05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2623 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

194. mál, höfundalög

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Mér þótti það nokkuð undarlegt þegar hæstv. forseti fór að lesa upp úr þingsköpum áðan vegna þess að hæstv. menntmrh. talaði um að hér hefði verið farið út fyrir efnið. En öldungis réttilega sagði virðulegur forseti: Hér hefur ekkert óvenjulegt gerst. Og þó að menntmrh. hafi kannske fundist þessi umr. ganga í aðrar áttir en hún vildi sjálf kjósa verður hún að una því.

Ég fagna því sem hæstv. dómsmrh. sagði áðan. Hér hafa komið fram ábendingar um margvísleg lögbrot. Hann kvaðst mundu láta athuga málið.

Hæstv. fjmrh. hefur ekki látið svo lítið að fylgjast með þessari umr. Ætlar hann að láta athuga þessi mál? Og ég leyfi mér, virðulegi forseti, að bera þessar einföldu spurningar fyrir ráðh. sem þeir geta svarað með jái eða neii: Ætlar hæstv. fjmrh. að gera eitthvað í þeim málum sem hv. þm. Pétur Sigurðsson, flokksbróðir hans, hefur lýst hér með svo sterkum orðum og alvarlegum hætti? Og ég spyr hæstv. menntmrh. Kvikmyndaeftirlitið heyrir undir hennar starfssvið. Hér hefur einn hv. þm. skýrt frá því að merki Kvikmyndaeftirlitsins séu fölsuð og notuð af óvönduðum mönnum til lögbrota. Ég spyr: Ætlar hæstv. menntmrh. að beita sér fyrir því að þetta mál verði rannsakað? Mér finnst, þó að þessi fsp. hafi ekki vera á dagskrá hér með formlegum hætti, eðlilegt að að þessu sé spurt í framhaldi og í tengslum við það sem hér hefur verið sagt. Þetta eru svo einfaldar spurningar að þeim er hægt að svara með jái eða neii ef menn hafa skoðun á málinu.