30.01.1985
Neðri deild: 37. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2509 í B-deild Alþingistíðinda. (1994)

Fundarsókn þingmanna

Forseti (Karvel Pálmason):

Út af þeim umr., sem hér hafa átt sér stað um fjarveru þingmanna, eru það að mati forseta réttar ábendingar og athugasemdir að óvenjumikill fjöldi hv. þdm. er með fjarvistarleyfi, fjarvistarbeiðni, eins og það er nú orðað. Hvort það er meira nú en oft hefur verið áður skal ekkert mat á lagt af minni hálfu. En allt hefur þetta nú gengið eðlilega að mér finnst í dag þrátt fyrir fjarveru allra þessara ágætu hv. þm. og vart undan því að kvarta í bili a.m.k.

En varðandi hitt atriðið, sem hv. 3. þm. Reykv. beindi til mín um að ég beitti mér fyrir fundi með forsetum og skilaði áliti helst fyrir byrjun þingfundar á morgun, er þess að geta að það er afskaplega erfitt um vik fyrir mig þar sem bæði forseti Nd. og forseti Sþ. eru fjarverandi og verða líklega ekki komnir til landsins fyrr en undir helgi.

En eigi að síður skal ég koma öllum þessum skilaboðum á framfæri. Ég skal beita mér fyrir því þegar aðalforsetar koma til landsins að haldinn verði fundur með þingflokksformönnum og forsetum þar sem þessi mál verða öll rædd. Ég tek mjög undir það að nauðsynlegt er að þarna verði gerð frekari skil á milli hvað menn telja eðlilegt og óeðlilegt. Hvort menn telja þingið starfhæft með svo miklum fjarvistum, það ætla ég ekki að leggja mat á að þessu sinni.