar er svo komið á því landssvæði að á undanförnum árum hefur mikil þensla átt sér stað á sumrin, en strax að hausti og út veturinn hefur atvinnuástandið verið afleitt. Ástandið hefur þó ekki orðið erfiðara þar en einmitt nú. Þar hefur ríkt óþolandi atvinnuleysi sem verður að bæta úr.

Hjá Verkamannasambandi Íslands og í þingflokki Alþfl. hafa þessi mál mikið verið rædd. Í ályktun Verkamannasambandsins segir, með leyfi forseta:

„Verkamannasamband Íslands mótmælir því réttindaleysi og atvinnuleysi sem fólk í fiskiðnaði býr við og varar við þeirri þróun sem nú á sér stað þegar þrautþjálfað fiskverkunarfólk flýr í önnur störf vegna öryggisleysis sem það býr við og lélegrar afkomu í atvinnugreinum.“

Og síðar segir:

„Ótrúlegur fjöldi fjölskyldna á lífsafkomu sína undir því að þessi atvinna sé stöðug og traust. Skv. samningum og lögum, sem ekki virðist viðlit að fá breytt, er hægt að segja þessu fólki upp störfum hvenær sem er ef hráefni er ekki fyrir hendi. Skiptir engu máli hvort viðkomandi er búinn að vinna þrjá mánuði eða þrjátíu ár í starfsgreininni. Þessu þarf að breyta. Einnig þarf að breytast sá hugsunarháttur, sem nú ríkir, að það séu engin tíðindi þótt hundruðum verkakvenna sé sagt upp störfum og það þó þær uppsagnir eigi sér stað í jólamánuðinum þegar útgjöld fjölskyldunnar eru hvað mest.“

Ég verð að játa að það er nöturleg staðreynd að það þykja ekki tíðindi lengur þegar hundruð, jafnvel þúsundir verkafólks eru atvinnulaus. Það er gjarnan sagt: Já, þetta er tímabundið, þetta fylgir þessum árstíma o.s.frv. Það er skelfilegt þegar sú hugsun kemur fram að þetta ástand sé eðlilegt. Það eru mannréttindi að hafa atvinnu og það er í fyllsta mæli óeðlilegt þegar þau mannréttindi eru ekki fyrir hendi. Ég minni líka á að ástandið er nú mun verra í þessum efnum en fyrr.

Lengi hefur verkalýðshreyfingin barist fyrir auknum réttindum fiskverkunarfólks. Það hefur stundum tekist að stíga fetið fram á við en aldrei nóg. Nú vill svo til að á borðum alþm. liggur frv. til l. um breyt. á lögum um uppsagnarfrest sem Guðmundur J. Guðmundsson, Jóhanna Sigurðardóttir o.fl. flytja. Af því tilefni leyfi ég mér að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann muni beita sér fyrir samþykkt þess frv., hvort hann muni á þann hátt slást í lið með þeim sem vilja auka öryggi fiskverkunarfólks á vinnumarkaðnum.

En það eru fleiri spurningar sem leita á. Ég spyr hæstv. sjútvrh.: Hvernig stendur á því að leyft er að flytja hundruð útlendinga til starfa í fiskiðnaði á Vestfjörðum meðan hundruð verkakvenna og verkamanna eru án atvinnu á Suðurnesjum, í Reykjavík og Hafnarfirði? Hvað um aflamiðlun? Er réttlætanlegt að kvótinn njörvi suma landshluta niður í atvinnuleysi á meðan ofþenslan er slík annars staðar? Á Suðurnesjum er nú svo komið að hvert skipið á fætur öðru er selt af svæðinu vegna rekstrarerfiðleika. Talið er að níu þúsund tonna kvóti hafi þannig á skömmum tíma verið fluttur frá Suðurnesjum. Eftir situr verkafólkið verkefnalaust, atvinnulaust. Fiskvinnslufyrirtækin sem eftir eru skortir hráefni og viku eftir viku koma til með að falla niður vinnsludagar vegna hráefnisskorts ef að líkum lætur. Ég spyr hæstv. sjútvrh.: Er það staðföst ætlun hans að láta kvóta fylgja skipi hvernig sem atvinnuástandið er á því svæði sem skipið kemur frá? Eru það útgerðarmenn skipa sem einir eiga fiskinn í sjónum? Á verkafólkið engan rétt?

