07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2761 í B-deild Alþingistíðinda. (2233)

231. mál, vaxtafrádráttur til jöfnunar á húsnæðiskostnaði

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um athugun á vaxtafrádrætti til jöfnunar á húsnæðiskostnaði, en flm. ásamt mér eru hv. þm. Kjartan Jóhannsson og Karl Steinar Guðnason. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að kanna hvernig skattafrádráttur vegna vaxtagjalda nýtist húsbyggjendum og íbúðakaupendum til jöfnunar á húsnæðiskostnaði með tilliti til mismunandi tekna og fasteignaveðskulda. Jafnframt skal á grundvelli könnunarinnar lagt á það mat hvort þennan frádrátt megi nýta betur eftir öðrum leiðum með það að markmiði að ná meiri jöfnun í húsnæðiskostnaði húsbyggjenda og íbúðakaupenda. Niðurstöður skulu lagðar fyrir Alþingi eins fljótt og auðið er og eigi síðar en við upphaf næsta þings.“

Það er ljóst að vaxtabyrði er gífurleg hjá húsbyggjendum og íbúðakaupendum, ekki síst fyrstu árin þegar oft þarf að brúa stóran hluta af kostnaðinum með skammtímalánum úr bankakerfinu. Þó ekki sé um það deilt að það sé eðlilegt að fara þá leið að veita skattaívilnanir vegna öflunar á eigin húsnæði til þess að auðvelda fólki að eignast húsnæði hefur minna verið hugsað um hversu áhrifarík eða réttlát þessi leið er til jöfnunar á húsnæðiskostnaði. Í yfirliti yfir tekju- og frádráttarliði í skattframtölum frá ríkisskattstjóra vegna álagningar 1984 kemur fram að vaxtagjöld til frádráttar vegna álagningar 1984 nema samtals 1 milljarði 241 millj. rúmri og ná til 16 480 framteljenda.

Vaxtagjöld til frádráttar eru vextir af fasteignaveðskuldum teknum til tveggja ára eða lengur til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota og til endurbóta á því og eru vaxtagjöldin frádráttarbær á næstu þrem árum frá og með kaupári íbúðarhúsnæðis og næstu sex árum frá og með byggingarári. Ljóst er að þegar á árinu 1984 eru tæplega 1 milljarður og 300 millj. frádráttarbær til tekjuskatts vegna vaxtagjalda. Þá vaknar sú spurning hvort nýta megi þessa fjármuni sem ríkissjóður verður af vegna þessa eftir öðrum leiðum sem hefði þau áhrif að sú opinbera aðstoð, sem þannig er veitt í formi niðurgreiddra vaxta, nýtist betur til jöfnunar til þeirra sem eru að afla sér húsnæðis.

Í grg. með þessari þáltill. er sýnd tafla um hvernig óafturkræf framlög ríkisins til jöfnunar húsnæðiskostnaðar er háttað á hinum Norðurlöndunum. Þær upplýsingar. sem hér koma fram, eru þannig til komnar að ég fór þess á leit við Húsnæðisstofnun ríkisins að fá lýsingu á fyrirkomulagi fjármögnunar og valkostum í húsnæðismálum á Norðurlöndum og var þess sérstaklega óskað að fá samanburð milli landa um áætlaða styrki til húsnæðismála úr opinberum sjóðum. Húsnæðisstofnunin fól Inga Val Jóhannssyni að svara beiðninni. en við upplýsingavinnslu hans vegna þessa máls kemur margt athyglisvert í ljós að því er þennan þátt varðar sem hér er til umr. og reyndar fleiri þætti sem snerta fyrirkomulag húsnæðisfjármögnunar á Norðurlöndum. Þar kemur til að mynda fram að Danir veita hlutfallslega mest af sinni aðstoð í formi skattalækkunar vegna vaxta af húsnæðislánum, eða full 78% af heildarstyrkjum ársins 1978. Tilsvarandi hlutfall í Noregi var 60%, 41% í Svíþjóð og 26% í Finnlandi.

Í töflunni kemur fram að niðurgreiðsla húsnæðiskostnaðar með skattalækkun var í Danmörku á árinu 1979 11 millj. 600 þús. danskar krónur og 6 millj. 400 þús. sænskar krónur. Rannsóknir á skattalækkunum annars staðar á Norðurlöndum vegna vaxta af húsnæðislánum sýna að þessi óbeina aðstoð fer að mestu leyti til hátekjufólks. Vegna aukinnar verðbólgu víðast hvar hefur vaxtaprósentan hækkað og leitt til meiri skattalækkunar. Niðurgreiðsla á húsnæðiskostnaði með skattaafslætti er í raun orðin umfangsmesti liður aðstoðar við húsnæðisneyslu á Norðurlöndum.

Þeirri könnun, sem þáltill. gerir ráð fyrir, er ætlað að leiða í ljós hvort þessi niðurgreiðsla á húsnæðiskostnaði hér á landi í formi skattafrádráttar vegna vaxtagjalda fari að miklu leyti til hátekjufólks eins og rannsóknir hafa sýnt að á sér stað annars staðar á Norðurlöndum. Komi það í ljós hlýtur að vera eðlilegt að leitað sé annarra leiða til að nýta þetta fjármagn í því skyni að ná fram meiri jöfnuði í niðurgreiðslu húsnæðiskostnaðar fyrir húsbyggjendur og íbúðakaupendur.

Tilgangurinn með flutningi þessarar till. er í raun tvíþættur, annars vegar að leiða í ljós hvernig vaxtafrádráttur nýtist einstökum tekjuhópum og hins vegar að kannað verði hvort haga beri niðurgreiðslum vegna húsnæðiskostnaðar með skattalækkun með öðrum hætti til að ná því markmiði að opinber aðstoð við öflun íbúðarhúsnæðis komi sem jafnast niður í hlut þeirra sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta mál nema tilefni gefist til og legg til að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til hv. allshn.