04.02.1985
Neðri deild: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2599 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

267. mál, stjórn efnahagsmála

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er flutt og heitir „Breyting á lögum um stjórn efnahagsmála“, er um húsnæðismál. Ástandið í þeim málum var kannske best lýst í sjónvarpsþætti sem vakti nokkra athygli með þjóðinni fyrir skömmu. Það voru kvaddir til þeir menn sem helst þykja dómbærir að ræða um húsnæðismál fyrir utan sjálfan hæstv. húsnæðismálaráðh. Hverjir voru það? Það var uppboðshaldari borgarfógetaembættisins í Reykjavík sem hafði frá þeim tíðindum að segja að á fyrstu níu mánuðum liðins árs hefði uppboðsbeiðnum, kröfum, fjölgað með þeim hætti að þær væru að nálgast 20 þúsund.

Við hvern var talað næst? Það var talað við geðlækni. Það er akkúrat rétti maðurinn til þess að tala við um ástand húsnæðismála á Íslandi. Það á að tala um þau aðallega við geðlækna. Hvað hafði geðlæknirinn um þessi mál að segja? Hann hafði það til málanna að leggja að ástandið í þessum málum þýddi að fjölskyldur væru að leysast upp, að geðheilsu manna væri í stórum stíl hætt, að menn væru ekki bara að kikna í hnjáliðunum, menn væru að gefast upp á því sem ágætt nýyrði er til um, notað í blaðinu NT, á því sem kalla má húsnæðismálafáránleikann á Íslandi. Þó að ekkert annað kæmi til en þessi húsnæðisfáránleiki sem við höfum fyrir augunum, þá nægir hann til þess að sýna okkur að Ísland er ekkert velferðarríki lengur. Það er afskræmt verðbólguspilavíti, þjóðfélag sem er ekki mönnum bjóðandi. Og heimskan, ábyrgðarleysið, sem ríður við einteyming í þessum málum, er svo yfirgengilegt að það er varla hægt að ræða það með jafnaðargeði.

Það gerðist hér í þann mund sem núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum að upp kom hópur manna sem kenndi sig við Sigtún, hélt mikinn fund í Sigtúni til þess að ræða húsnæðismál. Þeir settu fram tvær kröfur:

1. Að lán til íbúðarkaupa yrðu hækkuð sem hlutfall af byggingarkostnaði.

2. Að lánstíminn yrði lengdur nægilega mikið til þess að greiðslubyrði af húsnæðislánum yrði viðráðanlegt hlutfall af launum.

Þetta voru kröfurnar. Ekki einn einasti maður af öllum þeim fjölda sem þar var saman kominn og enginn af þeim, sem þar tóku til máls, lét hvarfla að sér að taka undir blekkingar og vitleysu stjórnmálamanna frá fyrri tíð um það að það ætti að afnema verðtryggingu sparifjár eða verðtryggingu lána. Ekki einn einasti af þessum mönnum, sem þó voru að sligast undan þeim byrðum sem á þá höfðu verið lagðar, tók undir það. Mönnum var öllum orðið það ljóst að menn sem fá lán eiga að borga sín lán til baka. Um það er engin deila lengur nema þegar ómerkilegir pólitíkusar eru stundum að reyna að koma höggi hver á annan með blekkingum. Deilan er ekkert um það.

Reyndar var sú aðgerð, að koma á verðtryggingu fjárskuldbindinga, eina efnahagsmálaaðgerðin sem gerð var af viti á vitlausa áratugnum. Fyrir þann tíma, áður en það var gert, áttu sér stað hér á löngum tíma gífurlegir fjármagnstilflutningar, tilflutningar á eignum og tekjum frá venjulegu fólki, launþegum, sparifjáreigendum, til forréttindastéttar sem fékk þessi lán og notaði þau til fjárfestingar en þurfti aldrei að greiða þau til baka nema að hluta.

Í raun og veru er þessu kannske best lýst með þeim hætti að á þessu tímabili var á degi hverjum framið bankarán, einkum og sér í lagi á rosknu fólki, því fólki sem á spariféð sem er í bönkunum. Þegar ótíndir eiturlyfjapeyjar ráðast hér að gömlum konum á götum Reykjavíkur og stela af þeim töskunni þykir flestum við hæfi að þeim sé stungið inn. En á þessu tímabili, þegar bankarán var framið í palesanderhöllunum, einkum og sér í lagi kannske á rosknum konum, þá þótti við hæfi að orðunefnd kæmi að lokum með smáriddarakross fálkaorðunnar í það minnsta og verðlaunaði mennina fyrir vel unnin embættisstörf.