Mér er það ljóst að sjávarútvegurinn á í erfiðleikum þrátt fyrir að síðasta ár var eitt það fengsælasta í sögu þjóðarinnar. Ástæðan er sú helst að sjávarútvegurinn er fórnardýr efnahagsstefnu ríkisstj. Margir útvegsmenn hafa freistast til að flytja fisk út ferskan í gámum í þeirri von að fá meira verð fyrir fiskinn eða til að fá beinharða peninga strax í reksturinn. Ég veit að oft tekst að fá gott verð og það væri afturhaldssemi að leggjast alfarið gegn þeirri þróun eða þeim nýjungum sem nú eru mögulegar með nýrri flutningatækni. En slíkar breytingar verða að taka mið af atvinnuástandi sem er í landinu hverju sinni.

Á Suðurnesjum er mikið um að fiskur sé fluttur út í gámum. Mér er kunnugt um af viðtölum við menn í sjávarútvegi á Suðurnesjum að í mörgum tilfellum fæst lægra verð fyrir fisk sem fluttur er út í gámum en ella mundi fást. Ég spyr hæstv. sjútvrh.: Er fylgst með því á hvaða verði gámafiskurinn er seldur? Hefur verið kannað hvort það er alltaf hagkvæmara að selja fiskinn ferskan, þar sem verkamannshöndin kemur vart nálægt, en selja hann til frystingar hér heima?

Það má ljóst vera að ef sjávarútvegur er rekinn af þrótti og afkoma hans eðlileg eru engin atvinnuvandamál fyrir hendi. Málum er hins vegar þannig háttað að afkoma sjávarútvegs er afar erfið, eins og ég gat um áðan. Svo hefur reyndar verið um langt skeið. Lausaskuldir hafa hlaðist upp og þeim úrræðum einum beitt að framkalla skuldbreytingu sem aftur hefur haft það í för með sér að eignarhlutfall útgerðaraðila hefur sífellt minnkað. Ef svo heldur áfram sem verið hefur er þess skammt að bíða að sjóðaófreskjan eignist alla útgerð á Íslandi.

Ég fullyrði að sjávarútvegur er verr kominn á Suðurnesjum en annars staðar á landinu, sem rekja má til ýmissa orsaka. Um skeið guldu Suðurnesin svokallaðrar byggðastefnu þar sem Framkvæmdastofnun neitaði að veita fyrirtækjum á Suðurnesjum sömu fyrirgreiðslu og tíðkaðist annars staðar. Þá er það staðreynd að skreiðarverkun hefur verið afar mikil á svæðinu og sitja menn nú uppi með mikið af óseljanlegri vöru sem vissulega hefur óheyrilegan kostnað í för með sér. Sú staðreynd að fjöldi skipa hefur nú verið seldur af svæðinu án þess að nokkuð komi í staðinn segir sína sögu. Það segir þá sögu að fyrirtæki annars staðar á landinu eru betur í stakk búin til að reka útgerð, hafa efni á að kaupa sér ný skip fremur en aðrir. Í ljósi þessa tel ég að taka þurfi málefni sjávarútvegs á Suðurnesjum sérstökum tökum. Gera þarf sérstakt átak til að útgerð og fiskvinnsla á þessu svæði haldi ekki áfram að koðna niður.

Ég minnist þess að í málefnasamningi síðustu ríkisstjórnar var ákvæði um atvinnuuppbyggingu eða átak í atvinnumálum á Suðurnesjum. Reyndar var þetta stefnuatriði sett í kaflann um utanríkismál svo að ljóst má vera að höfundar þess hafa haft litla hugmynd um að útgerð og fiskvinnsla eru aðalatvinnuvegur Suðurnesjamanna. Reyndin varð sú að ekkert var gert með þetta ákvæði, hvorki á sviði sjávarútvegsmála, iðnaðar né í öðru. Og áfram hallar undan fæti í sjávarútvegsmálum á þessu svæði og svo mun enn verða ef ekkert verður að gert.

Á sama tíma og svo er komið fyrir útgerðinni heyja sjómenn kjarabaráttu sem byggist á þeirri staðreynd að laun sjómanna hafa rýrnað meira en laun almennt í landinu. Ég óttast að náist ekki samkomulag milli aðila á næstu dögum telji sjómenn sig tilneydda til að boða til vinnustöðvunar. Stöðvist flotinn verður fiskverkunarfólk atvinnulaust enn á ný, ekki aðeins það fólk sem verið hefur meira og minna atvinnulaust síðan í október eða desember heldur þúsundir manna um land allt. Þróun samningamála skiptir því fiskverkunarfólk miklu máli. Því spyr ég hæstv. sjútvrh.: Er að vænta aðgerða í sjávarútvegsmálum sem gera auðveldara fyrir deiluaðila að ná saman? Mun ríkisstj. beita sér fyrir því að til vinnslustöðvunar þurfi ekki að koma á ný? Mun ríkisstj. beita sér fyrir því að atvinnuöryggi þess fólks, sem vinnur að undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, verði betur tryggt en verið hefur?