23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

43. mál, endurskoðun á ársreikningum ÍSALs 1983

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Vegna þess að hæstv. iðnrh. vék hér að því stóra máli, endurskoðun samninganna við Alusuisse vegna ÍSALs, og upplýsti hér að enn yrði bið ótilgreind á því að hann legði það mál hér fyrir þingið og veitti þinginu aðgang að því máli, þá leyfi ég mér að gera hér mjög ákveðna athugasemd.

Það er ekki aðeins að stjórnarandstaðan hafi í engu verið höfð með í ráðum eða upplýst um gang samningaviðræðna, heldur hefur hæstv. iðnrh. ekki séð ástæðu til þess að gera Alþingi grein fyrir gangi viðræðna á fyrra þingi og ekki enn á þessu þingi, þrátt fyrir yfirlýsingar sínar á Alþingi í fyrra þess efnis að Alþingi yrði látið fylgjast grannt með þessum málum og þrátt fyrir mjög ítrekaða kröfu frá hans flokki í þeirri tíð sem ég fór með þessi mál að hafa fullan aðgang að þessu máli eins og veittur var á þeim tíma. Ég vek athygli á þessum vinnubrögðum og ég áskil mér rétt til þess að taka þetta mál upp hér í þinginu utan dagskrár fyrr en seinna vegna þess að við svona vinnubrögð er ekki hægt að una að mínu mati. Það er ekki sæmandi þinginu og ekki sæmandi framkvæmdavaldinu að standa þannig að málum.