Þetta mál snýst ekkert um að afnema verðtryggingu. Þetta mál snýst um það að taka undir þá kröfu, sem fylgdi okkar tillögum í upphafi en var aldrei framkvæmd, um að lengja lán. Þetta mál snýst um það og það er aðeins lágmarkskrafa í þessum húsnæðisfáránleika sem nú blasir við. Það er búið að gera fjóra árganga fólks á Íslandi að algeru vanskilafólki. Síðan eru tillögurnar kannske helstar þær þegar búið er að hengja fólkið, að lengja í hengingarólinni, sem virðist vera eftirlætisúrræði íslenskra stjórnmálamanna margra hverra.

Þetta mál er út af fyrir sig eingöngu um þetta, að lengja lánstímann og miða þannig við að greiðslubyrðin af þessum lánum, sem menn eiga að borga til baka og deila ekki um, verði ekki með öllu óviðráðanleg sem hlutfall af launum.

Það er kominn til skjalanna nýr þáttur í þessu máli eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum. Það má kannske rifja upp að þau voru ekki ósmá kosningaloforðin, ekki hvað síst sem forustumenn Sjálfstfl. gáfu fyrir kosningar um það hvernig þeir mundu endurreisa heilbrigt húsnæðislánakerfi, sem þeir með réttu gagnrýndu að hefði verið komið í þrot í stjórnartíð fyrirrennara þeirra í félmrn. Við þau loforð hefur ekki verið staðið og neyðarástandið, sem ríkir í þessum málum, hafa menn látið bara sem vind um eyrun þjóta.

Það sem hefur gerst er það að eftir að vísitölubinding launa var numin úr sambandi — sem ég tel að hafi verið rétt ráðstöfun og dreg enga dul á — gerist það að auki að kaupmáttur launa er skertur mjög verulega. Engu að síður er haldið áfram að mæla þessar skuldbindingar, verðbótaþáttinn, í tengslum við lánskjaravísitölu sem magnar upp venjulegar kostnaðarhækkanir framfærslu af því að hún er þar með tvöföldu vægi á móti byggingarvísitölu. Þetta þýðir ósköp einfaldlega að maður, sem tók lán árið 1980, hvort heldur var lífeyrissjóðslán eða húsnæðismálalán, gat kannske búist við því — svo að ég taki lífeyrissjóðslán sem dæmi sem ég hef tölur um — að afborganir af þessu láni væru um 10% af launum hans. Ég er með í huga ákveðinn einstakling, ég er ekki með þessi gögn í höndunum, en seinni hluta ársins 1984 var svo komið að afborgun af þessu hinu sama láni var komin upp í 57% af launum hins sama manns. Og þetta er bara lífeyrissjóðslánið.

Þetta er auðvitað hvort tveggja í senn pólitísk svívirða og hagfræðileg heimska. Lánskjaravísitala með þessum hætti, eftir að búið er að taka sjálfvirka vísitölubindingu launa miðað við kaupgjaldsvísitölu úr sambandi, stenst ekki og getur ekki staðist. Menn hafa leikið sér að því að reikna það hvernig þessi greiðslubyrði yrði ef einungis yrði miðað við byggingarvísitölu. Dæmið yrði þá strax mun hagstæðara fyrir lántakandann.

Hæstv. húsnæðismálaráðh. fékk allt í einu fjölmennan fund í Framsóknarhofinu hérna í Reykjavík vegna þess að vanskilakynslóðin kom og vildi fá að fregna af honum hvort það ætti að skera hana niður úr snörunni eða ekki. Í vísitölumálunum í gamla daga var mikið rætt um kaffiuppskeruna í Brasilíu, þegar frostin í Brasilíu eyðilögðu kaffiuppskeruna og það leiddi til kauphækkunar á Íslandi. Nú er ástandið þannig að þessi sama frostharka í Brasilíu og eyðilegging á kaffiuppskeru þar leiðir til þess að maðurinn, sem tók húsnæðismálastjórnarlán á Íslandi 1980, má búast við því að greiðslubyrði af eftirstöðvum lána hans hækki upp úr öllu valdi vegna þess að hvort heldur það er kaffi, bensín, grænar baunir eða hvað það nú er, þá hækkar það með tvöföldu vægi í þessari samsettu lánskjaravísitölu. Þetta gengur ekki.

