30.01.1985
Neðri deild: 37. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2492 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

207. mál, afréttamálefni

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 42 12. maí 1969, um afréttarmálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum, á þskj. 244. Frv. fjallar um breytingar á lagareglum um búfjármörk og útgáfu markaskráa. Það tekur því aðeins til eins þáttar af mörgum í lögum um afréttarmálefni, fjallskil o. fl., en þau lög voru upphaflega sett 1969.

Búfjármörk hafa lengi gegnt mikilvægu hlutverki hér á landi, enda aðalsönnunargagnið um eignarrétt manna á búfé og þá sérstaklega sauðfé. Telja má víst að strax á landnámsöld hafi menn farið að merkja sér búfé sitt með einhverjum hætti vegna samgangs þess í högum. Reglur íslenskra laga um búfjármörk hafa að stofni til verið hinar sömu allt frá gildistíma Grágásar. Þannig voru flestar reglur Grágásar um þessi efni teknar óbreyttar upp í Jónsbók og giltu þau ákvæði þar til lög nr. 42/1969 tóku gildi, en markareglur Jónsbókar voru teknar upp í þau lög með nokkrum breytingum.

Aukin útbreiðsla smitsjúkdóma í sauðfé, eins og riðuveiki síðustu ár, hefur kallað á auknar varúðarráðstafanir varðandi samgang sauðfjár. Sammerkingar, þ.e. notkun fleiri en eins fjáreiganda á sama marki, á þeim svæðum þar sem vænta má samgangs sauðfjár auka hættu á útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og skapa erfiðleika við framkvæmd varúðarráðstafana vegna þeirra.

Það var því á árinu 1980 að þáv. landbrh. skipaði nefnd til að endurskoða gildandi reglugerð um mörk og markaskrá og takmörkun á sammerkingu búfjár. Var nefndinni falið að vinna enn frekar en áður hafði verið gert að útrýmingu á sammerkingu. Í þessari nefnd áttu sæti Halldór heitinn Pálsson fyrrv. búnaðarmálastjóri, formaður, Haukur Jörundarson, þá skrifstofustjóri í landbrn., og Gísli Andrésson bóndi á Hálsi í Kjós. Gísli tók sæti Jóns Kristjánssonar, rannsóknarmanns, í nefndinni við andlát hans 1981.

Við athugun nefndarinnar á markaskrám útgefnum árið 1979 kom í ljós að enn var við lýði fjöldi hættulegra sammerkinga. Í lögum eru hins vegar ekki ákvæði sem banna núverandi sammerkingar sauðfjár þótt hættulegar teljist, heldur aðeins takmarkanir á upptöku nýrra marka. Að óbreyttum lögum er því ekki hægt að skylda mann til að láta af marki vegna reglna um sammerkingar. Taldi nefndin því nauðsynlegt að fá sett í lög ákvæði er banni allar hættulegar sammerkingar og jafnframt að sú kvöð yrði lögð á markaverði landsins að útrýma slíkum sammerkingum við útgáfu næstu markaskráa sem allar eiga að koma út árið 1987. Þá lagði nefndin áherslu á að settar yrðu sérstakar reglur um hvernig bæri að úrskurða um rétt manns til að halda marki sínu.

Tillögur nefndarinnar og umsagnir Búnaðarþings 1983 og 1984 eru grundvöllur þessa frv., en það er samið í landbrn. og hafa þar unnið að því verki Bjarni Guðmundsson aðstoðarmaður ráðh. og Tryggvi Gunnarsson, þá deildarstjóri.

Frv. um sama efni var lagt fram á Alþingi vorið 1983, en kom ekki til umr. Er frv. nú lagt fram nokkuð breytt. Þær breytingar sem hér er lagt til að gerðar verði á markareglum laga nr. 42/1969 raska ekki þeim grunni sem byggt hefur verið á allt frá gildistíma Grágásar nema hvað lengra er nú gengið í banni við sammerkingu sauðfjár og ýmsar reglur settar til að tryggja frekari samræmingu við notkun marka og gerð markaskráa.

