05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2640 í B-deild Alþingistíðinda. (2116)

269. mál, niðurskurður og sparnaður í ráðuneytum og stofnunum

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Mér kemur ekki á óvart að það sé nokkuð erfitt fyrir hæstv. fjmrh. að svara þessari spurningu. Mér fór á þá leið sem forstjóra einnar ríkisstofnunar og fáandi þetta bréf, sem um var getið áðan, að ég gerði grein fyrir því hvernig ná ætti þessum markmiðum og leitaði síðan leiða til að fara í kringum það með því móti að afla meiri tekna án þess að þurfa beinlínis að draga saman seglin. Það má deila um hvort farið er að þeim fyrirmælum sem gefin voru eður ei, en í mínum huga er flatur niðurskurður í þá veru sem farið var fram á óframkvæmanlegur og mun ekki takast, því miður. Í mínum huga verður að leita leiða til að fækka starfsmönnum ríkisins á einhvern hátt. Það verður sjálfsagt að leita þar ýmissa leiða; leggja niður starfsemi sem ekki er talin nauðsynleg, leggja niður ýmislegt sem ríkið ætti kannske ekki að vera að skipta sér af og er betur komið í höndum einstaklinga. Aðrar þjóðir lækka eftirlaunaaldur. Sums staðar er gripið til þeirra ráða, hjá einkafyrirtækjum t.d., að segja upp því fólki sem síðast var ráðið. En minnkun á ríkisrekstri verður ekki að neinu marki til langframa nema starfsfólki fækki og mér segir svo hugur um að starfsfólki hafi ekki fækkað hjá ríkinu á undanförnu ári, án þess að tölur liggi fyrir um það.

Ég vænti þess, eins og fyrirspyrjandi, að við fáum fyllri svör við þessu þegar upplýsingar liggja fyrir og hlakka til að fá þær.