Það er athyglisvert að mér er sagt af ábyrgum og sannsöglum fundarmanni sem þarna var að hæstv. ráðh. hafi látið sér um munn fara þau orð að það væri ekki mikið mark tekið á svona litlum körlum eins og íslenskum ráðherrum þegar væri komið að embættismannaveldinu í Seðlabankanum. Sé þetta rétt eftir haft er ástæða til að spyrja: Til hvers er verið að halda uppi þessari stofnun sem heitir Alþingi? Hvað eru stjórnmálamenn að gera? Hvert er þeirra hlutverk? Eru þeir einhvers konar sendisveinar hjá sjálfskipuðum embættismönnum sem þykjast fara hér með öll völd og öll ráð og enginn hefur kosið til?

Mér er líka sagt að hann hafi tekið svo til orða að þeir Seðlabankamenn hafi kallað hæstv. ráðh. til sín. Mér ofbýður að heyra þetta. Hvernig í ósköpunum stendur á því að ráðh. í íslenskri ríkisstj. lætur kalla sig niður í Seðlabanka í staðinn fyrir að senda orðsendingu um að kalla hans heilagleika á sinn fund og segja honum fyrir hönd ríkisstj., ef það er einhver samstaða, eitthvert vit í henni, hvernig hlutirnir eigi að vera — en ekki öfugt?

Það er eitt enn sem verður að koma hér fram. Það er alveg ljóst að innan þessarar ríkisstj. er ekki samstaða um þetta frekar en í neinu öðru. Við höfum heyrt sára kveinstafi hæstv. húsnæðismálaráðh. út af eiginlega öllum þáttum húsnæðismála þar sem hann hins vegar býr við það ok að sjálfstæðismenn skella á hann hurðum eða segja honum að halda sér saman í hverju málinu á fætur öðru að því er varðar húsnæðismál. Það er bæði að því er varðar vaxtamál, það er auðvitað að því er varðar fjáröflunina og það er varðandi tillögurnar um Búseta. Og örfá orð um það.

Halda þeir menn sem hér eru inni á hinu háa Alþingi að það geti gengið til lengdar eftir að búið er að taka upp verðtryggingu skuldbindinga, eftir að búið er að skerða laun á Íslandi með þeim hætti sem við blasir, að það sé hægt að bjóða ungu fólki upp á það að sæta þeim kostum á leigumarkaði að eiga að borga af 16–17 þús. kr. launum 12–13 þús. kr. húsaleigu? Hvernig á það dæmi að ganga upp? Þetta er auðvitað ekki mönnum bjóðandi.

Og hvað á að gera? Það liggur alveg ljóst fyrir að verðtryggingin breytti öllum forsendum í þessum málum. Við verðum að endurskipuleggja þetta ónýta húsnæðislánakerfi algerlega frá grunni. Það verður að koma á skipulegum leigjendamarkaði vegna þess að það er ljóst að hluti fólks mun hér eftir ekki ráða við það verkefni á venjulegum launum að taka á sig þær byrðar vegna fjárfestingar í 5–10 ár sem það þýðir að koma sér upp íbúð. Það verður að gera þessu fólki kleift að geta leigt íbúð með sæmilega öruggum kjörum eins og tíðkast í öllum siðmenntuðum samfélögum allt í kringum okkur. M.ö.o., þetta þýðir það að það þarf að veita Búsetahreyfingunni öruggan stuðning og trygga löggjöf og það þarf að veita fjármagni í stórum stíl í þetta húsnæðislánakerfi. Það er óhjákvæmilegt. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að Búsetakerfið er rétta leiðin til þess að skipuleggja þennan leigumarkað og mun hagkvæmari, bæði út frá sjónarmiðum ríkisins, fjárveitingavaldsins og fólksins sjálfs, heldur en verkamannabústaðakerfið, þ.e. séreignakerfi af því tagi, m.a. vegna þess að það er allt of mikið fé bundið í því kerfi vegna endurfjármögnunar.

