07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2746 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

271. mál, varnir gegn fisksjúkdómum

Flm. (Vigfús B. Jónsson):

Herra forseti. Ég fagna þeim undirtektum sem þessi þál. hefur fengið. Ég hrökk svolítið við þegar hv. þm. Kjartan Jóhannsson sagði, að vísu eftir öðrum, að við værum svo miklir göslarar að við mundum tæpast ná árangri í þessari atvinnugrein.

Nú hef ég unnið að fiskirækt meira og minna í tvo áratugi og er henni því nokkuð kunnugur. Því miður veit ég um mörg slys í fiskirækt og þau hafa orðið vegna þess að þeir, sem hlut áttu að máli, voru einmitt göslarar, vissu ekki nógu mikið. Þegar maður fer að vita mikið, þá veit maður best hvað maður veit lítið. Þessi tillöguflutningur er einmitt til þess að þær aðgerðir sem hér um ræðir mættu verða til þess að koma í veg fyrir það að menn geri einhverjar vitleysur. Það er alveg rétt að mikil þörf er á því að mönnum sé leiðbeint. Þekkingin er ekki nógu almenn og ég veit að það eru margir að fara út í þetta, eins og ég sagði áðan, og það eru einmitt þeir sem fyrst og fremst þurfa aðstoðina, ekki við sem erum búnir að vera lengi í þessu. Ég er voðalega hræddur um að einhverjir eigi eftir að fótbrjóta sig í þessu. Við viljum koma í veg fyrir það.

Ég vil ekki vera að lengja þessa umr. úr hófi fram. En mér þykir þessi þáltill. hafa fengið góðar undirtektir. Og hvað sem líður göslarahætti okkar Íslendinga trúi ég samt á framtíð þessarar atvinnugreinar. Ég endurtek þakkir fyrir góðar undirtektir sem þessi tillöguflutningur hefur fengið.