Þá felast í þessu frv. nýmæli vegna breyttra viðhorfa og nýrrar tækni. Skulu nú nefndar helstu breytingar og nýmæli sem felast í frv.:

Samhliða notkun eyrnamarka, brennimarka og hornamarka hafa svokölluð plötumerki, t.d. úr plasti, orðið æ útbreiddari á síðustu árum og að þeim þykir hagræði. Í frv. er lagt til að slík plötumerki með tiltekinni lágmarksáletrun verði löggilt sem fjármark.

Þá er í frv. veitt heimild til að löggilda frostmerkingar sem mörk á hrossum og nautgripum. Frostmerkingar hafa ekki verið reyndar nægilega hér á landi til þess að ákvæði þar um geti verið annað en heimild fyrir ráðh., en vonandi verður þess ekki langt að bíða að slíkar merkingar verði teknar upp til mikils hagræðis fyrir hrossaeigendur.

Þó að áfram sé í frv. fylgt þeirri grundvallarreglu að markavarsla og útgáfa markaskráa verði verkefni stjórna fjallskilaumdæma heima í héraði þykir nauðsynlegt, til að tryggja árangur við útrýmingu hættulegra sammerkinga, að fela aðilum sem taka til landsins alls að sinna tilteknum verkefnum eða hafa heimild til að fjalla um slík verkefni. Þannig er í frv. gerð tillaga um að heimilt verði að fela Búnaðarfélagi Íslands að hafa umsjón með samræmingu á gerð og útgáfu markaskráa og upptöku nýrra marka og ákveða megi að öll mörk í landinu skuli sameiginlega færð í tölvu í umsjón Búnaðarfélags Íslands.

Annað dæmi um aðila sem tekur til landsins alls skv. frv. er markanefnd sem síðar verður vikið að. Varðandi ákvæðið um notkun tölvu við færslu á markaskrám er þess að geta að Búnaðarþing hefur í umfjöllun sinni um frv. lagt á það áherslu að sett verði ótvíræð heimildarákvæði þar um og telur að því verði að beita eigi lagasmíð þessi að ná tilgangi sínum. Það skal tekið fram að skv. frv. eiga stjórnir fjallskilaumdæma að greiða kostnað Búnaðarfélagsins vegna þessarar tölvuvinnslu í hlutfalli við markafjölda, en tölvubúnaður og önnur aðstaða eru til staðar hjá félaginu til að sinna þessu verkefni.

Í frv. eru rýmkaðar heimildir stjórna fjallskiladeilda til að leggja á markagjöld og markavörslu er heimilað að geyma mark.

Þá eru í frv. ítarlegri reglur um sammerkingar sauðfjár en nú eru í lögum og nýmæli er að reglurnar ná til sammerkinga sem þegar eru fyrir hendi. Settar eru reglur um hvernig beri að leysa úr ágreiningi um rétt manna til að halda mörkum og komið er upp sérstakri úrskurðarnefnd, markanefnd, og er í vissum tilvikum skylt að skjóta til hennar ágreiningi um mörk. Í öðrum tilvikum er það á forræði þeirra sem í hlut eiga hvort þeir skjóta ákvörðun markavarðar til nefndarinnar.

Það skal tekið fram að við setningu laga nr. 42/1969 var lagt til að komið yrði á fót úrskurðaraðila með svipuðum hætti og gert er ráð fyrir að markanefnd starfi. Í meðferð Alþingis var slíkt ákvæði fellt niður og taldi sú þingnefnd sem um málið fjallaði rétt að þessum málum yrði ráðið til lykta í héraði og óþarft væri að koma á slíkri landsnefnd. Það var eindregin tillaga þeirrar nefndar sem skipuð var 1980 til að endurskoða reglur um þessi mál, og Búnaðarþing hefur tekið undir hana, að komið yrði á slíkri úrskurðarnefnd því að þannig sé unnt að tryggja fullt samræmi við úrlausn þeirra ágreiningsmála sem kunna að rísa vegna útrýmingar á óleyfilegum sammerkingum og framkvæmd reglna um mörk.

Að síðustu skal vakin athygli á því að uppröðun efnisatriða hefur og nokkuð verið breytt frá IX. kafla laga nr. 42/1969.

Vegna lögboðinnar útgáfu næstu markaskráa, sem gefnar skulu út samtímis um allt land árið 1987, er brýnt að frv. þetta hljóti afgreiðslu hér á Alþingi sem fyrst.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. landbn. og 2. umr.