05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2646 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

270. mál, aukafjárveitingar

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Virðulegi forseti. Það var einmitt þetta sem varð þess valdandi að ég ákvað að spyrja þessarar spurningar hérna. Ég átti einmitt sæti í fjvn. í fyrra og þá var stöðugt talað um samráð við fjvn. um þetta og um hitt og þá sérstaklega um aukafjárveitingar. Ég varð aldrei vör við slíkt samstarf. Ég verð að segja að það er alveg rétt, sem hv. 8. landsk. þm. segir, að það er eins gott að kalla þetta réttum nöfnum. Þetta er einungis samstarf við stjórnarliða í fjvn. ef það er ekki bara líka lagt fyrir þá þetta plagg og látið þar við sitja.

Orðrétt sagði hæstv. fjmrh. í okt. í fyrra um fjárlögin 1984, með leyfi virðulegs forseta:

„Forstöðumenn ríkisstofnana og fyrirtækja verða með þessum fjárlögum gerðir ábyrgir fyrir því að halda starfsemi þeirra stofnana, sem þeir bera ábyrgð á, innan ramma fjárlaga.“

Ég ætla ekki að lesa lengra í bili. Það væri fróðlegt að heyra álit fyrrv. forstöðumanns, sem hér er staddur, á því og vita jafnframt hug hæstv. fjmrh. til þess í hverju sú ábyrgð liggur. Er átt við fjárhagslega ábyrgð?

Áfram les ég, með leyfi virðulegs forseta: „Forstöðumenn ráðuneyta og stofnana verða að gera sér grein fyrir því að afgreiðsla Alþingis á fjárlögum segir til um það fé sem þeir hafa til ráðstöfunar og ekki mun á næsta ári þýða að koma í fjmrn. til að biðja um aukafjárveitingu.“

421 millj. 956 þús. aukafjárveiting. Það þýðir ekki að koma í fjmrn. og biðja um aukafjárveitingu. Hvernig ber að skilja þetta eiginlega? Ég verð að segja það alveg eins og er að mér er fyrirmunað að vita hvernig þetta á að túlkast.

Ekki var heldur vikið neitt að því sem kom fram í máli mínu áðan að það hefði verið rætt hér um óeðlilegt geðþóttavald. Þetta vald birtist í aukafjárveitingum að sögn hæstv. fjmrh. sjálfs. Það var ekkert rætt um hvernig það óeðlilega geðþóttavald yrði af hendi látið og rétturinn til aukafjárveitinga fenginn Alþingi. Það hefur ekki komið neitt fram heldur.