Það er neyðarástand í húsnæðismálum á Íslandi. Það er búið að ganga svo frá málum að því er varðar a.m.k. fjóra árganga fólks, sem hefur álpast til þess að halda að þetta væri viðráðanlegt verkefni, að það er búið að leggja fjárhag þess í rúst,.leggja fjölskyldurnar í rúst. Þetta gengur ekki lengur.

Það er rétt að það komi hér fram að ég hélt nýlega tvo fundi með íslenskum námsmönnum í Osló og Kaupmannahöfn. Eftir að við höfðum rætt allrækilega um ástand mála á Íslandi spurði ég þetta fólk: Má treysta því að þið að loknu námi snúið heim til starfa á Íslandi? Má treysta því að þið séuð enn það miklir Íslendingar þrátt fyrir það að útlitið er svart að þið munið leggja eitthvað á ykkur til þess að endurreisa mönnum samboðið samfélag á Íslandi? Flestir þeirra sem svöruðu mér sögðu gallhart nei. Þegar ég gekk á þá og spurði: Hvernig stendur á því að þið svarið svona? — Þetta er kannske einhver alvarlegasta breytingin sem orðin er á íslensku samfélagi ef það er orðin staðreynd að það unga fólk, sem við sendum til náms erlendis, lítur á Ísland nú þeim augum að því sé ókleift að koma heim aftur. Hvaða afleiðingar hefur það fyrir framtíð íslensks þjóðfélags og íslenskt þjóðerni? — Svörin sem þeir gáfu voru þessi: Við komum kannske heim með 1 millj. á bakinu í námsskuldum eftir 5–6 ára háskólanám. Við gerumst síðan kennarar í þjónustu ríkisins með 17 þús. kr. á mánuði. Við byrjum að koma okkur fyrir í þessu þjóðfélagi með því að leigja okkur íbúð fyrir 12–13 þús. kr. Síðan spurðu þeir mig: Dettur þér í hug sem íslenskum stjórnmálamanni að fólk, sem á annarra kosta völ, láti bjóða sér þetta?

Mitt svar var að vísu: Mér kemur þetta ekki nokkurn skapaðan hlut við. Ef þið — fyrirgefið orðbragðið — eruð þvílíkir ræflar að þið ætlið að láta mál af þessu tagi ráða framtíðarbúsetu ykkar og þjóðerni þá er ekki mikið í ykkur spunnið. Þetta eru náttúrlega ósvífin ummæli vegna þess að það þýðir ekkert að brúka þau, ég geri mér grein fyrir því.

Staðreyndin er sú og ég held að það sé rétt að að óbreyttu er búið að úthýsa ungu fólki úr þessu þjóðfélagi. Það er nú öll dýrðin um hið íslenska velferðarríki. Húsnæðislánakerfið er annað þýðingarmesta félags- og tekjujöfnunarkerfi þessarar þjóðar fyrir utan tryggingakerfið. Það er í rústum. Þessi till. er fyrsta skrefið í þá átt að endurreisa þetta kerfi, að leysa fólkið ofan úr snörunni, bara fyrsta skrefið. Það liggur alveg ljóst fyrir hins vegar að þetta kerfi þarf að endurreisa alveg frá grunni. Það er sokkið í skuldir. Það gerðist ekki bara í tíð núv. ríkisstj. Það þarf að veita því örugga tekjustofna. Það þarf að veita verulegu fjármagni í þetta. Þess vegna höfum við flutt hér á Alþingi till. um stighækkandi eignarskattsauka til tveggja ára og þeim peningum, þeirri skattlagningu á skattsvikinn verðbólgugróða braskaranna, á að verja til þess að gera ungu fólki á Íslandi kleift að hasla sér völl og koma sér upp þaki yfir höfuðið. Það er líka lágmarksaðgerð.

Þriðja aðgerðin sem þarf að gera er að veita Búsetahreyfingunni öflugan stuðning og koma hér á skipulögðum leigjendamarkaði sem gerir fólki kleift að búa og lifa sæmilega eðlilegu lífi í þessu þjóðfélagi þó það sé ekki stóreignafólk.