04.02.1985
Efri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2574 í B-deild Alþingistíðinda. (2039)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér í þessar umr., en mér finnast þær svo merkilegar að ég vil gjarnan vekja athygli á því enn frekar en orðið er, sem menn hér hafa verið að segja, þm. úr þrem stjórnmálaflokkum. meira og minna sammála um merginn málsins, þ.e. að sú einokun sem að vísu var af einhverjum ræðumanna kölluð einokun olíufélaganna, sem er nú aldeilis ekki rétt, þetta er einokun ríkisins og olíufélögin njóta hagnaðarins á þessari ríkiseinokun. Það er ekki til neitt sem heitir frjáls viðskipti með olíu á þessu landi. Látum vera þó að einokun væri hér um smásöluna og menn græddu hér hver á öðrum, það skilar sér allt saman einhvern veginn í þjóðarbúið, en það eru útlendingarnir sem græða á okkur. Við kaupum inn olíur á miklu, miklu hærra verði en nokkur önnur þjóð í veröldinni. Hér er alltaf verið að tala um einhver viðmiðunarverð, en innkaup á þessum viðmiðunarverðum gerir enginn annar. Verðin eru allt önnur á markaðinum en þessi viðmiðunarverð.

Þetta mál er svo stórt. það er búið að skaða þessa þjóð svo gífurlega, að nú ber okkur alþm. að taka höndum saman um að uppræta þetta kerfi í eitt skipti fyrir öll og það vona ég að við náum samstöðu um í fjh.og viðskn.